Glasafrjóvgun

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:12:30 (943)


[17:12]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar mál þetta var á dagskrá fyrr á þessu ári þá stóðu vonir til þess að hægt væri að nýta húsnæði Fæðingarheimilis Reykjavíkur sem Landspítalinn hefur með höndum í dag undir glasafrjóvgunardeild. Við nánari athugun kom það hins vegar í ljós að það húsnæði hentaði alls ekki fyrir starfsemina, m.a. vegna þess að ásigkomulag hússins varðandi öryggisbúnað er mjög slæmt og þar er ekki hægt að bæta úr þó að menn gjarnan vildu. Í framhaldi þess hefur verið kannað hvort unnt væri að færa göngudeild fæðingardeildar yfir í Fæðingarheimilið og rýmka þannig fyrir glasafrjóvgunardeildinni í húsnæði Landspítalans. Þeirri athugun er ekki lokið en talið er líklegt að þær breytingar sem þar þurfi að gera kosti ekki undir 30 millj. kr. Slíkt fjármagn er ekki tiltækt á fjárveitingum þessa árs.
    Í öðu lagi er spurt: Hve langir eru biðlistar fyrir glasafrjóvgun?
    Biðlistarnir eru nú u.þ.b. tvö ár. Afkastageta glasafrjóvgunardeildar kvennadeildar Landspítalans er um 25 pör á mánuði en deildin er rekin samfellt í tíu mánuði á ári. Það er eins með þessa þjónustu og aðra þjónustu í heilbrigðiskerfinu að um leið og hún var boðin þá skapaðist eftirspurn miklu meiri en áður hafði verið á meðan fólk þurfti að sækja þessa þjónustu út fyrir landsteinana og því áttum við satt að segja líka von á að mundi gerast.
    Þriðja spurning: Hvað tekur langan tíma fyrir þá sem síðastir eru í röðinni nú að komast að?
    Svarið við þeirri spurningu er að þau pör sem nú er verið að skrá á biðlista glasafrjóvgunardeildar geta vænst þess að meðferð geti hafist í ársbyrjun 1997.
    Fjórða spurning: Hvernig hefur meðferð þeirra sem á deildina hafa komið tekist?
    Á þeim tíma sem deildin hefur starfað eða frá árslokum 1991 hafa liðlega 200 börn fæðst. Glasafrjóvgunarmeðferð skiptist í nokkra þætti, þ.e. í lyfjameðferð, eggheimtu, frjóvgun og fósturfærslu. Eggheimta er ekki möguleg hjá öllum þeim konum sem fara í lyfjameðferð og sömuleiðis er fósturfærsla ekki möguleg hjá öllum þeim konum sem fara í eggheimtu. Mismundandi aðferðir eru til að meta árangur glasafrjóvgunarmeðferðar. Ein aðferðin er sú að miða við árangur allra meðferðartilrauna, þ.e. miða við allar þær konur sem hefja lyfjameðferð. Hjá glasafrjóvgunardeildinni hafa u.þ.b. 30% meðferðartilrauna leitt til barns eða barna. Það þýðir að u.þ.b. þriðja hver kona sem byrjar glasafrjóvgunarmeðferð eignast barn. Önnur aðferð er að gefa upp líkur á þungun á hverja fósturfærslu, þ.e. þá er miðað við þær konur sem komast það langt í meðferðinni að um sé að ræða fósturfærslu. En hjá glasafrjóvgunardeildinni eru þessar líkur á bilinu 45--50%, þ.e. að u.þ.b. helmingur þeirra kvenna sem fara í fósturfærsluaðgerð verða þungaðar.
    Fimmta spurning: Er verið að vinna að því að taka upp frystingu fósturvísa og öðrum tækninýjungum, svo sem smásjárfrjóvgunum?
    Svarið við því er að ýmsar tækninýjungar vegna glasafrjóvgunarmeðferðar eru ekki mögulegar í óbreyttu húsnæði deildarinnar. Einkum er það smásjárfrjóvgun sem kallar á aukið húsnæði. Tækninýjungar eins og frysting fósturvísa og smásjárfrjóvgun kalla einnig á mjög dýran tæknibúnað. Þannig mun tæknibúnaður vegna frystingar kosta um það bil 2 millj. og tæknibúnaður vegna smásjárfrjóvgunar um það bil 5 millj. og verða menn að bæta þeim kostnaðartölum ofan á 30--40 millj. kr. kostnað við breytingu á húsnæði. Ráðuneytinu er kunnugt um að eftirlitsnefnd Ríkisspítala með glasafrjóvgunardeild kvennadeildar mun á næstunni fara þess á leit að starfsreglum deildarinnar verði breytt þannig að frysting fósturvísa verði heimil, en svo hefur ekki verið til þessa.
    Í þessu sambandi er rétt að upplýsa að á vegum dómsmrn. er starfandi nefnd sem er að semja frv.

til laga um tæknifrjóvgun. Fulltrúi heilbr.- og trmrn. á sæti í þeirri nefnd. Starf hennar er nú á lokastigi og þess að vænta að tillögur nefndarinnar geti legið fyrir í lok nóvembermánaðar, en í tillögum nefndarinnar verði tekið á atriðum eins og frystingu fósturvísa, en það þarf að gera breytingu á íslenskum lögum til þess að það sé alveg ótvírætt að þessar tækniframfarir í glasafrjóvgunarmeðferð séu heimilar. Fyrst verður að koma til atbeini Alþingis áður en menn í glasafrjóvgunardeild Landspítalans telja sér fært að hefja þær, jafnvel þó að fjármunir væru tiltækir til að gera þær breytingar sem gera þarf.