Glasafrjóvgun

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:17:25 (944)


[17:17]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir hans svör. Það er athyglisvert að heyra það hve langur tími er nú fyrir þá sem hafa sett sig á lista í þá röð að komast að. Það er líka athyglisvert að huga að því að í sambandi við frystingu fósturvísa mun aðgerðin sjálf sem slík taka miklu skemmri tíma þannig að það mun í sjálfu sér stytta þá löngu bið sem fyrir þetta fólk er að vissu leyti afar óþægileg og mjög eðlilegt að svo sé. Því vænti ég þess að Alþingi taki fljótt á og breyti þeim lögum sem ráðherra minntist hér á áðan.
    Það er eitt líka sem er umhugsunarefni og það er varðandi húsnæðið, að það skuli þurfa svo mjög að kosta til þess eins og ráðherra kom hér inn á en ég veit að á því máli verður tekið.
    Það væri líka áhugavert að spyrjast fyrir um kostnað hjóna vegna þessa máls í ljósi þess að þegar kona fer í fóstureyðingu, þá er það sjálfsagt og eðlilegt að það sé samfélagið sem borgi það hversu á stundum það er þó umdeilanleg aðgerð. En hins vegar þegar fólk fer í aðgerð sem glasafrjóvgun hefur í för með sér, þá er ætlast til að um miklar greiðslur sé að ræða af hálfu þeirra aðila sem þurfa á að halda.
    Ég endurtek þakkir mínar til ráðherra og vona að þær lagabreytingar sem þarf komi fljótlega til afgreiðslu Alþingis svo að hægt sé að vinna að því að stytta þennan langa biðlista.