Glasafrjóvgun

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:20:24 (946)


[17:20]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins fyrst til upplýsingar að þó að frysting fósturvísa kæmi til sögunnar, þá mundi hún ekki stytta fyrstu meðferð sem kona þarf að ganga í gegnum vegna glasafrjóvgunar, en stytta mjög verulega framhaldsmeðferðir ef fyrsta meðferð ekki skilar árangri.
    Í öðru lagi eru gerðar mjög miklar kröfur um öryggi, þá á ég við sóttvarnir og önnur slík öryggisatriði í húsnæði þar sem glasafrjóvgun á sér stað. Það kom hreinlega í ljós þegar farið var að skoða Fæðingarheimilið, að húsið er það gamalt að það er ekki hægt jafnvel þó menn vildu að ganga þannig frá því húsnæði að það gæti hentað fyrir glasafrjóvgun. Þess vegna verða menn að leysa það innan vébanda Landspítalans og það er mjög dýr framkvæmd.
    Í þriðja lagi hefur það auðvitað gerst eins og ég sagði að mundi gerast og menn vissu fyrir fram að um leið og það opnast möguleiki á því að fá þessa þjónustu hér á Íslandi, þá eykst mjög mikið eftirspurnin eftir henni vegna þess að hún kostar ekki þrátt fyrir allt nema brot af því sem það kostaði hjón að fara til útlanda að fá þessa meðferð þar. Ætli heildarkostnaðurinn á sambærilegri meðferð í útlöndum sé ekki um eða yfir ein millj. kr. ef allt er tiltekið, þ.e. bæði kostnaður sem greiddur er beint af viðkomandi einstaklingum og vinnutap. Hér er kostnaður ekki nema brot af þessu þó að hann sé nokkur. Auðvitað má deila um það hvort eðlilegt sé að sum læknisþjónusta sé veitt ókeypis en fyrir aðra þurfi menn að greiða.
    Það eru reglur til um hvernig glasafrjóvgunardeildin starfar og hvernig raðað er upp þeim beiðnum sem til hennar berast. Ég staðfesti þær á sínum tíma árið 1991 en ég verð að viðurkenna það að ég man ekki þær reglur í einstökum atriðum nú, en mun gera ráðstafanir til þess að senda hv. þm. Inga Birni Albertssyni þessar reglur þannig að það komi fram við hvaða aðferðir menn styðjast þegar menn raða inn á þennan lista.