Sumarmissiri við Háskóla Íslands

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:22:56 (947)

[17:22]
     Fyrirspyrjandi (Petrína Baldursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til menntmrh. til þess að heyra hans viðbrögð gagnvart þeirri hugmynd sem upp hefur komið hjá stúdentaráði Háskóla Íslands um sumarmissiri við háskólann.
    Háskólaráð samþykkti á fundi sínum í ágúst sl. hugmynd um sumarmissiri. Það er þó háð því að stúdentum takist að afla fjár, um það bil 30 millj. til þess að sumarmissiri geti orðið að veruleika. Að mati stúentaráðs getur sumarmissiri komið sér vel nú á tímum atvinnuleysis þar sem erfitt hefur verið fyrir nema að fá vinnu yfir sumartímann.
    Hugmynd að sumarháskóla er ekki ný af nálinni og venjulega starfa t.d. háskólar erlendis yfir sumartímann. Sumarnám nýtist í mörgum tilfellum. Það nýtist atvinnulausum stúdentum, stúdentar geta unnið sér inn einingar til að eiga inni yfir veturinn og mundi t.d. nýtast barnafólki sérlega vel. Sumarmissiri getur stytt námstíma, flýtt fyrir útskrift. Einnig má hugsa sér sumarmissiri sem vettvang fyrir nýja kennsluhætti og það styddi þróun til sjálfstæðra vinnubragða stúdenta. Samþykkt háskólaráðs um sumarmissiri var gerð eftir að háskólinn skilaði fjárveitingabeiðni sinni til menntmrn. Það var því ekkert að finna um það að sumarmissiri væri í forgangsröð verkefna hjá háskólanum.
    Nýsköpunarsjóður námsmanna er dæmi um samvinnu stúdenta og Alþingis en sá sjóður veitir árlega á annað hundrað stúdentum vinnu við námstengd verkefni. Allir þeir aðilar sem tjáð hafa sig opinberlega um þá hugmynd að koma á fót sumarmissiri við háskólann hafa verið mjög jákvæðir.
    Nýlega voru hér í þinginu utandagskrárumræður um málefni Háskóla Íslands. Þar sagði ráðherra að vissulega væri þetta allt saman spurning um forgangsröðun verkefna. Ráðherra hefur því miður þurft að beita niðurskurðarhnífnum í sínu ráðuneyti sem bitnað hefur m.a. á háskólanum sem og öllum skólastigum. Það var að heyra á flestum þeim þingmönnum sem tjáðu sig í umræðunni að nú væri tími til að setja menntamál í öndvegi. Það yrði að vera þjóðarsátt um það mál. Ég vil því spyrja ráðherra eins og kemur fram á þskj. 83:
    Hvaða skoðun hefur ráðherra á þeirri hugmynd að koma hér upp sumarmissiri við háskólann og telur hann einhverja möguleika á að tryggja 30 millj. kr. fjármagn í það verkefni?