Miðstöð fyrir nám í matvælagreinum

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:33:43 (952)


[17:33]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrri spurningu hv. þm. svara ég svo að engin breyting hefur orðið á stefnu ráðuneytisins í þessu efni. Áætlanir og byggingarframkvæmdir við Menntaskólann í Kópavogi hafa byggst á áliti nefndar sem starfaði á tímabilinu 1982--1984 og gerði tillögur um að námi í matvælagreinum yrði komið á fót við skólann. Ákveðið hefur verið að það nám sem nú fer fram í Hótel- og veitingaskóla Íslands flytjist í nýtt húsnæði við Menntaskólann í Kópavogi. Á sama stað fari einnig fram nám í ýmsum matvælagreinum sem nú eru aðallega kenndar við Iðnskólann í Reykjavík. Einnig verða kannaðir möguleikar á því að auka og bæta námsframboð í matvælagreinum frá því sem nú er.
    Þá spyr hv. þm. hvernig fyrirhugað sé að þróa og tengja kennslu í ferðaþjónustu við þetta nám og auka námsframboð fyrir þær mikilvægu greinar sem matvæla- og ferðaþjónusta eru. Svar mitt er svohljóðandi: Í undirbúningi hafa verið áætlanir um það hvernig staðið skuli að flutningi þeirrar kennslu sem áður er nefnd í Menntaskólann í Kópavogi og hvernig skipulagi verði þar best háttað. Innan fárra daga mun verða gengið frá skipun starfshóps til þess að vinna að þessu verkefni. Þar eð þær tillögur sem fyrir liggja um starfsemi skólans eru orðnar u.þ.b. 10 ára mun hópurinn endurskoða þær eða einstaka þætti þeirra eftir því sem þörf krefur. Jafnframt mun hópurinn fjalla um hvernig eðlilegast sé að tengja þessar greinar ferðaþjónustugreinum sem nú eru kenndar í Menntaskólanum í Kópavogi.
    Vegna orða hv. fyrirspyrjanda um tillögur sem hæstv. landbrh. og hv. þm. Tómas Ingi Olrich hafa hreyft um matvælaiðnað á Eyjafjarðarsvæðinu þá eru þær óviðkomandi því sem ráðgert er varðandi Menntaskólann í Kópavogi. Þar er um að ræða að kanna hvort ástæða sé til að Háskólinn á Akureyri kanni með hvaða hætti megi mæta þörf matvælaiðnaðarins á Eyjafjarðarsvæðinu fyrir menntað vinnuafl og bæta þar rannsóknarumhverfið. Það mál er í sérstakri athugun milli menntmrn. og Háskólans á Akureyri en hefur sem sagt ekki áhrif á það sem ætlað hefur verið sem hlutverk Menntaskólans í Kópavogi.