Aðstaða nemenda við Fjölbrautaskólann í Breiðholti

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:43:08 (957)


[17:43]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er spurt í fsp.: Hver eru áform ráðherra varðandi það óviðunandi ástand, eins og segir í fsp., sem nú ríkir við Fjölbrautaskólann í Breiðholti þar sem nú eru um 1.500 nemendur í dagskóla sem eingöngu er ætlaður 1.000--1.200 nemendum?
    Það mun hafa áhrif á fjölda nemenda við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og til fækkunar þeim að í undirbúningi er bygging nýs framhaldsskóla í Borgarholti í Reykjavík og verður fyrsti áfangi þess verks boðinn út fljótlega. Skólanum er ætlað að taka við þeirri fjölgun nemenda í framhaldsnámi sem má vænta á allra næstu árum auk einhvers hluta nemenda úr öðrum skólum sem nú eru yfirfullir eins og fyrirspyrjandi bendir réttilega á hvað varðar Fjölbrautaskólann í Breiðholti.
    Gert er ráð fyrir að þessi nýi skóli muni taka við allt að 1.000 nemendum.
    Í öðru lagi er spurt hvort ætlunin sé að bæta aðbúnað nemenda á sviði matvælaiðnaðar.
    Eins og ég greindi frá í svari við fyrirspurn rétt áðan þá er um þessar mundir verið að byggja við Menntaskólann í Kópavogi og í þeirri byggingu er gert ráð fyrir að starfsemi Hótel- og veitingaskólans verði til húsa auk náms í matvælagreinum sem nú eru aðallega kenndar við Iðnskólann í Reykjavík. Það nám á sviði matvælagreina sem nú fer fram við Fjölbrautaskólann í Breiðholti verður einnig tekið til sérstakrar athugunar í þessu sambandi. Einnig er í athugun að koma á fjölbreyttara námi í matvælagreinum heldur en nú er völ á í landinu.
    Verulegur hlutur byggingarinnar í Kópavogi verður tilbúinn til notkunar haustið 1996.
    Í þriðja lagi er spurt um hvað líði áformum um frekari byggingarframkvæmdir, t.d. þeim sem gert var ráð fyrir til að hýsa járniðnaðar- og trésmíðabraut.
    Það eru ekki á áætlun nú aðrar byggingarframkvæmdir við framhaldsskóla í borginni en áðurnefnd bygging í Borgarholti. Í væntanlegum skóla þar er ráðgert að boðið verði upp á bæði bóknám og verknám. Það er ekki endanlega ákveðið hvaða greinar iðnnáms verða þar í boði, en þó liggur fyrir að þar mun fara fram kennsla í bílgreinum og málmiðngreinum. Í þessu sambandi verður athugað hvort í framtíðinni verður þörf á að starfrækja iðnnám í þessum greinum a.m.k. við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.
    Í ráðuneytinu er nú verið að leggja drög að tillögum um verkaskiptingu milli skóla á höfuðborgarsvæðinu. Þegar þær tillögur liggja fyrir verður ljóst hver þörfin verður fyrir viðbyggingar við þá skóla sem nú eru starfandi á svæðinu sem og þörfin fyrir byggingu nýrra skóla annarra.