Kennsla faggreina í netagerð

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:54:41 (961)



[17:54]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þarf að hafa hér nokkur inngangsorð að svari mínu. Sumar greinar sem kenndar eru á framhaldsskólastigi eru það fámennar að þær verða ekki kenndar nema á einum stað á landinu. Ræður þar bæði að erfitt er að fá hæfa kennara og sérhæfða aðstöðu er ekki skynsamlegt að byggja upp á fleiri stöðum en nauðsynlegt er. Í sumum tilvikum er aðsóknin það lítil að ekki er hægt að halda uppi kennslu reglubundið heldur aðeins öðru hverju eða þegar nægilega margir nemendur óska eftir kennslu í viðkomandi grein. Í enn öðrum tilvikum er aðsóknin það lítil að ekki er mögulegt að halda uppi kennslu í viðkomandi grein hér á landi.
    Þegar taka þarf ákvörðun um kennslu í fámennri grein þarf að ganga úr skugga um að hæfir kennarar séu til staðar og aðstaða hvað varðar húsnæði og búnað sé fullnægjandi. Enda þótt ákvörðun hafi verið tekin um að kenna tiltekna grein á aðeins einum stað á landinu kemur það fyrir að á vissum stöðum koma fram hópar sem óska kennslu í greininni. Aðstæður þessara nemenda eru oft þannig að þeir eiga ekki heimangengt og mundu í mörgum tilvikum ekki fara í námið nema því aðeins að þeir geti stundað það í heimabyggð. Þetta á t.d. við um menn sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá. Ef það margir eru í slíkum hóp að forsvaranlegt sé af þeim sökum að halda uppi kennslu í greininni og ef enn fremur kennarar og fullnægjandi aðstaða er fyrir hendi kemur til greina að heimila kennslu á viðkomandi stað. Slíkar heimildir eru fátíðar og þýða ekki að horfið hafi verið frá þegar markaðri stefnu, samanber netagerð við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
    Með hliðsjón af því sem ég hef hér sagt má svara fyrstu spurningu hv. þm., hvort menntmrn. hafi breytt um stefnu varðandi kennslu í faggreinum netagerðar o.s.frv., þannig að það er ekki um stefnubreytingu að ræða í þessu efni af hálfu menntmrn.
    Í öðru lagi var spurt: Á hvaða forsendum var heimilað að þessi kennsla færi fram í Framhaldsskóla Vestmannaeyja nú í haust? Og svarið er að þær forsendur sem ég nefndi í inngangsorðum mínum voru allar fyrir hendi.
    Í þriðja lagi var svo spurt hvort haft hefði verið samráð við hagsmunaaðila um þessa ákvörðun. Svarið er að þar sem hér var ekki um að ræða breytingu á stefnu ráðuneytisins hvað varðar kennslu í faggreinum netagerðar var ekki haft samráð við hagsmunaaðila.
    Að lokum er svo spurt hvort þessi heimild hafi áhrif á kennslu þessara greina við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á næstu vorönn. Svarið er að þar sem heimildin er takmörkuð við einn hóp nemenda og felur ekki í sér breytingu á stefnu ráðuneytisins í því efni sem hér um ræðir, mun ákvörðunin ekki hafa áhrif á kennslu þessarar greina við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í framtíðinni.