Kennsla faggreina í netagerð

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:59:21 (963)


[17:59]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki af hverju hv. fyrirspyrjanda þóttu þetta sérkennileg svör. Ég gerði skilmerkilega grein fyrir því hvers vegna þessi kennsla hefði verið leyfð í Vestmannaeyjum núna. Það voru öll skilyrði fyrir hendi, það var ekki verið að breyta þeirri grundvallarstefnu að þessi kennsla færi fram við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
    Hv. þm. spyr hvort það megi þá búast við frekari leyfum. Ég get svarað því svo að ef slík skilyrði eru fyrir hendi og það hafi ekki áhrif á þessa framtíðarstefnu varðandi Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þá þykir mér ekkert útilokað að veita slík leyfi. Þetta skiptir auðvitað miklu máli fyrir þá aðila sem ella þyrftu að fara að heiman og í þessu tilviki þá væntanlega suður á Suðurnes til þess að stunda þetta nám. Ég segi enn og aftur: Ef það hefur ekki bein áhrif á þessa stefnumörkun varðandi Fjölbrautarskóla Suðurnesja og það greiðir götu þeirra sem vilja fara í námið og eiga heima á tilteknum stöðum þá finnst mér að það eigi að leyfa það.