Niðurfelling virðisaukaskatts af barnafatnaði

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:10:55 (967)


[18:10]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég tel mig hafa deilt nóg við hv. þm. Jóhannes Geir um virðisaukaskatt og þau tvö þrep sem nú eru í gildi og þegar hinn svokallaði matarskattur var tekinn af og ætla ekki að eyða þessum stutta tíma frekar í það.
    Mér þykja athyglisverðar þær tölur sem hæstv. fjmrh. nefndi áðan, þó hann hafi haft allan fyrirvara á þeim og ég skil það mjög vel. En jafnvel þó maður tvöfaldaði þá tölu sem hann nefndi þá kæmi það mér enn á óvart að ekki skuli vera hærri upphæðir þarna undir en virðist vera. Ég get tekið undir þau skattalegu rök sem fjmrh. fór með áðan en ég tek ekki undir það að þetta sé illframkvæmanlegt. Ég hef ekki heyrt að Bretar eigi í einhverjum stórum vandræðum með þetta. Skilgreiningin á milli barnafatnaðar og fatnaðar fyrir fullorðið fólk er nokkuð skýr. Ég held að aðalatriðið í þessu máli sé hvort menn hafi viljann til að fara þessa leið eða ekki. Ég held að þetta sé akkúrat það fólk sem við þurfum að líta til með hvernig við getum létt því byrðarnar. Við stigum mjög stórt skref á síðasta þingi í andstöðu Framsfl., sem hefur boðað að hann ætli aftur að hækka matarverð í landinu, þegar við felldum niður matarskattinn. Einmitt

í þeirri umræðu sagði ég að þetta væri fyrsta skrefið í frekari baráttu fyrir því að lækka virðisaukaskatt á helstu nauðsynjar heimilanna.
    Ég tel þetta vera leið sem ætti að skoða mjög vel sérstaklega í ljósi þeirra upphæða sem fjmrh. kom með um 300--350 millj. kr. Það finnst mér ákaflega lág tala og svo notað sé nú tískuorð þegar menn eru að leita sér að peningum þá má t.d. líta á þennan fræga hátekjuskatt sem nú er verið að tala um að leggja af.