Greiðsla sveitarfélaga til Atvinnuleysistryggingasjóðs 1994

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:19:35 (970)


[18:19]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurna hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur vil ég upplýsa eftirfarandi:
    Samkvæmt upplýsingum Atvinnuleysistryggingasjóðs er nú þegar búið að samþykkja styrki vegna átaksverkefna til sveitarfélaga, einstaklinga og þriðja aðila að samtals fjárhæð kr. 566 millj. 117 þús. og 400 kr. Þegar hafa verið greiddir styrkir samtals að fjárhæð kr. 177 millj. Samkvæmt upplýsingum sama aðila eru ástæður þess að ekki er búið að greiða hærri upphæð þær að mörg sveitarfélög senda ekki reikninga fyrr en verkefnum er lokið. Einnig er nú verið að reikna út og greiða reikninga sem borist hafa undanfarið. Í reglum um þessi átaksverkefni segir m.a. í 11. gr., með leyfi forseta:
    ,,Eftir að verkefni hefst sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur samþykkt og félmrh. staðfest skal Atvinnuleysistryggingasjóður greiða styrkfjárhæð með föstum mánaðarlegum greiðslum eftir á þann tíma sem verkefnið stendur yfir. Heimilt er að helmingur styrks, miðað við áætlaðan fjölda fólks af atvinnuleysisskrá við hver verkefni, verði greiddur þegar upphaflegur listi yfir ráðningar liggur fyrir og verkefnið er hafið. Uppgjörið fari síðan fram við lok hvers verkefnis á grundvelli lista yfir nöfn og starfstíma þeirra sem ráðnir voru af atvinnuleysisskrá meðan á verkefninu stóð.``
    Ég get ekki frekar en aðrir spáð fyrir um það hver hin endanlega niðurstöðutala verður, með öðrum orðum hvaða raungreiðslur gangi úr Atvinnuleysistryggingasjóði á yfirstandandi ári til þessara átaksverkefna. Þó má ætla af reynslu, og það er ekki nákvæm tala, að það geti orðið á bilinu 300--400 millj. kr.
    Varðandi þau álitamál sem uppi hafa verið og forsvarsmenn sveitarfélaga hafa haldið uppi um forsendur fjárlaga komandi árs þá er rétt að undirstrika að í forsendum í fjárlaganna er áætlað að leita eftir samkomulagi við sveitarfélög um áframhald þessa samstarfsverkefnis, þ.e. til þessara átaksverkefna og atvinnuskapandi aðgerða.
    Í forsendum fjárlagafrv. er einnig á það minnst að til greina komi samstarf við sveitarfélögin um annars konar fyrirkomulag til að draga úr atvinnuleysi en verið hefur, þ.e. með eða án þátttöku Atvinnuleysistryggingasjóðs. Til upplýsinga áttum við fjmrh. fund með forsvarsmönnum sveitarfélaga í morgun einmitt um þessi mál og hvernig þessir aðilar gætu best komið að þessum mikilvægu málum, nefnilega að halda úti átaksverkefnum. Enda þótt menn geti haft á því ýmsar skoðanir hvort vel hafi til tekist eða illa þá breytir það ekki því að þær þúsundir atvinnulausra sem hafa komið inn þessi átaksverkefni til skemmri eða lengri tíma hafa fengið, þó um skamman tíma sé, ákveðna úrlausn sinna mála því að hér er ekki eingöngu um að ræða fjárhagslegt mál heldur að minni hyggju ekki síður félagslegt mál. Ég fyrir mína parta legg því á það ríka áherslu að með einum eða öðrum hætti verði hægt að halda úti þessum átaksverkefnum á komandi ári en þau falli ekki niður. Ég skildi þennan fund þannig í morgun --- auðvitað er uppi álitamál enn þá varðandi hver eigi að borga brúsann og hvernig --- að það væri samdóma álit þeirra ráðherra sem ég gat um áðan og forsvarsmanna sveitarfélaga að það væri einnar messu virði og rúmlega það að funda frekar um þau mál og hvernig þeim mætti fyrir koma svo best væri á kosið.