Málefni sumarhúsaeigenda

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:36:08 (976)


[18:36]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta að öðru en því að eins og ég gat um þá sýnist mér sú leið hugsanlega heppilegri að þjónustutengja þessa gjaldtöku í auknum mæli þannig að sumarhúsaeigendum sé það ljóst strax í upphafi fyrir hvað þeir greiða og hvaða þjónustu þeir fá á móti. En á sama hátt verður auðvitað að gæta þess að hinn almenni fasteignaskattur sem nú er lögum samkvæmt ekki tengdur ákveðinni veittri þjónustu verður lækkaður á sama hátt. Ég held að það sé vilji fyrir þessu, hann er a.m.k. fyrir hendi hjá félmrn. og ég hygg að hann sé einnig fyrir hendi af hálfu forsvarsmanna sveitarfélaga því alltént er ljóst og það má skilja á niðurstöðum þessa starfshóps að þarna þarf að taka til hendi og eins og ég gat um í fyrra svari mínu þá mun ég sjá svo um að það verði gert.