Frísvæði á Suðurnesjum

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:38:50 (977)


[18:38]
     Fyrirspyrjandi (Petrína Baldursdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég hef lagt fram fsp. til hæstv. utanrrh. um málefni frísvæðis á Suðurnesjum.
    Á síðustu áratugum hefur verið mikið rætt og ritað um þá kosti að koma á fót fríiðnaðarsvæði á Suðurnesjum eða á Keflavíkurflugvelli. Markmiðið væri að laða að erlenda fjárfestingu og mundi það að sjálfsögðu auka flugumferð um Keflavíkurvöll. Fyrirtæki á frísvæði geta nánast verið staðsett hvar sem er en talið er að það yrði mjög mikill kostur að hafa slíkt svæði í nágrenni flugvallarins í Keflavík. Frísvæði var sett upp við Shannonflugvöll á Írlandi fyrir 35 árum. Hafa nú 100 þús. manns atvinnu af þeirri starfsemi sem þar fer fram. Það er alveg augljóst að frísvæði yrði mikil upplyfting fyrir atvinnulíf landsmanna, sérstaklega atvinnulíf á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi hefur verið töluvert mikið á sl. árum.
    Það sem vekur athygli með frísvæðisumræðu er það að hún hefur staðið yfir í áratugi. Nokkrar nefndir hafa á þessum tíma starfað og kannað kosti og galla frísvæðis. A.m.k. tvisvar ef ekki oftar hafa sendinefndir farið utan til að kynna sér frísvæði, t.d. nú fyrir nokkrum vikum til Írlands. Flestir sem að þessu máli koma tala um fleiri kosti fyrir íslenskt atvinnulíf en galla að setja á fót frísvæði en samt gerist ekki neitt í málinu. Það hefur akkúrat ekkert orðið úr framkvæmdum í þá átt að koma á fót þessu fríiðnaðarsvæði. Í sannleika sagt er þessi umræða farin að hljóma eins og klisja. Menn tala og tala en minna er um framkvæmdir. Ef þetta er einhver hugmynd sem ekki er hægt að framkvæma verða menn að hafa kjark til að segja það, annars er tími til kominn að láta hendur standa fram úr ermum og hefjast aðgerða.
    Ég hef beint, eins og áður sagði, fsp. til hæstv. utanrrh. sem hljóðar svo:
  ,,1. Hefur undirbúningsnefnd um stofnun frísvæðis á Suðurnesjum lokið störfum?
    2. Hvenær er þess að vænta að Alþingi fái tillögur nefndarinnar til umfjöllunar?
    3. Hyggst ráðherra leggja fram lagafrumvarp á þessu þingi um stofnun frísvæðis á Suðurnesjum?``