Frísvæði á Suðurnesjum

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:47:37 (980)


[18:47]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins stuttlega taka undir með hv. þm. um að það verður að lúka þessu máli og má segja að það sé réttmæt gagnrýni að undirbúningstíminn er orðinn helst til langur.
    Þetta mál snýst í kjarna sínum um það að reyna að laða erlenda fjárfesta til þess að hætta fé sínu í starfsemi hér á landi. Nefndin hefur unnið út frá þeim forsendum að til þess þurfi að setja fastmótaðar reglur um skattaívilnanir en jafnframt að markaðssetja Keflavíkurflugvöll og ryðja úr vegi öðrum viðskiptahindrunum. Þannig verður að tryggja reglubundnar, öruggar og ódýrar samgöngur til og frá landinu en þess er að geta að Ísland býr við þá aðstöðu að einokunarþátturinn varðandi samgöngur, flutninga, hvort heldur er á sjó eða lofti, er eitt af því sem hefur verið rækilega skoðað.
    Það er athyglisvert að erlend fjárfesting á Íslandi er því sem næst engin og hefur verið mjög óveruleg á undanförnum árum. Vonir okkar um það að auka fjölbreytni í atvinnulífi, ég tala nú ekki um að laða til landsins fyrirtæki sem byggi á hátækniiðnaði hafa þess vegna ekki hingað til ræst. Það má nefna að fulllokið var að gera samninga að því er varðar nýtingu á orkuauðlindum okkar en öllum er kunnugt um hvers vegna þeir samningar komust ekki í framkvæmd, þ.e. sú algjöra lægð sem verið hefur í efnahagslífi heimsins hefur einfaldlega þýtt að í stóriðjuframkvæmdum um allan okkar heimshluta hefur slíkum framkvæmdum verið slegið á frest. Meginástæðan fyrir því að þetta mál hefur ekki komist lengra er því fyrst og fremst þessar kringumstæður í kringum okkur en jafnframt er það tæknilega flókið mál að ganga þannig frá skattaívilnunum að íslenskt atvinnulíf sætti sig við þá tímabundnu mismunun sem í því felst. En ég undirstrika að þessu máli verði fylgt eftir af fyllstu alvöru vegna þess að vissulega eru við það bundnar nokkrar vonir en þó því aðeins í reynd að efnahagsástandið í kringum okkur fari batnandi.