Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 13:34:03 (984)

[13:34]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ætlun mín var á þessum þingfundi að mæla fyrir frumvörpum til laga um grunn- og framhaldsskóla en eins og kom fram hjá hæstv. forseta er samkomulag um það að umfjöllun um framhaldsskólafrv. frestist og þá til næstu viku.
    Ég mæli því nú einungis fyrir frv. til laga um grunnskóla. En það sem ég segi hér í upphafi á að nokkru við bæði um frv. til grunn- og framhaldsskólalaga. Frumvörpin eru að stofni til samin af nefnd sem ég skipaði þann 11. mars 1992 til að vinna að heildarendurskoðun á skólalöggjöfinni og móta menntastefnu. Nefndin vann að þessu verkefni í rúm tvö ár og einkenndust störf hennar af miklum metnaði. Nefndin tók í starfi sínu mið af rannsóknum sem til eru um þessi skólastig, viðhorfum til skólastarfs innan lands og utan, svo og reynslu kennara, skólastjórnenda, aðila atvinnulífs og almennings af skólastarfi og árangri þess.
    Í janúar 1993 birti nefndin áfangaskýrslu þar sem settar voru fram helstu hugmyndir um breyttar áherslur í skólastarfi. Áfangaskýrslan hlaut góðar viðtökur og líflega umræðu í þjóðfélaginu. Hún var send fjölda aðila til umsagnar og vann nefndin úr þeim viðbrögðum á vor- og sumarmánuðum síðasta árs.
    Mjög var vandað til umsagna um skýrsluna og komu þær nefndinni að miklu gagni. Á grundvelli áfangaskýrslu og umsagna gekk nefndin frá tillögum sínum og vann að gerð lagafrv. Vinna við frv. til laga um framhaldsskóla stóð allt sl. haust og skilaði nefndin mér drögum að frv. í febrúar á þessu ári. Ég kynnti drögin þegar fyrir hagsmunaaðilum og bað um umsagnir og viðbrögð svo ganga mætti frá frv. til framlagningar á Alþingi sl. vor og var svo gert.
    Vinna við grunnskólafrv. og lokaskýrslu nefndarinnar stóð fram á vor og voru skýrslan og frv. kynnt opinberlega í júlímánuði. Grunnskólafrv. var síðan sent hagsmunaaðilum til umsagnar. Í septembermánuði var farið yfir umsagnir þeirra í ráðuneytinu og unnin endanleg gerð grunnskólafrv. Á sama tíma voru einnig gerðar breytingar á framhaldsskólafrv. í framhaldi af umræðum í þjóðfélaginu frá því að frv. var kynnt á Alþingi í vor.
    Þann 4. okt. sl. voru frv. lögð fyrir ríkisstjórnina sem samþykkti að þau yrðu lögð fram á Alþingi sem stjfrv.
    Meginmarkmið beggja frv. er að bæta skólastarf í grunn- og framhaldsskólum. Stefnt er að því að styrkja menntunar- og uppeldishlutverk skólanna, efla faglegt skólastarf og bæta þannig árangur náms og kennslu. Frv. byggja á heildstæðri skólastefnu sem endurspeglast í tilteknum grundvallarstefnumiðum fyrir skólastarf á báðum skólastigum.
    Helstu stefnumið frumvarpanna eru þessi:
    1. Aukin valddreifing í skólakerfinu. Lagt er til að grunnskólinn verði alfarið á höndum sveitarfélaga og sjálfstæði skóla einkum á framhaldsskólastigi verði aukið verulega. Stjórnun skólanna verður styrkt á þann hátt að skólanefndir verði virkari en nú er en skólastjórar grunnskóla og skólameistarar framhaldsskóla hafi ótvírætt forustuhlutverk í faglegri stjórnun og daglegum rekstri.
    2. Fræðsluyfirvöld skilgreini skýr markmið um nám og kennslu og fylgist með því að skólastarfið og árangur þess sé í samræmi við yfirlýst markmið. Samræmd námsmarkmið skulu skilgreind í aðalnámsskrá sem gefin verði út fyrir grunn- og framhaldsskóla en innan skólanna skulu þau útfærð nánar í svokallaðri skólanámsskrá. Með þessu er almenningi og skólamönnum gerð skýr grein fyrir því að hverju skuli stefnt í skólum.

    Jafnhliða skýrri markmiðssetningu er lögð áhersla á reglubundið eftirlit með árangri skólastarfsins af hálfu fræðsluyfirvalda, m.a. með því að fjölga samræmdum prófum í skólakerfinu. Tilgangur slíkrar samræmingar er að reyna að tryggja lágmarksgæði í skólastarfi hvar sem er á landinu og jafnrétti nemenda til skólastarfs af sambærilegum gæðum óháð því hvar þeir sækja skóla.
    3. Teknir verði upp starfshættir sem stuðli að aukinni fagmennsku í skólastarfi. Skólastjóri og skólameistari gegni faglegu forustuhlutverki í starfi grunn-og framhaldsskóla. Lagt er til að allir grunn- og framhaldsskólar gefi út sérstaka skólanámsskrá. Skólanámsskrá er unnin af kennurum og fagfólki og er opinber yfirlýsing skólans um áherslur í skólastarfi, starfshætti skólans og sérstöðu, m.a. með tilliti til námsframboðs.
    Einnig er lagt til að allir skólar taki upp viðurkenndar aðferðir til að meta sitt innra starf. Sem dæmi má nefna gagnkvæma aðstoð kennara á vettvangi, skipulagt umbótastarf og mat á stjórnunarháttum og samskiptum starfsfólks innan skólans og við aðila utan hans. Lagt er til að lög kveði á um faglegt forustuhlutverk skólastjórnenda en ákvæði frumvarpanna um skólanámsskrárgerð og sjálfsmat skóla kalla á mikla samvinnu kennara og annars fagfólks undir forustu skólastjóra eða skólameistara. Slíkir starfshættir stuðla að aukinni fagmennsku og vinna gegn þeirri einangrun sem oft einkennir kennarastarfið.
    4. Stigið er skref í þá átt að opna skólana gagnvart samfélaginu. Almennir þjóðfélagsþegnar fá með formlegum hætti möguleika á áhrifum á skólastarfið. Í grunnskólum eru það foreldrar barna í viðkomandi skóla, í framhaldsskólum eru það fulltrúar úr atvinnulífi í viðkomandi byggðarlagi. Auk þess sitja í skólanefndum beggja skólastiga fulltrúar þess samfélags sem skólinn á að þjóna.
    Annar þáttur í opnun skólanna gagnvart samfélaginu er sú áhersla sem lögð er á upplýsingamiðlun til almennings um skólastarf og árangur þess. Gert er ráð fyrir að menntmrn. safni saman og gefi út upplýsingar um framkvæmd skólastarfs og að skilgreind verði upplýsingaskylda sveitarfélaga og skóla.
    5. Mat á skólakerfinu og einstökum þáttum þess verði eflt á næstu árum til að afla áreiðanlegra upplýsinga um þætti eins og stjórnunarhætti í skólum, námsárangur og námsferil nemenda, kennsluhætti og áhrif þeirra á námsárangur, samskipti í skólum og tengsl heimila og skóla.
    Mikilvægt er að menntmrn. haldi uppi reglubundnu eftirliti með skólastarfi og standi reglulega fyrir heildarmati á skólakerfinu. Án eftirlits er hætt við að ákvarðanir stjórnvalda um menntamál byggist fremur á tilgátum en þekkingu en megintilgangur mats á skólum er að fá heildarmynd af skólastarfinu eins og það er á hverjum tíma og vinna að umbótum á því. Beina þarf sjónum að ýmsum þáttum í innra starfi skólanna svo sem stjórnun, framkvæmdaáætlun, þróunarstarfi, endurmenntun kennara og skólastjórnenda, námsárangri nemenda og tengslum við foreldra svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður mats á skólum eru mikilvægt hjálpartæki fyrir stjórnvöld við mótun menntastefnu og sem viðmiðun fyrir skóla og aðra framkvæmdaaðila.
    6. Starfstími grunn- og framhaldsskóla verði betur nýttur og kennsludögum fjölgað. Gert er ráð fyrir að starfstími skólanna verði áfram níu mánuðir eins og nú er en sú breyting er gerð að starfstími skólanna er skilgreindur út frá rétti nemenda til náms og starfa í skólum. Í báðum frv. er tilgreindur lágmarksfjöldi kennsludaga. Með þessu er stefnt að því að nýta betur til kennslu hið níu mánaða skólaár.
    7. Kjarasamningar við kennara verði endurskoðaðir frá grunni. Bæði frv. gera ráð fyrir breyttum starfsháttum í skólum, starfsháttum sem kalla á endurskoðun vinnutímaskilgreininga í kjarasamningum kennara. Ber þar helst að nefna þá áherslu sem lögð er á aukið samstarf kennara í tengslum við gerð skólanámsskrár og innra mat á starfi skólanna. Einnig munu breyttar skilgreiningar á starfstíma grunn- og framhaldsskóla kalla á endurskoðun kjarasamninga kennara í grunn- og framhaldsskólum.
    Ég sný mér þá sérstaklega að frv. til laga um grunnskóla. Meginmarkmiðið með hinu nýja frv. er að sami aðili beri faglega og fjárhagslega ábyrgð á þessum mikilvæga málaflokki auk þess sem flutningur til sveitarfélaga er liður í aukinni valddreifingu í skólakerfinu en flutningur alls reksturs grunnskólans til sveitarfélaga er stærsta skrefið í þá átt. Nú greiða sveitarfélög allan kostnað við rekstur og framkvæmd grunnskólans að undanskildum launum kennara, rekstri sérskóla, sérkennslu, námsgögnum og rekstri fræðsluskrifstofa. Með frv. er lagt til að sveitarfélög taki við öllum þessum verkefnum að undanskilinni útgáfu námsbóka sem sveitarfélögin greiði þó fyrir.
    Ýmsir hafa látið í ljós áhyggjur af því að sveitarfélög hafi ekki bolmagn til að takast á við þetta verkefni en ég er sannfærður um að séu sveitarfélögum tryggðir tekjustofnar og þau hafi samstarf sín á milli um ýmiss konar þjónustu við skólana munu þau reka grunnskólann með miklum sóma.
    Menntmrh. fer áfram með yfirstjórn grunnskólans og fylgist með því að fylgt sé þeirri stefnumörkun um nám og kennslu sem lög kveða á um.
    Heyrst hafa raddir um að eðlilegt sé að sveitarfélög hafi óskorað vald til að skipuleggja skólahald þegar allur rekstur grunnskólans flyst til þeirra. Þessu er ég ekki sammála. Ein af forsendum þess að unnt sé að tryggja að allir nemendur hljóti sambærilega grunnmenntun er sameiginleg rammalöggjöf um skólahald, aðalnámsskrá þar sem kveðið er á um hvað skuli kennt, námsgögn sem uppfylla kröfur aðalnámsskrár, samræmd próf sem m.a. eiga að kanna árangur skólastarfsins og virkt eftirlit og mat á skólastarfi.
    Ég tel því eðlilegt að þessi verkefni verði áfram hjá ríkinu til að tryggja jafnrétti til náms og ákveðið samræmi í grunnmenntun þjóðarinnar.

    Ný verkaskipting kallar eðlilega á ýmsar aðrar breytingar frá gildandi lögum og því hafa verið felldir út kaflar úr gildandi lögum sem fjalla um stjórnun grunnskóla, rekstur fræðsluskrifstofa og fjármál. Verkefni fræðsluskrifstofa eins og daglegt eftirlit með skólahaldi og ýmis sérfræðiþjónusta verða framvegis á vegum sveitarfélaga.
    Jafnframt hafa verið gerðar breytingar á nokkrum öðrum greinum laganna og er þar fyrst og fremst um að ræða umbætur eins og aukningu vikulegs kennslumagns samfara einsetningu grunnskólans, heimildarákvæði um lengda viðveru nemenda, ákvæði um að allir skólar geri skólanámsskrá, aukin áhrif foreldra á skólastarf, aukin áhrif skólanefnda á innra starf skóla, kennsla nýbúabarna, aukin áhersla á námsmat og mat á skólastarfi.
    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að samfara einsetningu grunnskóla komi ákvæði 27. gr. frv. um lágmarks vikulegan kennslutíma nemenda til framkvæmda á árabilinu 1995--1999. Ég hef þegar skilað sex stundum af þeim tólf sem skornar voru niður haustið 1992 og í frv. til fjárlaga er gert ráð fyrir að hinum sex stundunum verði skilað haustið 1995. Að auki er lagt til í frv. að 37 vikustundir bætist við grunnskólann fram til skólaársins 1999--2000.
    Víða um land eru skólar nú þegar einsetnir og í sveitarstjórnarkosningum sl. vor kom í ljós að fjölmörg sveitarfélög hafa lýst yfir vilja og metnaði til að einsetja skóla sem fyrst.
    Samkvæmt gildandi lögum skulu allir skólar vera orðnir einsetnir árið 2001 og hafa sveitarstjórnir frest til þess tíma þó svo að lagt sé til að ríkið hafi staðið við sinn hlut tveimur árum fyrr eða skólaárið 1999--2000.
    Þegar þessu takmarki er náð má fullyrða að eitt mesta framfaraspor í sögu íslenskra grunnskóla hafi verið stigið. Í einsetnum skóla hefja öll börn vinnudag sinn á sama tíma að morgni þegar þau ættu að vera óþreytt og móttækilegust fyrir námi. Vinnudagur nemenda er samfelldur. Einsetning skóla mun stuðla að auknu jafnvægi í lífi grunnskólabarna og fjölskyldna þeirra. Í raun er því um að ræða sjálfsagt mannréttindamál auk þess sem einsetning stuðlar að auknu jafnrétti til náms.
    Í 27. gr. frv. er sú nýjung að þar er heimildarákvæði um að sveitarstjórnir geti boðið nemendum sínum lengda viðveru utan daglegs kennslutíma. Er þar verið að lögfesta framkvæmd sem nokkur sveitarfélög hafa þegar komið á að eigin frumkvæði. Athyglisverðar tilraunir hafa verið gerðar víða um land til að lengja viðveru barna í skólum utan daglegs kennslutíma. Þar hafa sveitarfélög bæði sýnt frumkvæði og útsjónarsemi við að bæta þjónustu við fjölskyldufólk. Þegar 4. og 27. gr. frv. koma að fullu til framkvæmda innan fárra ára hafa Íslendingar loks náð því takmarki sem þá hefur lengi dreymt um en það er að börn um land allt eigi aðgang að einsetnum skóla þar sem vinnudagur þeirra er samfelldur og að lokinni kennslu eigi þau kost á þroskavænlegu starfi hvort heldur um er að ræða aðstoð við heimanám, leik, hvíld eða tómstundastarf.
    Í 12. gr. frv. er kveðið á um hlutverk skólanefndar grunnskóla. Skólanefndir fá aukið hlutverk miðað við gildandi lög og þá fyrst og fremst hvað varðar innra starf skólanna í samræmi við þá hugsun að flutningur valds frá menntmrn. fari til kjörinna fulltrúa. Skólanefnd er áfram ætlað að bera ábyrgð á því að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögbundinnar fræðslu og fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður sé fyrir hendi. En henni er nú einnig gert að fylgjast með innra starfi skólans, gefa umsögn um skólanámsskrá og veita sveitarstjórn og menntmrn. upplýsingar um framkvæmd skólahalds.
    Með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga flyst rekstur og ábyrgð á skólum til sveitarstjórna og því munu verkefni og verksvið skólanefnda að öðru leyti ráðast af þeim verkefnum sem sveitarstjórnir kunna að fela þeim.
    Nýjung í frv. eru aukin áhrif foreldra á skólastarfið sem fram koma í 15. og 16. gr. frv. Í gildandi lögum er heimildarákvæði um stofnun foreldrafélaga eða foreldra- og kennarafélaga við skóla. Hér er stigið skrefi lengra og er það gert í fullu samráði við samtök foreldra skólabarna. Annars vegar er kveðið á um að stofnað skuli foreldraráð við hvern skóla, foreldraráð sem skipað skal þremur foreldrum og hins vegar er heimildarákvæði um foreldrafélög við skóla. Samtök foreldra skólabarna lögðu áherslu á að hvorki foreldrafélög né foreldraráð væru skipuð kennurum og er sú ábending tekin til greina við gerð frv.
    Með foreldraráði, sem er skipað þremur fulltrúum foreldra, eins og áður sagði, er verið að mynda formlegan vettvang til að koma sjónarmiðum foreldra um innihald og áherslur í starfi skólans og skipulegs skólahalds á framfæri við stjórn skólans. Eitt af hlutverkum foreldraráðs er að gefa skólanámsskrá skólans umsögn og fylgjast með framkvæmd hennar. Foreldraráð skal jafnframt fylgjast með áætlunum skólanefndar um skólahald og má þá nefna þætti eins og áform um skólabyggingar, búnað skóla og skólaakstur.
    Ákvæði í 30. gr. frv. um að kjarnagreinar verði skilgreindar í aðalnámsskrá er nýjung. Kjarnagreinar eru þær námsgreinar sem öðrum skyldunámsgreinum fremur eru taldar hafa þýðingu fyrir framhaldsnám, atvinnu og menntun.
    Í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu er lagt til að kjarnagreinar verði íslenska, stærðfræði og enska. Í frv. er eingöngu kveðið á um að kjarnagreinar skuli tilgreindar í aðalnámsskrá en ekki tilgreint hvaða greinar skuli vera kjarnagreinar.
    Í 32. gr. frv. er ákvæði um að verja megi allt að þriðjungi námstíma nemenda í 9. og 10. bekk í valgreinar. Samkvæmt gildandi lögum skiptast námsgreinar grunnskólans í skyldunámsgreinar og valgreinar. Þar er að finna heimildarákvæði um að skólar megi verja allt að helmingi námstíma nemenda í 8.--10. bekk í ýmsar valgreinar. Skólahaldsskýrslur sýna að heimild laganna til að bjóða valgreinar í 8. bekk hefur sáralítið verið nýtt. Það er fyrst og fremst í 10. bekk sem nemendur leggja stund á aðrar námsgreinar en þær sem tilgreindar eru í aðalnámsskrá og viðmiðunarstundaskrá.
    Í viðmiðunarstundaskrá er kennslustundum skipt niður á námsgreinar og hefur tilhneigingin verið sú að gefa íslensku og stærðfræði mest vægi. Í fyrirliggjandi frv. er því í raun verið að lögfesta þá þróun sem orðið hefur í kennslu á undanförnum árum.
    Enn ein nýjung í frv. er ákvæði 31. gr. um að hver skóli skuli gefa út skólanámsskrá. Þar er um að ræða rökstudda áætlun um skólastarfið sem unnin er af starfsfólki skólans undir faglegri forustu skólastjóra. Skólanefnd og foreldraráð eru umsagnaraðilar um skólanámsskrá þótt ekki sé gert ráð fyrir að þessir aðilar eigi að staðfesta skólanámsskrána formlega.
    Það er ekki löng hefð fyrir gerð skólanámsskrár hér á landi. Í gildandi lögum er hennar ekki getið. Hins vegar eru að finna í aðalnámsskrá grunnskóla frá 1989 tilmæli til skóla um að þeir geri slíka vinnuáætlun. Vitað er að margir skólar hafa hafist handa við gerð skólanámsskrár. Starfsmenn skóla hafa í dag mikið frelsi til að skipuleggja og sveigja skólastarfið að þörfum og sérkennum skólanna. Skólanámsskrá er nánari útfærsla á aðalnámsskrá þar sem tekið er mið af sérkennum og sérstöðu hvers skóla. Við gerð slíkrar vinnuáætlunar skapast þýðingarmikill vettvangur fyrir starfsfólk skóla til að vinna sameiginlega að skipulagi og stefnumörkun.
    Í 33. gr. frv. er kveðið á um að kennsla í skyldunámi skuli vera nemendum að kostnaðarlausu, þar með talin námsgögn. Meginbreytingin sem frumvarpsgreinin felur í sér er sú að sveitarfélögum er gert skylt að leggja til og kosta námsgögn í skyldunámi. Hlutverk ríkisins verður að reka sérstaka stofnun sem á að tryggja að ætíð séu fyrir hendi námsbækur og námsgögn sem standast kröfur gildandi laga og aðalnámsskrár. Ríkið rekur þegar slíka stofnun, Námsgagnastofnun, sem starfar samkvæmt lögum nr. 23/1990. Gert er ráð fyrir að með samþykkt frv. falli þau lög úr gildi en unnið verður að undirbúningi nýs frv. um Námsgagnastofnun í samræmi við hina nýju stefnumótun.
    Ákvæði 36. gr. um að nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eigi rétt á sérstakri kennslu í íslensku sem öðru tungumáli eru nýmæli. Sama gildir um heimild til að veita þessum nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmd lokapróf í íslensku og leggja fyrir þá sérstakt lokapróf í sömu grein.
    Ég hef í ráðherratíð minni beitt mér fyrir eflingu íslenskukennslu fyrir nýbúa. Vorið 1992 skipaði ég starfshóp um íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Í kjölfar niðurstaðna starfshópsins hófst heildarskipulagning á þjónustu við nýbúabörn í skólum landsins og veitti ríkisstjórnin aukafjárveitingu til skipulags- og tilraunastarfs. Síðan hafa fjárveitingar til nýbúakennslu aukist, bæði til kennslu í grunnskólum, framhaldsskólum og fyrir fullorðna nýbúa. Gert er ráð fyrir að við næstu endurskoðun aðalnámsskrár grunnskóla verði sérstök ákvæði um íslenskukennslu fyrir nýbúa og aðra þjónustu sem skólum verður ætlað að veita nýbúabörnum.
    Í 46. gr. frv. er kveðið skýrar á um samræmd próf í grunnskóla en gildandi lög gera. Gert er ráð fyrir að bætt verði við prófum í kjarnagreinum í 4. og 7. bekk. Þau eru hugsuð til þess að gefa skólum, kennurum, nemendum og foreldrum upplýsingar um árangur náms og kennslu í ákveðnum þáttum námsgreina. Í ljósi niðurstaðna á skólinn að bregðast við, m.a. að veita nemendum sem ekki hafa náð tiltekinni lágmarksþekkingu og færni sérstakan stuðning. Þá er brýnt að kennurum sé tryggður aðgangur að stöðluðum kunnáttuprófum sem hafa þann tilgang að greina stöðu og vandamál einstakra nemenda en slík próf má t.d. nota í upphafi skólaárs til þess að undirbúa einstaklingsmiðaðar kennsluáætlanir eða á öðrum tímum til að greina stöðu og framfarir nemenda.
    Loks er í þessari grein gert ráð fyrir að hægt verði að leggja fyrir í skólum samræmd könnunarpróf sem hafa þann tilgang að veita skólafólki og fræðsluyfirvöldum upplýsingar um árangur náms og kennslu í einstökum námsgreinum eða námsþáttum.
    Þá eru það nýmæli sem birtast í 49. og 51. greinum frv. Annars vegar er um að ræða ákvæði um að skólar taki upp sjálfsmatsaðferðir til að meta árangur skólastarfsins og hins vegar að menntmrh. er gerður ábyrgur fyrir því að fram fari utanaðkomandi mat á skólum og skólastarfi. Þessi ákvæði eru í samræmi við megináherslur hinnar nýju menntastefnu um að efla markvisst mat á skólastarfi. Lagt er til að matið verði bæði í höndum fagfólksins sjálfs í formi gæðastjórnunar í skólum, svo og af hálfu fræðsluyfirvalda sem standa fyrir utanaðkomandi mati á ýmsum þáttum skólastarfsins.
    Á síðustu árum hafa hagnýtar og fræðilegar rannsóknir stóraukið þekkingu manna á skólastarfi og þeim þáttum sem hafa áhrif á árangur þess. Það sem mestu ræður um árangur skólastarfsins þegar tekið hefur verið tillit til einstaklingsmunar eru stjórnunarhættir, fagmennska kennara, stefnumörkun og heildarskipulag skólastarfsins, svo og sá andi sem ríkir í skólanum. Í skólum þar sem fagleg forusta er lítil og kennarar eru faglega einangraðir er námsárangur og annar uppeldislegur árangur lakari en í skólum með heildstæða gæðastjórnun. Í góðum skólum er menntastefna skipulögð í einstökum atriðum í skólanámsskrá og kennslan í samræmi við skilgreind markmið. Kennarar hafa langa reynslu af því að meta á óformlegan hátt kennsluaðferðir, kennsluefni og ýmsa aðra þætti sem tengjast skólastarfi. Á síðustu árum hefur hins vegar færst í vöxt að kennarar styðjist við formlegar aðferðir í mati sínu og dragi saman niðurstöðu matsins í skýrslum og greinargerðum. Talið er mikilvægt að efla enn frekar þátt sjálfsmats í skólum og þarf í

því sambandi að bjóða kennurum viðbótarmenntun á þessu sviði.
    Frv. um grunnskóla var sent fjölmörgum hagsmunaaðilum til umsagnar í ágústmánuði sl. og barst fjöldi vandaðra umsagna. Það sem mest var gagnrýnt í frv. voru áform um að lengja skólaárið úr níu mánuðum í tíu. Það var vilji langflestra umsagnaraðila að hafa skólaár grunnskóla áfram níu mánuði en nýta þá mánuði betur en gert hefur verið. Þá kom sú krafa skýrt fram að nauðsynlegt væri að lengja skóladag yngstu nemenda, að einsetja þyrfti skóla og gefa nemendum kost á lengri viðveru. Þá var óskað sterklega eftir því að hlutverk ráðuneytisins yrði skilgreint nánar hvað varðar eftirlit með skólahaldi, sbr. 9. gr. frv., að nánari reglur yrðu settar um framkvæmd 37. gr. um stuðning við nemendur með sérþarfir og að kveðið yrði nánar á um lágmarkssérfræðiþjónustu við skólana, sbr. 42. gr. frv.
    Ég hef brugðist jákvætt við þessum athugasemdum. Fallið hefur verið frá lengingu skólaársins í tíu mánuði, en stefnt er að betri nýtingu skólaársins. Ákvæði um vikulegan kennslustundafjölda hefur verið breytt í samræmi við óskir um lengri kennslutíma og í 27. gr. er nú í fyrsta sinn skilgreindur í lagafrv. skóladagur í einsetnum grunnskóla. Þar er einnig heimildarákvæði um lengda viðveru utan dagslegs kennslutíma. Reynt er að skýra frekar eftirlitsskyldu menntmrn. og upplýsingaskyldu sveitarfélaga, sbr. 9. og 10. gr., en ekki var fallist á að setja inn ákvæði um viðurlög ef sveitarfélög stæðu sig ekki í rekstri grunnskóla. Gert er ráð fyrir að með söfnun og birtingu upplýsinga um skólahald sé aðhald ráðuneytis gagnvart sveitarfélögum nægilegt.
    Í nokkrum umsagnanna komu í ljós áhyggjur vegna 37. gr. frv. sem fjallar um sérstakan stuðning við nemendur. Þessir umsagnaraðilar óttuðust að með frv. væri á einhvern hátt verið að skerða réttindi þessara barna til náms frá því sem nú er. Það er af og frá. Bæði frv. og lokaskýrsla nefndar um mótun menntastefnu margítrekar þá jafnréttisstefnu að öll börn og unglingar eigi rétt á námi við hæfi og jafnframt að hið opinbera skólakerfi eigi að veita öllum börnum og unglingum kost á námi í heimabyggð sé þess nokkur kostur. Sem viðbrögð við fram kominni gagnrýni voru þó gerðar vissar orðalagsbreytingar á frumvarpsgreininni og bætt við ákvæði um að menntmrh. setji reglugerð um rétt nemenda til sérstaks stuðnings, svo og um þjónustu við þessa nemendur.
    Í 42. gr. frv. er bætt reglugerðarákvæði um lágmarkssérfræðiþjónustu sveitarfélaga við grunnskóla, en fjölmargir umsagnaraðilar óttuðust að frv. tryggði ekki nægilega vel rétt skóla til þessarar þjónustu. Fleiri breytingar má nefna. Horfið var frá því að breyta kennarafundum í starfsmannafundi og eru ákvæði um kennarafundi óbreytt frá gildandi lögum. Tekið er út ákvæði gildandi laga um að fulltrúi foreldra eigi rétt til setu á kennarafundum og var það gert að ósk samtaka kennara. Að auki má nefna að komið er til móts við fjölmargar tillögur um orðalagsbreytingar. Ekki var unnt að taka tillit til allra þeirra athugasemda sem gerðar voru, annaðhvort vegna breyttra forsendna, þ.e. flutnings grunnskólans til sveitarfélaga, eða vegna þess að þær samræmdust ekki þeirri stefnu sem mótuð er í frv.
    Eins og fram kemur í 23. gr. frv. þarf eftir flutning grunnskólans að fara eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélaga við ráðningar starfsliðs grunnskóla. Því var ekki unnt að verða við athugasemdum þar að lútandi. Einnig komu fram mótmæli við samræmd próf í 4. og 7. bekk, sbr. 46. gr. Í ljósi aukinna krafna um vel menntaða þjóðfélagsþegna, um upplýsingaskyldu fræðsluyfirvalda um skólahald og námsárangur, síaukinnar þarfar á sérkennslu á undanförnum árum og slaks námsgengis of margra nemenda í framhaldsskólum tel ég afar brýnt að þegar í grunnskóla verði reynt að bregðast við og styðja þá nemendur sem eiga við erfiðleika að etja í námi.
    Í rannsókn sem gefin var út á vegum Evrópusambandsins fyrr á þessu ári og fjallar um brottfall nemenda úr skólum er sérstaklega rætt um gildi þess að nota samræmt námsmat til að veita nemendum endurgjöf í náminu og vera kennurum til leiðbeiningar um áherslur í kennslunni. Með því móti fá kennarar mun víðtækari og hlutlægari viðmiðun um stöðu einstakra nemenda en þegar einkunnagjöfin miðast aðeins við námsstöðu eins tiltekins hóps nemenda.
    Einnig vil ég minna á að í umræðunni hér á landi eru æ fleiri orðnir fylgjandi því að leggja fyrir samræmd próf víðar á skólaferlinum en nú er. Þannig sýndi könnun, sem gerð var á meðal félagsmanna í Kennarafélagi Reykjavíkur og birt var sl. vor, að 86,9% þeirra voru fylgjandi samræmdum prófum í 10. bekk, 69,3% vildu fá samræmd próf í 7. bekk og 46,2% vildu þau í 4. bekk. Tilgangur prófanna í 4. og 7. bekk er að kanna stöðu nemenda í námi þannig að unnt verði að bregðast við vandamálum sem allra fyrst. Því hef ég ekki fallist á að hverfa frá þessu ákvæði.
    Mjög margir umsagnaraðilar vildu að í frv. yrði sett ákvæði um hámarksfjölda nemenda í bekkjardeildum. Í frv. eru ekki sérstök ákvæði eða viðmiðanir um fjármál grunnskóla þar sem gert er ráð fyrir að sveitarfélög kosti allan rekstur hans. Fjöldi kennara óttast niðurfellingu ákvæðis um hámarksfjölda í námshópum og telur að slíkt kunni að fela í sér að sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett hversu stórar bekkjardeildir grunnskólans verði. Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt könnun sem gerð var á högum grunnskólakennara árið 1985 töldu kennarar það mikilvægasta baráttumál kennarasamtakanna að undanskilinni baráttu fyrir hækkun grunnlauna að ná fram fækkun nemenda í bekkjardeildum. Áhersla kennara á að fækka í bekkjardeildum tengist án efa þeirri staðreynd að agavandamál hafa aukist í grunnskólum á undanförnum árum auk þess sem kennsla í getublönduðum námshópum gerir miklar kröfur um fjölbreytni og sveigjanleika í kennsluháttum. Krafan um fækkun í bekkjardeildum er því vel skiljanleg frá sjónarhóli kennara sem standa í eldlínunni dag hvern. Ákvæði gildandi grunnskólalaga um þrepaskiptingu á hámarksfjölda í bekkjum felur í sér nokkurn vanda í útfærslu þar sem hámarksákvæðið er 18 nemendur fyrir fyrsta árið, 22 fyrir annað og þriðja skólaárið og 28 eftir það. Er ljóst að víða í skólum skapast nauðsyn á að sameina bekki eða skipta nemendum eins bekkjar niður á aðrar bekkjardeildir árgangsins eftir að þeir hafa verið saman í 1--3 ár. Er ljóst að víða í skólum skapast nauðsyn á að sameina bekki eða skipta nemendum eins bekkjar niður á aðrar bekkjardeildir árgangsins eftir að þeir hafa verið saman í 1--3 ár. Hætta er við að slíkt feli í sér röskun á skólagöngu þessara barna. Hjá nágrannaþjóðum okkar er ekki um að ræða slíka þrepaskiptingu á hámarksviðmiðum nemendafjölda þar sem hún er fyrir hendi. Í Svíþjóð eru engin viðmið um fjölda nemenda í bekk í lögum eða reglugerðum en í Danmörku eru hámarksviðmiðin 28 nemendur við upphaf skólaárs og á öllum aldursstigum grunnskólans og sveitarstjórn getur í undantekningartilvikum heimilað að nemendur verði 30 í bekk.
    Í Noregi eru tvenns konar hámörk fyrir grunnskólann, 28 nemendur á neðra stigi grunnskólans og 30 nemendur á unglingastigi. Ég vil taka fram að ég hef skilning á kröfu kennara um fámennari bekkjardeildir, ekki síst þegar haft er í huga að það rót sem er á lífi fjölmargra íslenskra grunnskólabarna og hvernig það endurspeglast í eirðarleysi þeirra og vanlíðan. Ég tek undir að tryggja þurfi með einhverjum hætti að allir nemendur í námshópum, hvort heldur er bekkjardeildum eins árgangs eða í samkennsluhópum, fái notið kennslu við hæfi. Í raun er verið að ræða kröfuna um nægilega hátt hlutfall kennara í skólum miðað við tiltekinn fjölda nemenda. Hvort það gerist með deilingu ákveðins fjölda nemenda á hvern kennara í bekkjardeildum eða á annan hátt, t.d. með aukinni samvinnu kennara og sveigjanleika í hópaskiptingu, er ákvörðun sem æskilegt væri að leggja í hendur fagfólks viðkomandi skóla. Ég vil í þessu sambandi benda á það að fjöldi bekkjardeilda getur haft áhrif á það hversu fljótt tekst að einsetja grunnskólana. Vera kann að hægt sé að ná sambærilegum áhrifum, þ.e. að auka tengsl kennara og nemenda og bæta aga með því að fjölga kennurum og rýmka möguleika á því að fleiri en einn kennari kenni einum námshóp. Hugsanlegt er einnig að setja inn ákvæði um hámarksfjölda nemenda á hvern kennara.
    Ég vil hvetja hv. alþm. til að velta upp fleiri hliðum þessa vandasama máls. Ekki er víst að ákvæði um hámarksfjölda nemenda í bekk skili okkur þeim árangri sem að er stefnt. Þó vil ég taka fram að ég mun ekki leggjast gegn því að slíkt ákvæði verði sett inn í frv. ef sú skoðun verður ofan á í umræðunni á Alþingi.
    Undirbúningsvinna af hálfu menntmrn. fyrir fyrirhugaðan flutning á rekstri grunnskóla hefur tekið til fleiri þátta en gerðar frv. til laga um grunnskóla. Ég skipaði tvo starfshópa til að fjalla um málefni er tengjast flutningnum og liggja fyrir skýrslur þeirra. Önnur skýrslan fjallar um hvernig farið skuli með óunnin starfstengd réttindi kennara við flutninginn, svo og um tilhögun kjarasamninga. Hin skýrslan fjallar um mat á kostnaði við tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaga og hvernig sveitarfélögum verði tryggðar auknar tekjur til að standa undir rekstri þess hluta grunnskólans sem enn er í höndum ríkisins. Enn er eftir nokkur vinna á báðum þessum sviðum og brýnt að henni verði fram haldið nú þegar frv. er komið til formlegrar umræðu á Alþingi og línur taka að skýrast um það hvernig lagalegur rammi um hinn nýja grunnskóla muni líta út.
    Innan menntmrn. hefur verið unnið að undirbúningi frv. til laga sem tryggir áunnin réttindi fastráðinna kennara við flutninginn og vænti ég þess að geta lagt það fram innan tíðar og mælt fyrir því.
    Einnig hef ég með samþykki ríkisstjórnarinnar ákveðið að skipa sérstakan starfshóp til að undirbúa flutning grunnskólans til sveitarfélaga, að hafa yfirsýn yfir og samræma þau verkefni sem fyrir liggja í tengslum við flutninginn. Í starfshópnum verða fulltrúar tilnefndir af samtökum kennara, Sambandi ísl. sveitarfélaga, félmrn., fjmrn. og menntmrn. Ég stefni að því að þessi hópur hefji störf hið fyrsta.
    Hæstv. forseti. Mikil vinna liggur að baki því frv. sem ég hef verið að mæla fyrir. Þar á ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við starf 18 manna nefndarinnar en einnig er rétt að taka fram að fjölmörg áhersluatriði í hinni nýju skólastefnu eru sameiginleg markmið þeirra sem að skólamálum vinna. Það er því engin ástæða til að fara í pólitíska flokkadrætti þar um. Framþróun í skólamálum er stöðug og hver lagagerð er barn síns tíma. Þetta nýja frv. er liður í þróun grunnskólans á grundvelli þeirrar stefnumörkunar sem gerð var með grunnskólalögunum 1974. Lögin sem samþykkt voru í tíð fyrrv. menntmrh., hv. þm. Svavars Gestssonar, voru áframhaldandi þróun á þeirri braut að búa svo að grunnskólanum að hann gæti veitt öllum nemendum á aldrinum 6 til 16 ára þjónustu við hæfi.
    Hvað varðar skólastefnu þessa frv. þá staðfestir það fyrri stefnumörkun og er frekari þróun hennar. Vissulega eru þar lagðar nýjar áherslur, einkum hvað varðar aukna áherslu á eftirlit og mat á skólastarfi. Sú áhersla er í samræmi við þróun skólamála í nágrannalöndum og einnig þáttur í því að stefnt er að yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga.
    Hæstv. forseti. Ég læt í ljós þá von að um þetta mikilvæga mál takist sem allra mest sátt hér í þinginu og meðal þeirra mörgu sem við skólalöggjöfina eiga að búa. Segja má að þar sé um að ræða nær hverja fjölskyldu í landinu. Enginn einn málaflokkur snertir jafnmarga og skólamál.
    Ég treysti sveitarfélögunum að taka við þeirri ábyrgð sem fylgir því að verða vinnuveitendur og viðsemjendur skólastjórnenda og kennara. Allur rekstur grunnskólans er þegar kominn til sveitarfélaganna að undanskildum þessum þætti, þ.e. kennurum og stjórnendum. Sveitarfélögin hafa sýnt að þau hafa þann metnað sem þarf til að sinna þessum málaflokki á verðugan hátt.
    Ég nefni í þessu samhengi að við sveitarstjórnarkosningar á sl. vori má segja að allir flokkar og

öll framboð hafi sett skólamál í öndvegi í kosningabaráttunni. Ég efast um að svo hafi verið áður. Það hefur lengi verið vilji Samtaka sveitarfélaga að fá grunnskólann alveg yfir til sveitarfélaganna. Nú gefst tækifæri að ljúka þeirri yfirfærslu.
    Það er von mín að gott samstarf takist við Samband ísl. sveitarfélaga um þetta mikilvæga mál.
    Þá legg ég ekki síður áherslu á samstarfið við samtök kennara og skólastjóra. Mér eru vel kunnar efasemdarraddir í hópi þeirra um yfirfærsluna. Í sjálfu sér er það ekki óeðlilegt að efasemdarraddir heyrist meðan óvissa ríkir og útfærsla á ýmsum atriðum er ekki fullákveðin.
    Að þeim málum öllum verður nú unnið, vonandi í góðri samvinnu milli allra þeirra sem hlut eiga að máli. Þar bind ég vonir við starfshópinn sem ég nefndi að skipaður yrði og fær það veigamikla hlutverk að samræma það undirbúningsstarf sem þarf að vinna.
    Hæstv. forseti. Ég lýk nú máli mínu og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.