Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 15:05:58 (988)


[15:05]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi láta það koma fram að ég tel að það mál sem er hér á dagskrá beri fyrst og fremst að nálgast sem menntamál frekar en eitthvert tæknilegt yfirfærslumál til sveitarfélaganna og að málið beri að skoða sem slíkt út frá hagsmunum þeirra sem eru inni í skólanum. Hitt sé þáttur sem eigi að koma í annan stað í öðru lagi. En ég vil jafnframt segja að ég er sammála því sem fram kom í ágætri ræðu hjá hv. 2. þm. Vestf. að í rauninni er málið svo illa undirbúið og vanbúið að allir sjá að skynsamlegast sé að hinkra með það. Það er alveg sama hvort menn eru þeirrar skoðunar að þennan grunnskóla okkar eigi að færa til sveitarfélaganna eða ekki. Allir hljóta að viðurkenna að málið er vanbúið. Það er of seint fram komið til þess að það sé hægt á þessu stutta þingi að afgreiða það með þeim hætti sem við verðum að krefjast af þessari virðulegu stofnun. Flest í málinu er í uppnámi má segja ef frv. yrði afgreitt eins og það er. Það er stoðþjónustan, sérkennslan, sálfræðiþjónustan, það er staða skólanna í dreifbýlinu í öðru lagi, sérstaklega í hinu dreifðasta dreifbýli, ef svo mætti að orði kveða. Það er staða grunnskólans gagnvart sveitarfélögunum og í sveitarfélögunum í landinu eins og sést á nýlegri umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga sem ég hef undir höndum og mun kynna hér á eftir og það er ekki síst óvissan um stöðu kennara og réttindi þeirra sem hefur ekki þokast núna um margra missira skeið þó að hugur manna virðist hafa staðið til annars. Því er langskynsamlegast að fresta málinu á þessu þingi og fara betur yfir það vegna þess að það eru svo margir endar lausir og málið er svo óljóst. Og það liggur heldur ekkert á. Það eru engin efnisleg rök fyrir því að það liggi nein ósköp á í þessu sambandi. Það er í raun og veru bara eitt sem skiptir máli í þessu sambandi og það er að menn vandi sig og geri hlutina vel. Grunnskólalög eru grundvallarlög, kveða á um réttindi barna á tilteknum aldri til menntunar og það á að líta á grunnskólalög þannig fyrst og fremst að mínu mati.
    Hæstv. menntmrh. lagði á það áherslu að hann vildi standa þannig að málum að sem allra best sátt tækist um málið hér í þessari virðulegu stofnun og ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra og er út af fyrir sig tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til þess að svo megi verða. Ég verð hins vegar að viðurkenna það og get ekki neitað mér um að láta það koma hér fram að ég tel að ráðuneytið og hæstv. ráðherra hafi ekki haldið þannig á máli að það geti stuðlað að sátt um þetta mál. Skipun þessarar 18 manna nefndar þar sem um er að ræða einstaklinga sem eru valdir af ráðherranum einhliða án þess að tala við nokkurn aðila, án þess að tala við kennarasamtök, án þess að tala við foreldrasamtök, án þess að tala við samtök fræðslustjóra, án þess að tala við fulltrúa stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Ráðherrann lætur nægja í grófum dráttum að tala við sjálfan sig og sína allra nánustu í þessu máli og skipar nefnd undir forustu eins af þingmönnum Sjálfstfl. Það er auðvitað alveg ótrúlegt, með fullri virðingu fyrir þessum einstaklingum, það er alveg ótrúlegt að það skuli vera staðið að þessum málum með þessum hætti svona seint á 20. öld. Hefðum við verið að tala um þessi vinnubrögð hér undir konungi snemma á þessari öld sem nú er senn öll, þá hefðu hlutirnir kannski horft öðruvísi við. En þegar við erum að fjalla um mál á grundvelli og með hliðsjón af nútímalegum stjórnunarháttum, þá er þetta alveg með ólíkindum og ég get ekki sagt að þessi vinnubrögð stuðli að sátt um málið. Og síðan framkoman gagnvart segjum Kennarasamtökunum í þessu máli aftur og aftur þar sem hefur verið skýrt frá því í menntmn. hvað eftir annað á þessu kjörtímabili að ráðuneytið hefur ekki svarað einföldum erindum, hvað eftir annað varðandi jafnvel einföldustu framkvæmdamál. Og að koma svo hér í lok kjörtímabilsins þegar klukkuna vantar kortér í kosningar eða svo, það á að fara að kjósa eftir örfáa mánuði, koma þá og biðja um sátt eftir að vera búinn að slá á fingurna á öllum, m.a. kennurum og samtökum þeirra, allt kjörtímabilið þar til nú, skera og skera linnulaust, stefnulaust út og suður og koma svo og segja núna, 1. nóv. 1994: Sátt, sátt, sátt --- það verkar ekki vel, það er ekki trúverðugt, hæstv. forseti.
    Ég held þess vegna að það sé eðlilegast að hinkra með þetta mál og að það fái meðferð. Það mætti t.d. hugsa sér að það yrði sett í þetta milliþinganefnd eins og t.d. var gert með lögin árið 1974 vegna þess að hér er um engu minni breytingu að ræða en þá sem gerð var 1974. Þá má jafnvel líkja þeirri breytingu sem hér er verið að gera tillögu um við lögin 1946, fræðslulögin nýju sem svo voru kölluð í nærri 30 ár. Þá voru kallaðar til milliþinganefndir. Þá var farið með málið út í þjóðfélagið allt.
    Þegar lögin voru undirbúin 1974 mættu þau verulegri andstöðu Sjálfstfl. hér á Alþingi. En þá var þannig að málum staðið að það var ekki nóg með að það væri kallað í fulltrúa kennarasamtaka, fulltrúa sveitarfélaga o.s.frv. heldur var auglýst í dagblöðunum eftir athugasemdum frá almenningi og það komu fjöldamargar slíkar athugasemdir sem höfðu áhrif á lokagerð frv. Það er fróðlegt að bera saman annars vegar þessi lokuðu, þröngu flokkspólitísku vinnubrögð Sjálfstfl. núna og hins vegar þessi opnu vinnubrögð sem tíðkuð voru fyrir rúmum 20 árum undir forustu Birgis Thorlaciusar sem leiddi þá nefnd sem þá undirbjó grunnskólafrv. til framlagningar á Alþingi.
    Það er líka dálítið sérkennilegt í þessu sambandi, hæstv. forseti, að það er eins og allt sé gert af hálfu ráðuneytisins til þess að slíta þau tengsl sem hafa verið við vinnuna í ráðuneytinu fyrr á árum, ekki aðeins þann tíma sem ég starfaði þar, heldur líka á árunum í kringum 1974. Það er í raun og veru í fyrsta sinn í dag að hæstv. menntmrh. nefnir að það sé til saga í þessum málum en að hann sé ekki að finna upp hjólið með þeim málum sem hann leggur hér fyrir þessa virðulegu stofnun.
    Ég held að þess vegna sé nauðsynlegt að menn tali sig ósköp einfaldlega niður á það að hér verði þessum málum frestað og þau verði skoðuð mikið betur. Það getur vel verið að menn komist að þeirri niðurstöðu að flytja þetta til sveitarfélaganna og þá verður það þannig, en þá þarf að undirbúa það mál miklu betur. Sem dæmi um það hvernig að hlutunum er staðið er svo það, hæstv. forseti, að þau gögn, sem við þingmenn erum með hér á borðunum, sumir okkar, fengum við í hendur í gær. Þykkar skýrslur um fjármálatilfærslu vegna flutnings á grunnskólanum til sveitarfélaga fékk ég í hendur í gær. Skýrslu starfshóps á vegum menntmrh. um starfstengd réttindi kennara vegna flutnings grunnskóla til sveitarfélaganna, ég fékk þessa skýrslu í hendur í gær. Og staðreyndin er sú að hún var skrifuð eða henni var lokið í apríl. Hún er búin að vera leyniplagg í menntmrn. síðan. Þetta greiðir auðvitað ekki fyrir sátt og eðlilegum vinnubrögðum um hlutina þegar menn eru að fela gögn í málinu eins og menntmrn. hefur gert í sambandi við þetta skjal.
    Ég vil síðan, hæstv. forseti, víkja aðeins að ýmsum þáttum í þessu máli. Það má segja að frv. sjálft flokkist í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi flutninginn á grunnskólanum til sveitarfélaganna. Í öðru lagi eru gerðar tillögur um nokkrar aðrar kerfisbreytingar og í þriðja lagi er um að ræða það sem ég kalla leiðréttingar eða aðlögun á grunnskólanum að þeirri reynslu sem er að ganga yfir á hverjum tíma. Ég tel hins vegar að afleiðingarnar af þessum breytingum hitti verst fyrir fjögur svið sem ég ætla hér aðeins að ræða. Ég ætla þá í fyrsta lagi að tala um sérkennslubörnin og sérskólana.
    Ef við skoðum þetta frv. og ímyndum okkur að grunnskólinn væri kominn yfir til sveitarfélaganna, þá má auðvitað halda því fram að börn við venjulegar aðstæður og með tiltölulega venjulega námsgetu mundu finna mjög lítið fyrir breytingunni í hinum almenna hversdagsleika grunnskólans. Hins vegar er alveg ljóst að mínu mati að stoðkennsla við þau börn sem á henni þurfa að halda er í uppnámi. Sérkennslan er í uppnámi. Ég skil satt að segja ekki og hef engin rök fyrir því af hverju sérkennslu- og sérkennarahugtakinu er í raun vikið til hliðar í þessum umræðum. Það er mjög athyglisvert hvernig á þeim málum er haldið. Ég tel alveg augljóst mál að þessi þáttur skólastarfsins, sem er ekki svo lítill, sérkennslan í grunnskólanum, sé í talsverðri hættu. Við erum núna með starfandi í grunnskólanum á milli 300--400 sérkennara ýmist í fullu starfi eða í hlutastarfi. Þeir eru að kenna geysilega stórum fjölda barna. T.d. í Reykjavík háttar þannig til að mörg þúsund börn, líklega á milli fimm og sex þúsund, koma með einhverjum hætti við sögu sérkennslunnar. Þetta eru þeir einstaklingar sem veikastir eru og þurfa mest á því að halda að fá stuðning í grunnskólanum til þess að geta staðið í lappirnar þegar kemur út í frekara nám eða út í atvinnulífið því vonandi fær þetta fólk vinnu.
    Í raun og veru er ekki nægilega tryggilega gengið frá þessu máli í frv. Og ég bið hv. menntmn. og meiri hluta hennar og hæstv. menntmrh. um að horfast í augu við þennan veruleika með því að setja sig t.d. í spor foreldra sem eiga börn við þessar aðstæður núna og velta því fyrir sér: Hvernig verður þjónustunni við þau háttað? Segjum að viðkomandi búi t.d. í hinu dreifðasta dreifbýli, eins og ég kallaði það áðan. Þá hygg ég að menn muni komast að þeirri niðurstöðu að þetta gengur ekki. Þetta er ekki öruggt. Og ég hygg að allir geti verið sammála um að við eigum ekki að ganga frá þessum hlutum varðandi sérkennsluna öðruvísi en að málin séu 100% örugg gagnvart þeim börnum sem hér er um að ræða.
    Það er algjör óvissa líka, virðulegur forseti, um sérskólana sjálfa. Í þessari bók, sem er falleg á litinn og er gefin út í september 1994, er farið yfir þessar stofnanir, þessa sérskóla sem á að flytja á milli. Langflestir þessir skólar eru í Reykjavík. Ég spyr: Verður það þannig að fjármagnið verði flutt með þessum skólum? Verður það þá þannig að sérskólar verði varla nokkurs staðar reknir nema í fræðsluumdæmi Reykjavíkur eins og þetta lítur út? Hvað verður um starfsmenn sérskólanna? Hvað verður um sérskólana? Og hvað verður um þau börn í sérskólunum sem eiga heima annars staðar, sem eiga lögheimili utan Reykjavíkur t.d. í þessu tilviki? Það kemur fram í þessari bók hvað á að gera í sambandi við þau. Það á að rukka um námsvistargjöld fyrir þau. Námsvistargjaldakerfið, sem menn hafa verið að gagnrýna og hefur verið mjög erfitt t.d. í sambandi við Iðnskólann í Reykjavík og margir hér þekkja, virðist eiga að taka upp í sérskólakerfinu. Það gengur ekki, hæstv. forseti. Það gengur alls ekki. Því það er nóg á aðstandendur þessara barna lagt þó því sé ekki bætt við að það komi reglulegar rukkanir í heimasveit þeirra af því að þau eru í sérskólum á þéttbýlissvæðinu.
    Sem dæmi um hvað þetta er óskaplega lítið hugsað, með leyfi forseta, þá er t.d. gert ráð fyrir því að kennsla barna þeirra kvenna sem eru í Kvennaathvarfinu flytjist til sveitarfélagsins sem þýðir þá væntanlega að það verður að rukka um námsvistargjöld fyrir börn kvenna sem eru í Kvennaathvarfinu í þeim sveitarfélögum þar sem þessar konur eiga heima. Ég segi: Er ekki nóg á þær lagt í litlum byggðarlögum þó ekki komi rukkun í þokkabót á eftir frá Reykjavíkurborg af því að hún verði að innheimta fyrir þessum kostnaði? Þetta gengur ekki, þetta gengur ekki, hæstv. forseti. Meðferðin og afgreiðslan hér á sérskólunum er algjörlega fráleit frá almennu jafnréttis- og uppeldissjónarmiði.
    Í frv. er talað um blöndun í bekki sem viðmiðun í grunnskólanum. Ég tel að það sé ekki hægt að tala um blöndun í bekki ef það er ekki tryggt að sú besta sérfræðiþekking sem kostur er á á hverjum tíma komist sæmilega að börnum sem þurfa á sérkennslu að halda. En í frv. og greinargerð þess er hvergi gert ráð fyrir sérfræðingum í sérkennslu nema í sérskólunum sjálfum.
    Að öllu þessu samanlögðu, hæstv. forseti, þá tel ég að bara þennan þátt með sérskólana, sérkennsluna, verði að skoða miklu, miklu betur.
    Ég ætla svo ekki, virðulegur forseti, að ræða hér um ákvæðin í 42. gr. frv. í einstökum atriðum. Eins og um það að þar er námsráðgjöf lögð að jöfnu við sálfræðiþjónustu. Satt að segja er ég alveg undrandi á því að menntmrn. skuli láta svona lagað frá sér fara. Vegna þess að námsráðgjöf hlýtur að vera burðarás í þróun skóla framtíðarinnar. Því námsráðgjöf hlýtur að vera almennt úrræði handa svo að segja öllum þeim sem eru í grunnskóla og ljúka grunnskóla. Námsráðgjöf er ekki sérverkefni, hliðarverkefni, aukaverkefni af neinu tagi. Um leið og greinin um námsráðgjöf í núgildandi grunnskólalögum er felld niður, ég sé eftir henni, þá bæta menn gráu ofan á svart með því að leggja námsráðgjöf að jöfnu við stoðþjónustu eins og gert er í 42. gr.
    Svo er það náttúrlega líka mjög athyglisvert að þegar kemur að þessu máli sem við vitum að mun kosta eitthvað, útfærslan á sérkennslunni ef hún yrði flutt svona yfir, þá kemur niðurstaða fjmrn.: Hver er hún? Hún er sú að því er þetta varðar að það muni ekki kosta neitt. Það muni ekki kosta neitt að taka upp þessar breytingar sem hér er gert ráð fyrir.
    Ég tel sem sagt að þetta sé það langalvarlegasta í frv., þ.e. það sem lýtur að sérkennslunni. Það er að sumu leyti afleiðing af tilflutningnum og reyndar að mestu leyti eins og það lítur út.
    Í annan stað, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á þeim ákvæðum frv. sem fjalla um réttindi barna og stærð bekkjardeilda. Það er alveg rétt eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykn. að þessi ákvæði um stærð bekkja . . .  ( SAÞ: Tíunda.) Tíunda. Ég bið þingmanninn að afsaka --- stendur í miðju prófkjöri og fær svona svívirðingar yfir sig. Ég skal aldrei gera þetta aftur, hv. þm. ( SAÞ: Þetta er samkvæmt reglunum.) Já, samkvæmt reglunum. Það er nefnilega það --- halda sig við reglurnar, það er rétt.
    Í þessum fjármálakafla eru ákvæði um hámarksstærðir hópa. Það er auðvitað rétt. Ég er þeirrar skoðunar að ákvæði um hámarksstærðir hópa eigi að vera inni áfram með einhverjum hætti. Þá er ég ekki aðeins að tjá mín sjónarmið og t.d. hv. 2. þm. Vestf. heldur líka Samtaka sveitarfélaga. Samtök sveitarfélaga telja að það þurfi að koma til móts við þá gagnrýni sem uppi er varðandi niðurfellingu á þessu ákvæði í frv. eins og það lítur út.
    Að öðru leyti get ég stytt mál mitt varðandi þetta sérstaka atriði og segi: Ég tel að staða barna í dreifbýlinu, þ.e. í fámennustu skólahéruðunum, sé í mikilli hættu eins og þetta mál lítur út. Ég get út af fyrir sig til að skýra mál mitt bætt því við að ég sé ekki betur en að hlutirnir séu þannig að fámennustu hrepparnir geti átt undir högg að sækja hjá þéttbýlisstöðunum þegar kemur að því að skipuleggja skólastarf og kennslu. Við þekkjum það sem höfum pínulítið komið að þessum málum að það er oft mjög erfitt að skipuleggja samstarf dreifbýlishrepps og þéttbýlis um skólamál. Ég hygg að þeir sem þekkja vel til t.d. á Vesturlandi eða í Norðurlandi vestra geti staðfest þetta þar sem iðulega er um allmikil vandamál að ræða í samskiptum dreifbýlissveitarfélags annars vegar og þéttbýlissveitarfélags hins vegar um skólahald. Staðreyndin er sú að þessi sveitarfélög og þessi mál eru algerlega í lausu lofti samkvæmt þessu frv. Það eru engin ákvæði um hvernig þau eigi að starfa saman. Í 11. gr. frv. segir að þau eigi að starfa saman en það eru engin ákvæði um hvernig það eigi að gerast. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hvernig sér hann fyrir sér framkvæmdina á 11. gr. varðandi samstarf þessara sveitarfélaga ef snurða hleypur á þráðinn, ekki aðeins um almennt starf grunnskólans heldur kannski alveg sérstaklega um stuðningsþættina sem ég kom að áðan?
    Í þriðja lagi, hæstv. forseti, tel ég að þetta mál sé í uppnámi vegna þess, eins og ég sagði áðan, hvernig haldið er á réttindamálum kennara. Staðreyndin er sú að það er alveg með ólíkindum að menn skuli ekki hafa unnið snarpar í því máli en verið hefur. Í grein sem Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, skrifaði í Kennarablaðið í september sl. fjallar hann um lögbundin réttindi kennara. Hann segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Nú eru liðnir fimm mánuðir síðan tillögur nefndar um meðferð réttindamála kennara og kjarasamninga þeirra við hugsanlegan flutning á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga voru lagðar fram.``
    Síðan fer hann yfir þrjú atriði, sem eru flókin, varðandi réttindaflutning, flutning kennara frá því að vera starfsmenn ríkis yfir í það að vera starfsmenn sveitarfélaga. Hann segir hér, með leyfi forseta, í fyrsta lagi:
    ,,Fái kennarar að vera áfram í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR), sem er eina leiðin til að varðveita réttindin, eru samt mörg vandamál sem þarf að leysa. Eitt er það að einungis rúmlega 50 sveitarfélög af yfir 170 sveitarfélögum í landinu eiga aðild að sjóðnum og hann hefur um nokkurt skeið lokað á að fleiri launagreiðendur fái aðild.``
    Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. menntmrh.: Er fjmrn. tilbúið til að taka fleiri launagreiðendur inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins? Er fjmrn. tilbúið til að taka sveitarfélög inn sem aðila að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins? Það væri satt að segja alveg stórkostleg breyting frá því sem verið hefur þar sem fjmrn. hefur, mér liggur við að segja af eðlilegum ástæðum, reynt að takmarka aðgang að sjóðnum eins og mögulegt er. En hefur fjmrn. allt í einu opnað fyrir það að sveitarfélög geti orðið aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eins og hér er bersýnilega verið að tala um?
    Síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Eitt af því sem starfsmenn ríkisins ávinna sér með veru í LSR er sá réttur að eftirlaun þeirra fylgja launabreytingum sem verða hjá eftirmönnum. Þetta þýðir að kennari sem á t.d. 70% lífeyrisrétt og er í launaflokki 144-8 þegar hann fer á eftirlaun fær greidd eftirlaun samkvæmt þeim flokki, þ.e. þremur launaflokkum ofar en kennari á byrjunarlaunum. Launabreytingar sem sveitarfélögin kunna að semja um við okkur í framtíðinni hafa áhrif á eftirlaunarétt allra kennara sem nú greiða iðgjöld til LSR og líka þeirra sem þegar eru komnir á eftirlaun. Það má varpa fram þeirri spurningu hvort það standist lög að ríkið framselji samningsréttinn og þar með ákvörðun eftirlauna til sveitarfélaganna og feli þeim þar með að semja um eftirlaun starfsmanna sem aldrei voru ráðnir til starfa hjá þeim.``
    Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. menntmrh.: Telur hann að þetta standist, að sveitarfélögin semji fyrir fólk sem aldrei hefur verið í vinnu hjá sveitarfélögunum? Telur hann það standast? Hvernig sér hann þetta mál fyrir sér? Ég efast um að þetta standist meira að segja stjórnarskrá landsins að óskyldur hagsmunaaðili ráðskist með hagsmunamál fólks með þeim hætti sem hér er verið að benda á.
    Síðan má auðvitað í þriðja lagi benda á ráðningarkjörin, þar sem kennarar hafa verið fastráðnir og verið skipaðir starfsmenn ríkisins. Verða þeir skipaðir starfsmenn viðkomandi sveitarfélags? Er það þannig? Er það hugsanlegt að sveitarfélögin samþykki að þessir starfsmenn verði skipaðir starfsmenn sveitarfélaganna? Svarið er örugglega nei, ég er viss um að sveitarfélögin muni a.m.k. flest hafna því. En hvað verður þá með þetta fólk? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig sér hann þetta fyrir sér, þetta kjaraatriði, grundvallarkjaraatriði kennara sem kennarar hafa í raun og veru selt á undanförnum árum aftur og aftur með því að taka við lægri launum heldur en ella hefði verið?
    Í fjórða lagi, hvað með biðlaunaréttinn? Hvernig fer með biðlaunaréttinn? Það má kannski spyrja eins og hv. 2. þm. Vestf. hér áðan: Hvernig fer um þau mál hjá þessu fólki sem t.d. leggur niður störf á fræðsluskrifstofunni? Fær það biðlaun? Á það biðlaunarétt eða hvað? Hvað hafa menn hugsað sér í þeim efnum? Það er alveg nauðsynlegt að fá um það skýr svör við þessa umræðu.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því að um biðlaunaréttinn hafa verið miklar deilur í þessari stofnun, það hefur verið mikill vandi og ákvörðun biðlaunaréttar varðandi kennara hefur auðvitað áhrif á biðlaunarétt varðandi aðra opinbera starfsmenn. Við höfum verið með einkavæðingarfrumvörp hér hvert á fætur öðru á þessu kjörtímabili þar sem ríkisstjórnin hefur í raun og veru ekki getað svarað því hvernig á að fara með biðlaun þessa fólks. Hvað á að gera við biðlaun kennaranna? Og menn verða að bíta í það súra epli að kennarar eru fólk sem þarf að taka tillit til og það er ekki hægt að umgangast þá bara eins og eitthvert viðfangsefni á pappír, heldur hafa þeir starfað hjá ríkinu um árabil eða áratuga skeið, verið að kenna börnunum okkar og er þá ekki eðlilegt að stjórnvöld sýni þeim a.m.k. þá lágmarksmannasiði að tala við þá um það hvernig þeim hlutum á að koma fyrir sem snúa að eftirlaunarétti kennara þegar svona miklar breytingar eru að ganga yfir eins og þær sem hér eru á ferðinni?
    Í fimmta lagi, hæstv. forseti, vildi ég nefna aðeins sveitarfélögin sjálf. Nú skyldi maður ætla að sveitarfélögin væru alveg vitlaus í að fá grunnskólann, að þau biðu bara málþola utan við dyrnar eftir því að fá grunnskólann, að Vilhjálmur Vilhjálmsson lægi bara hér við að fá lögin samþykkt, að fá grunnskólann. En það er nú eitthvað annað, hæstv. forseti. Ekki einu sinni Vilhjálmur er mættur. Og frá Sambandi ísl. sveitarfélaga hafa borist ýmsir pappírar og ég fæ ekki séð að Samband sveitarfélaga sé mjög hrifið af þessum málum eins og þau standa. Auðvitað vilja sveitarfélögin hafa þessi mál eins og sjálfsagt flestöll önnur, enda komi peningar. En þegar eftir er að ganga frá öllu öðru þá vilja sveitarfélögin auðvitað ekkert fá málið.
    Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga fór yfir frv. til laga um grunnskóla á fundi sínum 30. sept. sl., þau drög sem þá lágu fyrir. Í þeirri umsögn kemur mjög margt fróðlegt fram. Þar kemur t.d. fram að kostnaður sem gert er ráð fyrir í þessari greinargerð Fjárlaga- og hagsýslustofnunar sé vanmetinn og það er nú satt að segja bara einn brandari aldarinnar að Fjárlaga- og hagsýslustofnun skuli vanmeta kostnað við nokkurn skapaðan hlut. Hún ofmetur yfirleitt alltaf kostnað, sérstaklega við skólann því að hún hefur yfirleitt alltaf verið heldur á móti skóla ef hún hefur átt möguleika til þess og bætt alltaf verulega í. Ef það hefur þurft að samþykkja einhverjar breytingar á skólanum, þá hefur Fjárlaga- og hagsýslustofnun alltaf sagt að það kostaði aðeins meira en það kostaði. Nú allt í einu segir Fjárlaga- og hagsýslustofnun að það kosti minna og það er til þess að gera þetta fallegt í augum sveitarfélaganna og láta sveitarfélögin halda að það sé allt í lagi að taka við þessu. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að taka undir það sem kemur hérna fram í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga. Við verðum auðvitað að fá hér á borðið kostnaðarmat Sambands ísl. sveitarfélaga og ég spyr hæstv. menntmrh.: Liggur fyrir kostnaðarmat Sambands ísl. sveitarfélaga? Samkvæmt þessu skjali, sem ég fékk í morgun frá þeim samtökum, var það kostnaðarmat allt annað en það sem kemur frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem er núna allt í einu farin að vanmeta kostnað við skóla. Ég held því að það sé alveg óhjákvæmilegt að við fáum betri upplýsingar um það mál en þegar liggja fyrir.
    Það er einnig mjög athyglisvert í sambandi við umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, sem ég hef satt að segja ekki alltaf verið ánægður með í skólamálum, það hef ég ekki verið alltaf. Mér hefur ekki fundist það alltaf mikil speki sem þaðan hefur komið, það verð ég að játa. En hérna kemur þá það sem liggur eiginlega alveg í augum uppi og hv. 2. þm. Vestf. var að tala um hér áðan, reyndur fræðslustjóri auk þess að vera framsóknarmaður sem fer nú stundum saman, greinilega, að Samband sveitarfélaga vill fá samráðs- og úrskurðarnefnd. Auðvitað verður að setja upp samráðsnefnd um rekstur skólans. Jafnvel þó að skólinn verði fluttur yfir að því er varðar laun kennara, þá verður að vera einhver aðili sem er samráðsvettvangur ríkisins og sveitarfélaganna eftir sem áður því að eftir sem áður er það þannig, hvað sem þessum reglustikumönnum í þjóðfélaginu líður, að skólinn verður samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaganna. Ríkið --- gerir hvað? Það gefur út reglur um byggingar, það gefur út aðalnámsskrá grunnskóla. Það semur væntanlega við kennarana, a.m.k. framan af og tekur ákvarðanir um mikilvæg atriði í kjörum þeirra þannig að auðvitað verður þetta sameiginlegt verkefni og þess vegna er það skynsamlegt sem Samband ísl. sveitarfélaga bendir á hér áðan í þessu skjali að reyna að koma á einhverri samvinnunefnd ef af þessum tilflutningi verður sem verður nú sennilega ekki alveg í bráð, en einhvern tíma seinna á þessari öld því að

við þurfum að taka okkur sæmilegan tíma í að undirbúa þessa hluti.
    Ég vil einnig vekja hér sérstaka athygli, hæstv. forseti, á einu atriði, sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur miklar áhyggjur af og það eru námsgögnin. Það er mjög skrýtið mál. Í námsgagnakaflanum í þessu frv. segir: Sveitarfélögin eiga að kaupa námsgögn, borga fyrir námsgögn. Það þýðir það að kostnaðinum er létt af ríkinu. Ríkið er í raun og veru að leggja niður Námsgagnastofnun sem stofnun ríkisins, enda stendur það í lok þessa frv. að það eigi að fella úr gildi lög um Námsgagnastofnun með afgreiðslu þessa frv. þó ekki séu komin sérstök lög um Námsgagnastofnun. Auðvitað er verið að leggja hana niður. Í þessum skjölum stendur einhvers staðar, ef ég man rétt, skjölum frá ráðuneytinu, að ef þetta verður svona, þá fái skólinn ekki ákveðinn kvóta af bókum eftir ákveðnum kvótareglum svo sem verið hefur. Þetta mál hefur ekkert verið rætt við sveitarfélögin. Sveitarfélögin þekkja ekki þetta mál. Og í þessari greinargerð Sambands ísl. sveitarfélaga sem ég er hér með undir höndum segir svo um 33. gr., með leyfi forseta:
    ,,Í greininni segir að sveitarfélögum sé skylt að leggja til og kosta kennslu og námsgögn nemendum að kostnaðarlausu. Gert er ráð fyrir að ríkið starfræki sérstaka stofnun er tryggi með eigin útgáfu eða útvegun frá öðrum að ætíð sé völ á námsbókum. Verðlagning stofnunarinnar skal ákveðin árlega af sérstakri nefnd.``
    Ekki kemur fram í greininni hvort skólar fái námsgögn án endurgjalds samkvæmt kvóta eins og nú er sem eðlilegast væri, segir Samband ísl. sveitarfélaga, eða hvort sveitarfélög þurfa eftir breytinguna að greiða fyrir öll námsgögn. Sem sagt, stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga veit þetta ekki. Þetta atriði hefur ekki verið rætt við hana sem er bersýnilega þannig að það er ætlun ráðuneytisins, að sveitarfélögin borgi fyrir öll námsgögn eins og þetta lítur hér út. En Samband ísl. sveitarfélaga hefur bersýnilega ekki fengið um það nægilega skýrar upplýsingar sem er auðvitað enn ein staðfestingin á því að frv. er illa undirbúið.
    Samband ísl. sveitarfélaga gerir athugasemdir við einar 20 greinar í frv. satt að segja samkvæmt þessu bréfi sem ég fékk frá þeim í morgun frá fundi sambandsins þann 30. sept. 1994 þannig að nú skulum við leggja þetta saman, hæstv. forseti. Í fyrsta lagi það að sérkennslan er í uppnámi og sérskólarnir. Í öðru lagi að skólastarf í dreifbýli er í uppnámi. Í þriðja lagi það að réttindi kennara eru óafgreidd og kjaramál og í fjórða lagi það að málin eru óuppgerð við sveitarfélögin. Þegar allt þetta liggur fyrir, þá er auðvitað eins eðlilegt og tvisvar tveir eru fjórir, hæstv. forseti, að menn ákveði að fresta því að afgreiða þetta mál. Það eru engar forsendur til þess eins og sakir standa. Hér er svo mikið eftir, hér er svo margt óljóst enn þá að það er ekki nokkur minnsti vegur að ljúka þessu frv. eins og það liggur fyrir á yfirstandandi þingi.
    Ég sé það, hæstv. forseti, að tími minn er senn á enda. Ég hafði skrifað hér niður hjá mér til viðbótar við það sem komið er allmargar spurningar, satt best að segja 41, sem ég hafði hugsað mér að bera fram við hæstv. menntmrh. Ég geri það væntanlega síðar í umræðunum ellegar þá í hv. menntmn. en hér eru spurningar sem snerta t.d. mjög stór, fagleg atriði. Dæmi: Það mál sem kom hér fram hjá hv. 2. þm. Vestf. varðandi það að í frv. er aftur og aftur gert ráð fyrir því að láta pólitískar skólanefndir vera að vasast í faglegum málefnum, innra starfi skóla. Það gengur ekki. Ég er andvígur því burt séð frá öllum öðrum þáttum þessa máls. Þetta kemur fyrir aftur og aftur. Ég hafði líka, hæstv. forseti, hugsað mér að ræða aðeins við hæstv. ráðherra, sem ég verð væntanlega að gera síðar, að það er bersýnilega að sumu leyti um aukna faglega miðstýringu að ræða í frv. Af hverju? Af því að fræðsluskrifstofurnar eru felldar út. Þær hafa haft tilteknu, faglegu mikilvægu hlutverki að gegna. Nú eru þær felldar út og öll úrskurðarmál, bæði stór og hin smæstu líka, jafnvel varðandi einstaka nemendur og hegðun þeirra eru inni á borðinu hjá hæstv. ráðherra. Þetta er auðvitað algerlega fráleitt og ég tel að ef menn ætla eitthvað að vinna með þetta frv. á þessu þingi, þá eigi auðvitað a.m.k. að breyta þessu. Í þriðja lagi varðandi einstök atriði, hæstv. forseti: Af hverju er verið að fella niður skólaráðin úr gildandi lögum? Það eru engin rök tínd til fyrir því, ekki nokkur rök. Skólaráðin hafa þann kost að þau eru samvinnuvettvangur foreldra og kennara, foreldra og starfsmanna skólans. Þau hafa ekki verið sett af stað, því miður. En af hverju eru þau í raun og veru felld niður? Það eru engin rök flutt fyrir því.
    Ótrúlegir hlutir eru í þessu skjali í fjórða lagi, eins og t.d. að það er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn semji um áfanga, fagstjórn o.fl. og, eins og hv. þm. Pétur Bjarnason nefndi áðan, líka um leiðsögn nýliða. Á sem sagt Kennaraháskóli Íslands að fara að semja um leiðsögn nýliða við einstakar sveitarstjórnir? Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. eins og það er.
    Síðan er hér gert ráð fyrir verulegum breytingum á kjarnagreinum, sem ég er ósammála, en hef ekki tíma til að rökstyðja. Síðan er þetta óskaplega prófafargan sem á að fara að innleiða hér í skólunum, sem er bæði dýrt og ómarkvisst og ekkert liggur fyrir um að skili betri árangri fyrir skólana í landinu frekar en annars staðar.
    Hæstv. forseti. Í þeim löndum þar sem grunnskólinn hefur verið fluttur til sveitarfélaganna, eins og í Finnlandi og í Danmörku, er reynslan því miður slæm. Hún er slæm. Það liggur fyrir, því miður. Þess vegna held ég a.m.k. að menn þurfi að sameinast um að vanda sig og að vanda sig tekur tíma, hæstv. forseti.