Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 16:27:37 (990)


[16:27]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að þegar ákvörðun um opnun framhaldsskólans var tekin á sínum tíma þá vantaði þrennt mjög mikilvægt í skólana. Í fyrsta lagi námsframboð við hæfi þeirra nemenda sem þá áttu að koma inn í skólana. Í öðru lagi vantaði námsgögn. Í þriðja lagi vantaði húsnæði. Það er því rétt hjá hv. þm. að það vantaði allt. Alþingi tók engu að síður þessa ákvörðun samhljóða að tillögu þáv. menntmrh. Birgis Ísleifs Gunnarssonar og því miður á ég ekki heiðurinn af því, eins og hefur margoft verið reynt að hengja á mig, þá á ég ekki heiðurinn af því að hafa tekið þessa ákvörðun sem ráðherra. Hins vegar stóð ég að því ásamt öðrum þingmönnum samhljóða í efri deild og í neðri deild Alþingis að ákveða þetta á sínum tíma. Ég fullyrði að enginn þingmaður utan þess sem hér stendur hreyfði efasemdum í ræðustól varðandi þetta ákvæði um að skólarnir væru nægilega vel búnir. Það segir kannski dálítið um málið og það hvað þingið var í raun og veru vanbúið til þess að taka þessa ákvörðun en því miður á ég ekki þann heiður sem hv. þm. gerði tilraun til að hengja á mig hér áðan. Ég þakka samt.