Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 16:29:04 (991)


[16:29]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. ætti að þakka fyrir það að hafa ekki þennan heiður á sínum herðum því þetta er auðvitað enginn heiður að standa þannig að verki eins og gert var í þinginu. Þegar hann var að telja upp það sem á vantaði þá gleymdi hann að nefna menntun kennara því það var auðvitað eitt sem við blasti að kennarar í framhaldsskólum voru á engan hátt undir það búnir að taka við þessum nemendum. Þessi vinnubrögð sýna tengslaleysið milli þess sem gerist hér innan þings og þess sem gerist í skólakerfinu. Ef ég man rétt þá var það nokkuð snögglega sem þessi ákvörðun var tekin, alla vega fylgdumst við illa með þessu í skólakerfinu, svo mikið er víst, og það var reynt að andmæla þessari breytingu en hún hefur haft mjög miklar afleiðingar. Ég vara við því að það sé staðið þannig að málum að það séu teknar stórar og viðamiklar ákvarðanir án þess að undirbúa þær og án þess að menn geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þær hafa.