Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 16:32:48 (994)

[16:32]
     Petrína Baldursdóttir :
    Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um grunnskóla. Með endurskoðun laga um grunn- og framhaldsskóla er leitast við að móta heildstæða stefnu í skólakerfinu og ég verð að segja það hér og hrósa hæstv. menntmrh. að mér finnst hann hafa leitað mjög mikið eftir því að taka tillit til þeirra umsagna sem hafa komið um þetta mál til þess að ná sem víðtækastri sátt milli aðila sem láta sig þessi mál varða í þjóðfélaginu.
    Á síðasta þingi voru samþykkt lög um leikskóla. Leitast var við að móta heildstæða stefnu með því að móta stefnu um skólagöngu skólabarnsins frá leikskólaaldri og fram til framhaldsskólaára og lít ég á framlagningu frumvarpa um grunn- og framhaldsskóla sem eðlilegt framhald af setningu nýrra leikskólalaga.
    Uppeldishlutverk grunnskóla og leikskóla er í mörgu líkt. Barn breytist ekki skyndilega úr leikskólabarni í grunnskólabarn. Barnið er heildstæð persóna sem þroskast ört á þessu aldursskeiði. Mikilvægt er því að eðlileg tengsl skapist milli leikskólans og grunnskólans. Skörp skil milli þessara skólastiga eru í miklu ósamræmi við þróunar- og vaxtarferil barnsins.
    Í 10. gr. nýsamþykktra laga um leikskóla, nr. 78/1994, er kveðið á um að skólaskrifstofur skuli stuðla að eðlilegum tengslum grunnskóla og leikskóla. Mér finnst vanta skýrari ákvæði inn í grunnskólafrv. þar sem kveðið er á um samstarf leikskóla og grunnskóla. Það kemur að vísu fram í 42. gr. samstarf um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu en það er eiginlega það eina sem ég sé í þessu frv. um samstarf leikskóla og grunnskóla.
    Í 35. gr. er t.d. sagt: ,,Skólaskylda barns hefst við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára. Foreldrar eða forráðamenn barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar en segir í lögum þessum um skólaskyldu sex ára barna. Skólastjóri getur veitt slíka heimild að fenginni umsögn um sérfræðiþjónustu.``
    Það kom á síðari stigum inn þetta orð ,,að fenginni umsögn sérfræðiþjónustu``. Ég hefði viljað kveða skýrar á um að hér kæmi inn í ,,að fengnum ummælum leikskólastjóra.`` Það er að mínu mati mjög mikilvægt frá hagsmunum barnsins að skólastjóri þurfi að hafa samráð við leikskólastjóra ef barnið hefur gengið í leikskóla og ég fullyrði það að 90--95% barna í þessu þjóðfélagi ganga eða hafa hafið leikskólagöngu.
    Meginmarkmið frv. er flutningur alls rekstur grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og það er náttúrlega flestallt komið til sveitarfélaga varðandi rekstur grunnskóla, allir þættir nema laun kennara. Ég er sammála því viðhorfi sem kemur fram frá þeim aðilum sem talað hafa fyrir því að grunnskólinn verði alfarið í höndum sveitarfélagsins. Það er augljóst að hagræði er að því að rekstur grunnskóla verði fullkomlega í höndum eins aðila. Til að gera skóla að skilvirkum, sjálfstæðum stofnunum sem bjóða nemendum upp á námsefni og kennslu við hæfi færum við ábyrgð og vald til að taka ákvarðanir eins nálægt vettvangi og frekast er unnt. Þetta finnst mér vera stórt, göfugt og mikið markmið að skólum og fólkinu sem um þessi mál á að fjalla sé gefið tækifæri til þess, að þessi mál séu færð eins nálægt og hægt er.
    Í því frv. sem hér er til umræðu er leitast við að færa vald nærri vettvangi og auka valdreifingu og það er mjög gott markmið. Slík valddreifing ætti í raun og veru að einfalda stjórnun. Í frv. er leitast við að innleiða nýja stjórnunarhætti með t.d. gæðastjórnun og það kemur fram hérna í 49. gr. frv. Þar stendur: ,,Sérhver grunnskóli innleiði aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans.`` Þetta er að mínu mati mjög stórt og gott skref. Það er m.a. gert með því að auka mat á skólastarfi og opinbert eftirlit. Það eru margir sammála því að opna þarf grunnskólann enn frekar fyrir samfélaginu. Það þarf að eyða tortryggni á milli heimila og skóla. Það er allt of algengt að foreldrar láti í ljós það álit sitt að þeir viti naumast hvað barnið sé að gera í skólanum. Það er ekki hægt að kenna neinum um af hverju svona viðhorf ríkja í samfélaginu til skólans. Það eru kannski leifar af þeirri hugsun sem ríkti einu sinni í viðhorfi til skóla. Foreldrum fannst þeir ekki hafa leyfi til að skipta sér af því hvað þar færi fram. Kennarar voru settir á stall, það voru nefnilega þeir sem höfðu þekkinguna. Með opnari umræðu í þjóðfélaginu um skólamál og meiri kröfur til skólans hafa foreldrar verið að átta sig á því að þeir gætu haft áhrif á skólastarfið.
    Í því frv. sem hér um ræðir er aukin áhersla á mat á skólastarfi og eftirlit með framkvæmdum skólahalds og það kemur m.a. fram í 9. gr. um eftirlitsskyldu menntmrn., ábyrgð, söfnun og dreifingu upplýsinga um skólahald. Það kemur fram í 10. gr. um upplýsingaskyldu sveitarfélaga gagnvart menntmrn. Það kemur fram í 12. gr. Skólanefnd fylgist með framkvæmd náms og kennslu í umboði sveitarstjórna. Það kemur fram í 15. gr., 16. gr., 31., 42., 46., 48., 49. og 51.
    Í 12. gr. kemur fram aukið vægi skólanefnda við stjórnun skólans. Það er vissulega í rökréttu samhengi við þá ákvörðun að færa rekstur grunnskólans alfarið yfir til sveitarfélaga. Skólanefnd er falið að fara með þau mál er varða grunnskóla sem sveitarstjórn felur henni. Því leggst sú ábyrgð á hendur sveitarfélaga eða þeirra stjórnmálaflokka sem velja fulltrúa sína í skólanefndir að vanda vel til verka með val sinna fulltrúa og ég get alveg tekið undir að það getur orkað tvímælis þó að tilgangurinn sé mjög góður og þetta sé markmið sem ég get mjög fallist á, þá skil ég voðalega vel t.d. áhyggjur þeirra manna sem velta fyrir sér auknu vægi þessara skólanefnda. Mér finnst það mjög mikið atriði af því að þetta eru pólitískar nefndir sem eru fulltrúar flokka, þá sé það alveg ljóst að það er sett mjög mikil ábyrgð á fulltrúa stjórnmálaflokka, að stjórnmálaflokkar velji og vandi vel val sitt á þeim fulltrúum sem þeir vilja setja inn í þessar skólanefndir og þeir geri sér grein fyrir þessu aukna vægi.
    Fulltrúar kennara, skólastjóra og foreldra eiga rétt til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétt. Ég get alveg tekið undir það sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði. Ég hefði viljað sjá kannski gengið aðeins lengra í þá átt að þessir aðilar fengju atkvæðisrétt í þessum skólanefndum. Í skólanefndum gefst t.d. foreldrum aukinn möguleiki á því að fylgjast með innra starfi skólans og koma skoðunum sínum formlega á framfæri við stjórnendur skóla.
    Í 16. gr. er einnig kveðið á um að við hvern grunnskóla skuli starfa foreldraráð. Foreldrum gefst með því tækifæri til að hafa áhrif á allar áætlanir skólans. Þessi þróun skólamála er að mínu mati mjög jákvæð og verði vel haldið utan um þetta atriði getur það verið stórkostlegt tækifæri fyrir foreldra og grunnskólann til að hefja opinskáa umræðu um skólamál og koma í veg fyrir það að tortryggni skapist á milli þessara aðila, þ.e. heimila og skóla.
    Í 3. gr. er kveðið á um einsetinn skóla og það er vissulega gott markmið, markmið sem er nauðsynlegt fyrir íslenskt þjóðfélag að verði framfylgt. Í gildandi lögum er kveðið á um að allir skólar skuli vera einsetnir. Því miður hefur frá gildistöku þeirra laga lítið orðið um einsetningu skóla nema kannski á nokkrum stöðum í dreifbýlinu. Krafan í þjóðfélaginu verður alltaf háværari og háværari um að ríki og sveitarfélög framfylgi þessum markmiðum. Íslenskt þjóðfélag hefur breyst það mikið undanfarin ár eða áratugi að miklu máli er farið að skipta foreldra og börn að þessum markmiðum sé náð, þ.e. einsetinn skóli og samfelldur skóladagur. Og það er mjög athygli vert að þegar menn ræða um einsetinn skóla, samfelldan skóladag og heilsdagsskóla, þá vill svolítið brenna við að menn rugli saman þessum hugtökum. Menn halda að einsetinn skóli þýði samfelldur skóladagur. Menn halda að heilsdags skóli sé sama og einsetinn skóli en þetta þarf ekkert alltaf að fara saman. Það er mjög mikilvægt að menn sem tala um þessi mál hafi þekkingu á því og viti um hvað verið er að tala þegar við erum að tala um samfelldan skóladag í einsetnum skóla.
    Hér á árum áður þegar lítill hluti kvenna var úti á vinnumarkaðnum skipti þetta litlu máli þar sem börn voru hluta af deginum í skóla en gátu síðan gengið að því með öryggi og vissu að annað foreldri sitt væri heima. Þegar á milli 80--90% kvenna eru farnar að taka þátt í atvinnulífinu lítur dæmið allt öðruvísi út. Það er nauðsynlegt bæði fyrir börnin og foreldra að börn á grunnskólaaldri eigi öruggan samastað á daginn. Þetta markmið verður að nást og það á allra næstu árum. Það er tekið fram í frv. að þessu markmiði um einsetinn skóla eigi að vera búið að ná árið 2001. Ég vona svo sannarlega að það gerist og það yrði þá mikil framför í þessu þjóðfélagi.

    Ég vona að með tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaga muni það gerast að sveitarfélög leggi allan sinn metnað í að framfylgja þessu göfuga markmiði um einsetninguna. Mörg sveitarfélög hafa á síðari árum sýnt metnað í þá átt að hefja byggingu skólahúsnæðis svo einsetja megi skólana. Það var mjög athyglivert sl. vor þegar voru sveitarstjórnarkosningar hve mikla áherslu frambjóðendur allra flokka lögðu á að framfylgja því markmiði að einsetja skóla, t.d. með loforðum um byggingu skólahúsnæðis og samfelldum skóladegi. Það er hins vegar umhugsunarvert af hverju skólamál hafa verið svo lítið forgangsmál í þjóðfélaginu almennt hjá stjórnmálamönnum með einstaka undantekningu þó.
    Umræða um skólamál í víðasta skilningi þess orðs hefur rokið upp rétt fyrir kosningar þegar á að fara að kjósa til Alþingis eða til sveitarstjórna. Síðan hefur oftar en ekki orðið minna um efndir í umbótaátt í þessum málaflokkum. Mesta auðlindin á Íslandi er fólgin í fólkinu sjálfu. Það hlýtur að vera hluti mannréttinda að einstaklingur geti þroskast og notið menntunar á eigin forsendum og auðvitað þarf skólakerfið og þeir sem stjórna forgangsröðun verkefna að taka mið af því. Góður skóli með hæfu starfsfólki og breytt hlutverk skólans kallar á breytta forgangsröðun á fjárveitingum í samfélaginu og það er alveg tími til þess kominn að menn fari virkilega að sýna það í verki að þeir láti sig þessi mál varða. Ég hef eins og örugglega flestir aðrir orðið vör við það að það hefur verið núna á sl. ári mjög mikil umræða um skólamál í þjóðfélaginu og það er alls staðar hægt að merkja aukna kröfu frá fólki að það verði virkilega farið að taka á þessum málum og menn meini það sem þeir segja þegar þeir eru að setja svona lög.
    Aðgangur að öllum skólastigum á að vera öllum þegnum opinn án tillits til búsetu, fötlunar eða efnahags. Þær nýjungar sem m.a. eru í frv. um kjarnagreinar og koma m.a. fram í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu og skilgreiningum á þeim eru af hinu góða að mínu mati, það er leitast við að setja mælistiku á það að grunnskólanemendur öðlist ákveðna grundvallarþekkingu á þeim fögum og öðlist færni í þeim á ákveðnum aldursstigum. Það er mjög gott að setja ákveðna mælistiku á þá kunnáttu og færni sem nemendur eiga að hafa á valdi sínu á ákveðnum aldursstigum. Það ætti að vera til þess að auka kröfur bæði til kennara og nemenda. Það hefur komið fram í umræðum í þjóðfélaginu að menn óttuðust að ákvæði um þjónustu við nemendur með sérþarfir væru mjög óljósar í þessu frv. en það kemur m.a. fram 37. gr. Þar er kveðið skýrt á um það að þeir nemendur sem þurfa á aðstoð að halda vegna sértækra námsörðugleika eiga rétt á stuðningi í námi. Það er mjög mikilvægt atriði að meginstefnan skuli vera sú að kennsla fari fram í heimaskóla, t.d. fyrir fatlaða nemendur, og þar sé þeim boðið upp á úrræði við þeirra hæfi. En það er náttúrlega með þetta eins og allt annað, það er ekki nóg að setja svona göfug markmið á prent. Það verður að standa við þessi orð og það verður náttúrlega að segjast eins og er að þeim göfugu markmiðum, sem sett voru í grunnskólalögunum árið 1974 um að allir nemendur ættu þann rétt, hefur ekki verið framfylgt, að skapa skólum skilyrði til þess að uppfylla þessi ákvæði, t.d. varðandi sérkennslu. Það hefur töluvert mikið vantað á það. Skólar hafa mjög oft verið í þeirri aðstöðu að þeir hafa ekki getað sinnt þessari lögboðnu kennslu t.d. fyrir fatlaða nemendur.
    Það er alveg ljóst að með einsetningu grunnskóla og auknum kröfum þjóðfélagsins til grunnskólans verður að fara fram endurskoðun á kjörum kennara. Þá þarf breyttar skilgreiningar á starfi grunnskólakennarans og það er mín persónulga skoðun að kjör kennara séu blettur á þessu þjóðfélagi. Kennarar hafa hvað eftir annað reynt að fá fram kjarabætur en þeim hefur lítið orðið ágengt í þeim málum og maður spyr sig oft hvort menn átti sig á því hvað þeir í raun og veru eru að gera með þessu. Það er mín skoðun að mjög mikil orka kennara hafi farið í það undanfarinn áratug að berjast fyrir bættum launakjörum sínum og það hafi kannski oft og tíðum bitnað á umræðum um innra starf skólans. Og menn verða bara að horfa á það að launakjör kennara eru orðin þannig að þetta er í mörgum tilfellum bara orðið hlutastarf. Mér finnst það mjög mikið áhyggjuefni hversu fáir karlkyns kennarar eru og launakjörin ýta ekki undir það að kennarar fari í það að kenna, t.d. karlkennarar sem eru kannski að vinna fyrir heimili. Kennslan verður ekkert annað en aukastarf hjá þeim. Það væri gaman að vita og ég er alveg viss um það að stór hluti af karlkyns kennurum er með aukavinnu, aukastarf sem þeir sinna meðfram kennslunni. Þetta hlýtur náttúrlega að bitna á gæðum kennslunnar, það gefur alveg auga leið.
    Við getum fjallað um þessi lög og önnur lög varðandi þessi málefni en ef menn ætla endalaust að stinga höfðinu í sandinn með að það þurfi ekki að leiðrétta kjör kennara þá held ég að okkur miði ekki nógu vel áfram með þessi göfugu markmið. Við verðum bara að horfast í augu við það, til að fá góðan skóla verðum við að hafa hæfa kennara og það á líka að gera auknar kröfur til kennara. En það verður líka að fylgja samræming í auknum kröfum og einhverjum leiðréttingum á þeim launakjörum sem þeir hafa. Vissulega veit ég það að umræða um þetta grunnskólafrv. er ekki umræða um kjaramál kennara. En óneitanlega tengjast kjaramál kennara inn í umræðu um grunnskólamál, það gefur auga leið að það er samhengi þarna á milli.
    Það er von mín að með flutningi grunnskóla til sveitarfélaga gefist kennurum tækifæri til að fá leiðréttingu á kjörum sínum. Það er vissulega tími til kominn að það gerist.
    Það væri óskandi að umræðan nú um málefni grunnskóla og framhaldsskóla yki skilning almennt í þjóðfélaginu á því hvað þetta eru mikilvæg mál og það sé mikilvægt að það sé vel staðið að þessum málum í þjóðfélaginu og sem víðtækust sátt náist um þau. Heilsdags skólastefna á öllum skólastigum ásamt skilningi stjórnvalda á þessum mikilvæga málaflokki er stór hlutur. Það er tími til kominn að menntamál séu sett í öndvegi í þjóðfélaginu.