Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 16:54:26 (995)


[16:54]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér í fyrsta lagi að taka undir það sem hv. þm. sagði síðast varðandi spurninguna um forgangsröðun í þjóðfélaginu. Vandinn hefur verið sá að menn hafa ekki verið tilbúnir til að taka neinn einstakan málaflokk út úr og raða honum framar en aðrir málaflokkar eru. Vandinn hefur verið sá að menn hafa litið á t.d. menntamál eins og hverja aðra mér liggur við að segja félagslega þjónustu og ekki fengist til að horfa á menntamál sem hluta af hinum almennu framfaramálum í þjóðfélaginu og undirstöðu lífskjara í landinu eins og öðrum til lengri tíma. Og ef við skoðum t.d. það sem aðrar þjóðir eru að gera, segjum t.d. Austur-Asíuþjóðir sem nú eru að sýna hagvöxt upp á 5--10% á ári, hvað er að gerast þar? Veruleikinn þar er þannig að þar eru menntamál alls staðar í forgangsröð með virkri samvinnu skóla og atvinnulífs. Þess vegna er það alveg rétt sem hv. þm. segir að hér er um að ræða algert forgangsatriði og ef þessi umræða gæti orðið til þess að menn næðu samstöðu um að raða skólanum í alvöru framar, og segðu það fullum fetum núna í aðdraganda kosninganna, væri stórkostlegur sigur unninn fyrir uppeldisstarf í landinu.
    Ég kvaddi mér hljóðs í andsvari, hæstv. forseti vegna þess að ég tel að ákvæði 37. gr. eins og þau eru um sérkennsluna séu ekki nægilega skýr og ég bendi á lokamálsgrein greinargerðarinnar þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Kveðið er á um að menntmrh. setji reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd þessarar greinar, svo sem um rétt nemenda til sérstaks stuðnings og í kennslu og þjónustu við þessa nemendur.``
    Mér finnst í raun og veru að það gagni ekki að ákvæði af þessu tagi séu hugsanleg reglugerðarákvæði. Ég tel að það þurfi að stafa þau mjög skýrt og skilmerkilega í lögunum sjálfum.