Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 17:28:28 (997)


[17:28]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Hverju þjóðfélagi er nauðsyn að mennta þegna sína vel enda er góð menntun í senn uppspretta framfara og breytinga og hornsteinn þjóðlegrar menningar. Mikilvægt er að treysta menntun og skólastarf þannig að saman fari áhersla á þekkingu og frumkvæði til nýsköpunar og virðing fyrir hefðbundinni menningu þjóðarinnar. Menntun og skólastarf í landinu þarf einnig að standast samanburð við það sem best þekkist á erlendri grund á tímum vaxandi alþjóðlegra samskipta.
    Farsælt skólastarf er flókið samspil margra þátta. Undirstaða þess er góð skólalöggjöf og öflug kennaramenntun.
    Við mótun menntastefnu ber að taka mið af reynslu af skólastarfi og niðurstöðum skólarannsókna um mikilvægi ýmissa þátta skólastarfs.
    Mikilvægt er að skólastarf sé í sífelldri endurskoðun og skólastefna hvers tíma sé grundvölluð á þekkingu og reynslu.
    Stór hluti opinberra útgjalda rennur til menntakerfisins enda fer þeim verkefnum sífellt fjölgandi sem því er ætlað að sinna og kröfur þjóðfélagsins um skilvirkni og árangur í skólakerfinu eru líka sífellt að aukast. Menntun er ekki lengur forréttindi fárra heldur er góð menntun fyrir alla undirstaða nútímasamfélags. Í vestrænum samfélögum er algengt að um fimmtungur þjóðar starfi við skólakerfið annaðhvort sem nemendur eða kennarar. Hér á Íslandi lætur nærri að þetta hlutfall sé um fjórðungur þjóðarinnar.
    Íslenskt þjóðfélag hefur breyst mjög ört á síðustu áratugum úr fábrotnu bændasamfélagi í flókið nútímasamfélag sem gerir sífellt meiri kröfur um fjölbreytta menntun og hæfni þegnanna. Skólar þurfa að koma til móts við þarfir ólíkra nemenda, bæði hvað áhuga og námsgetu varðar og á fjölbreyttari hátt en áður. Þessar breyttu forsendur hafa gjörbreytt þeim kröfum sem gerðar eru til skólastarfs.

    Á seinni árum hefur verið töluvert rætt um valddreifingu og ábyrgðarskyldu í opinberri þjónustu. Talið er að opinber þjónusta verði skilvirkari þegar þeir sem hennar njóta eru í nánum tengslum við þá sem ábyrgðina bera. Í menntamálum þýðir slík valddreifing að verkefni eru færð frá ráðuneyti til sveitarstjórna, skóla, rannsóknarstofnana og atvinnulífs. Nauðsynlegt er að stórefla mat á skólastarfi og opinbert eftirlit til að unnt sé að færa verkefni úr ráðuneytinu nær starfsvettvangi. Einungis þannig verður unnt að tryggja að lögboðinni fræðsluskyldu sé framfylgt og allir nemendur sitji við sama borð og fái kennslu við hæfi. Skólastefna þarf að fela í sér heildarsýn þannig að ákvarðanir um framkvæmdir og þróunarverkefni taki mið af yfirlýstum áherslum stjórnvalda í skólamálum.
    Tillögur nefndar um mótun menntastefnu byggja á reynslu af skólastarfi hér á landi og taka mið af þróun skólamála í nágrannalöndum. Í ýmsum atriðum eru lagðar til veigamiklar áherslubreytingar frá núverandi fyrirkomulagi. Í öðrum staðfestir nefndin þróun í skólamálaumræðu undanfarinna ára. Meginmarkmið skólastarfsins er að grunn- og framhaldsskólar búi öllum nemendum ákjósanleg skilyrði til náms og þroska, en samtímis er brýnt að bæta árangur skólastarfsins. Það ber að stefna að aukinni valddreifingu í skólakerfinu, bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Ákvörðunartaka verði færð sem næst vettvangi og ábyrgðarskylda sveitarfélaga og skóla aukin. Samtímis er lögð áhersla á námsskrá með skýrum markmiðum og samræmt mat á námsárangri nemenda á vissum stigum námsferilsins svo að fræðsluyfirvöld, skólafólk og almenningur fái stöðugt vitneskju um það hvort framkvæmd skólastarfsins sé í samræmi við gildandi skólastefnu. Loks er lögð áhersla á reglubundið eftirlit með skólastarfi, einkum sjálfsmat stofnana og gæðastjórnun og aukna upplýsingamiðlun til almennings um árangur skólastarfs.
    Meginbreytingar samkvæmt grunnskólafrv. eru að meginefni tvíþættar. Annars vegar er tilfærsla grunnskólans til sveitarfélaga og skipulagsbreytingar sem af henni leiða sem lúta þá m.a. að stjórnun, stoðþjónustu grunnskólans, starfsmannahaldi og mörgu fleira. Hins vegar eru umbætur í skólastarfi þar sem höfuðáhersla er lögð á að efla skólastarfið og ná betri árangri í námi og kennslu. Helstar þeirra eru að það er hert á einsetningu skólanna, skólatíminn er lengdur á þann veg að kennsludögum er fjölgað úr 144--155 í 172 og daglegur skólatími er lengdur. Samræmt námsmat er aukið, hver skóli skal gefa út skólanámsskrá og taka upp aðferðir til að meta sitt innra starf, skilgreindar verða kjarnagreinar í aðalnámsskrá grunnskólans og áhrif foreldra eru aukin með tilkomu foreldraráða við hvern skóla.
    Ég vík nú nánar að tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaga. Sveitarfélög eru annar hluti hinnar tvískiptu opinberu stjórnsýslu. Tilvist þeirra tryggir valddreifingu í samfélaginu og eru þau því einn af hornsteinum lýðræðisins. Mikilvægt er að sveitarfélögin hafi völd og ábyrgð annars er hætta á að þau verði ekki annað en afgreiðslustofnanir fyrir ríkisvaldið. Sökum nálægðar hafa þau mun betri þekkingu á framkvæmdaþörfum og viðhorfum íbúa og eru því í betri aðstöðu til að annast þau verkefni sem mikilvægust þykja á hverjum stað.
    Samrekstur ríkis og sveitarfélaga er óæskilegur. Annars vegar verður ákvörðunartaka og allt sem viðkemur framkvæmd og stjórnun þunglamaleg og seinvirk. Hins vegar er líka hætt við að fjármálavald og fjármagnsnýting verði léleg þegar fjármálavald og framkvæmdarvald skiptist á tvær hendur. Krafan um aukið forræði sveitarfélaga lýtur að því að fela þeim fleiri verkefni og auka þannig valddreifingu í íslenskri stjórnsýslu.
    Með nýjum lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem tóku gildi í janúar 1990 urðu ýmsar breytingar á rekstrarþáttum hjá ríki og sveitarfélögum. Sveitarfélögunum voru falin aukin verkefni á sviði skólamála, þ.e. allur rekstrarkostnaður grunnskóla fyrir utan kennaralaun, bygging skólahúsnæðis og rekstur og uppbygging tónlistarskólanna. Við setningu þessara laga létu ýmsir í ljós það álit sitt að sveitarstjórnum væri illa treystandi fyrir þessum málum. Þeim væri annara um að verja fjármunum í aðrar framkvæmdir en til skólamála. Sumir töldu jafnvel að grunnskólinn ætti alfarið að vera á hendi ríkisvaldsins til þess að tryggja sem best jafnan rétt barna til náms hvar á landi sem þau búa.
    Sú reynsla sem þegar er fengin af nýju verkaskiptingunni á sviði skólamála er góð. Sveitarfélögin hafa fyllilega staðið við sitt og raunar gott betur og má benda á það að mörg sveitarfélög bæta kjör kennara með ódýru húsnæði eða húsaleigustyrkjum og veita þeim launauppbót með beinum launagreiðslum. Sveitarfélögin leggja því þegar meira af mörkum til grunnskólahalds en þeim er ætlað í lögum. Þessi staðreynd ásamt því að grunnskólinn er staðbundið verkefni hvetur til þess að taka af skarið og fela sveitarfélögunum þetta verkefni að fullu.
    Ég vil einnig geta þess að flutningur tónlistarskólans til sveitarfélaganna hefur tekist vel. Ég var á fundi á dögunum þar sem einn af tónlistarskólastjórum þessa lands greindi frá því að hann hefði verið á móti þessari breytingu á sínum tíma og barist gegn henni, en hann sagði: Guði sé lof að það var ekki hlustað á okkur því að ég er miklu ánægðari með þetta fyrirkomulag sem nú er.
    Full ábyrgð sveitarfélaga á grunnskólanum krefst þess að þeim verði sett markmið varðandi inntak skólastarfsins. Von er til þess að með aukinni ábyrgð sveitarfélaga á starfi skólanna aukist aðhald af hálfu foreldra þar eð tengsl foreldra og stjórnenda yrðu beinni Mikið vinnuálag í íslensku samfélagi gerir þann stutta skóladag sem nú viðgengst óviðunandi. Daglegur skólatími hér á landi er skemmri en í nágrannalöndunum hvort sem litið er til Norðurlandanna, Norður-Evrópulanda eða Bandaríkjanna. Árlegur skólatími er styttri og hver þekkir ekki óvissuna um stundaskrá barna sinna á hverju hausti og hvernig megi takast að samrýma hana vinnutíma foreldra og svo mætti lengi telja. Fjölmörg börn á grunnskólaaldri eru

ein eða í umsjá eldri systkina mikinn hluta dagsins. Mikilvægt er að stutt sé við fjölskyldufólk í þessari erfiðu stöðu og því ber að leggja áherslu á að yngri börn njóti lengri kennslutíma daglega og að kostur gefist á lengri viðveru í skólum fyrir nemendur ásamt lengingu árlegs skólatíma.
    Á vegum sveitarfélaga eru í samvinnu við ýmsa aðila margs konar tilboð á sviði félags- og tómstundamála fyrir börn og unglinga. Þau mætti oft fella að skólastarfi grunnskólans og þar með nýta betur fjármagn, húsnæði og búnað sem til þessa er varið. Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga ber þeim að veita íbúum sem eiga við félagslega erfiðleika að etja margháttaða þjónustu. Í mörgum sveitarfélögum eru félagsmálastofnanir þar sem starfar fagfólk, svo sem félagsráðgjafar og sálfræðingar. Verkefni eins og sálfræðiþjónusta skóla er á sama sviði og þjónusta félagsmálastofnana. Ef ábyrgð ofangreindra þátta heyrir undir sömu aðila skapast betri möguleikar til samhæfingar á þjónustu sveitarfélagsins. Raunar má ætla að ýmsar úrbætur á sviði skólamála, svo sem einsetning skóla, skólamáltíðir og lenging skóladags yngri barna nái fyrr fram að ganga í höndum sveitarfélaga en ríkis þar sem sumum þessum markmiðum er þegar náð í ýmsum skólum að frumkvæði sveitarstjórna. Enginn þekkir betur þörfina á slíkri þjónustu en það fólk sem sinnir málefnum hvers sveitarfélags og það er líka metnaðarfyllst að sama skapi um að veita sem besta hugsanlega þjónustu og kostur er á hverjum tíma.
    Við tilfærslu grunnskóla til sveitarfélaga verður að tryggja þeim tekjur til að standa undir kostnaði og jafna kostnað milli þeirra. Í því skyni þarf að endurskoða lög um tekjustofna þeirra. Árlegur kostnaður ríkisins við grunnskóla er yfir 5 milljarðar kr. Útgjöld ríkisins í dag geta þó ekki orðið nema til viðmiðunar. Meta verður verkefnið í heild með tilliti til þeirra krafna sem felast í nýrri lagasetningu um skólastigið.
    Ég vona að þetta svari spurningu hv. 12. þm. Reykv. en það hefur aldrei verið neinn efi í mínum huga um að það verður að meta verkefnið með tilliti til nýrrar lagasetningar. ( JóhS: Til nýrrar lagasetningar.) Já, til nýrrar lagasetningar, ég endurtek það.
    Einn viðkvæmasti þáttur tilfærslunnar eru atriði er varða kjararéttindi kennara sem ekki verða lengur ríkisstarfsmenn heldur starfsmenn sveitarfélaga og semja við þau um launakjör. Á vegum menntmrn. hafa starfað tveir starfshópar. Annar til að meta kostnað af tilfærslu grunnskólans til sveitarfélaga og hvernig sveitarfélögunum verði tryggðar auknar tekjur til reksturs þess hluta grunnskólans sem enn er á höndum ríkisins. Hinum starfshópnum var falið að gera tillögur um hvernig fara skuli með áunnin starfstengd réttindi kennara hjá ríkinu, þar á meðal lífeyrisréttindi, þegar rekstur grunnskóla fer alfarið til sveitarfélaga. Þeim hópi var einnig ætlað að móta tillögur um tilhögun kjarasamninga við tilfærsluna.
    Eins og fram kom hjá hæstv. menntmrh. hafa báðir hóparnir skilað skýrslum sem koma að góðu gagni í þeirri vinnu sem óunnin er til að tryggja að tilfærslan gangi eðlilega og áfallalaust fyrir sig. Það kom fram í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur áðan að svokölluð sveitarfélaganefnd hefði lagt áherslu á að sameining sveitarfélaga væri forsenda fyrir flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna. Ég vil að það komi fram hér af minni hálfu að nefnd um mótun menntastefnu gerði ráð fyrir því að hægt væri að flytja þetta verkefni til sveitarfélaganna án þess að um stórkostlega sameiningu væri að ræða á undan. Hins vegar ber að geta þess að sameining auðveldar að sjálfsögðu að færa verkefnið yfir.
    Hún lýsti líka áhyggjum af að lítil sveitarfélög mundu eiga í erfiðleikum með að taka við verkefninu. Ég held að of mikið hafi verið gert úr vanda litlu sveitarfélaganna. Mörg þeirra eru búin að byggja mjög vel upp. Þau eru tilbúin til þess að taka við skólanum, þau eru með skólann sinn einsetinn og mjög góða aðstöðu. Ég hef kannski meiri áhyggjur af stærri sveitarfélögunum sem er alveg ljóst að þurfa að fara í stórkostlegar byggingarframkvæmdir. Hvað varðar minni sveitarfélögin þá tel ég að það eigi að vera hægt að koma til móts við þau í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og tryggja þannig að þau ráði við þetta verkefni.
    Samkvæmt frv. fer menntmrh. með yfirstjórn grunnskóla og fylgist með því að fylgt sé þeirri stefnumörkun um nám og kennslu sem lög kveða á um. Menntmrh. ber ábyrgð á að sett sé aðalnámsskrá fyrir grunnskóla og reglugerðir um skólahald á grundvelli gildandi laga. Hann ber einnig ábyrgð á eftirliti með skólastarfi, öflun og úrvinnslu upplýsinga um starf í grunnskólum, svo og upplýsingamiðlun til foreldra og almennings um skólastarf og árangur þess. Menntmrh. leggur skólum til samræmd próf og ber ábyrgð á að fram fari mat á skólum og skólastarfi. Hann er einnig úrskurðaraðili í einstökum atriðum að því er varðar skólahald.
    Ég fjalla þá nánar um ýmsa aðra þætti frv. Það er lögð áhersla á samstarf heimila og skóla og í 16. gr. frv. er kveðið á um að við hvern skóla skuli starfa foreldraráð sem skipað er þremur fulltrúum foreldra barna í skólanum. Á þann hátt opnast foreldrum nýir möguleikar til að fylgjast með og hafa áhrif á skólastarfið. Verksvið foreldraráðs verður að veita umsögn um skólanámsskrá og aðrar starfsáætlanir skólans og fylgjast með að þeim sé framfylgt.
    Mér fannst það mjög athyglisvert sem kom fram í máli tveggja þingmanna hér á undan, hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og hv. þm. Petrínu Baldursdóttur að þeim þótti báðum að það væri fýsilegur kostur að foreldrar ættu beina aðild að skólanefnd. Ég vil að það komi fram af minni hálfu að ég er sömu skoðunar og er tilbúin til að skoða þetta mjög gaumgæfilega í menntmn. Það er rétt að geta þess að það var einn af kostunum sem nefnd um mótun menntastefnu skoðaði í sinni vinnu. En niðurstaðan af þeirri skoðun okkar var reyndar ekki sú að setja þetta inn í frv.

    Gott samstarf við heimilin er forsenda þess að skólar geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Dyggur stuðningur við börnin af hálfu aðstandenda skiptir sköpum fyrir skólann í fræðslustarfi hans. Þegar heimili og skóli leggjast á eitt og mynda trausta umgjörð um menntun hvers einstaklings má búast við betri líðan, auknu öryggi og bættum námsárangri nemenda.
    Hert er á einsetningu skóla með samfelldum skóladegi um allt land til þess að öll börn geti hafið nám að morgni. Slíkt felur í sér að allir grunnskólanemendur geti verið við nám á sama tíma og að vinnudagur þeirra sé skipulagður í samfellu frá því kl. 8 eða 9 að morgni og fram yfir hádegi.
    Með samfelldum vinnudegi og reglubundnum starfstíma nemenda í einsetnum skóla skapast meira samhengi í skólastarfi, og festa eykst í lífi grunnskólabarna og fjölskyldna þeirra. Í 27. grein frumvarpsins er heimildarákvæði um að sveitarstjórnir geti boðið nemendum lengda viðveru utan daglegs skólatíma. Þar er verið að lögfesta framkvæmd sem nokkur sveitarfélög hafa komið á að eigin frumkvæði. Brýnt er að slík þjónusta verði þróuð í náinni samvinnu við foreldra.
    Samkvæmt frumvarpinu er árlegur skólatími grunn-og framhaldsskóla lengdur og áhersla er lögð á að starfstími skóla verði betur nýttur í skólastarf með nemendum. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi fá grunnskólanemar í níu mánaða skólum á bilinu 144--155 kennsludaga árlega. Frumvarpið gerir ráð fyrir að kennsludagar verði 172 sem er mikil breyting.
    Í 30. gr. frumvarpsins sem fjallar um aðalnámsskrá er ákvæði um að þar séu skilgreindar kjarnagreinar. Kjarnagreinar eru þær námsgreinar sem öðrum skyldunámsgreinum fremur eru taldar hafa afgerandi þýðingu fyrir framhaldsnám, atvinnu og almenna menntun. Í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu er lagt til að kjarnagreinar verði íslenska, stærðfræði og enska.
    Við höfum þegar hér í þinginu fjallað nokkuð um stöðu dönskunnar og ég vil af þessu tilefni endurtaka og ítreka að gert er ráð fyrir því að danskan verði áfram skyldunámsgrein og tímafjöldi sem varið er til dönsku sé sá sami í grunnskólanum hér eftir sem hingað til. Þar að auki hefur verið lögð sérstök áhersla á það að menntaðir fagkennarar í dönsku sinni dönskukennslu í grunnskólanum.
    Í 31. gr. frumvarpsins er kveðið á um að hver skóli skuli gefa út skólanámsskrá. Hún er rökstudd áætlun um skólastarfið og unnin af starfsfólki skólans undir faglegri forustu skólastjóra. Skólanámsskrá skal borin undir foreldraráð og hljóta samþykki skólanefndar. Önnur nýjung sem einnig lýtur að því að styrkja fagmennsku í skólastarfi og efla innra starf skóla er í 49. gr. þar sem kveðið er á um að sérhver grunnskóli taki upp aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans.
    Samræmdum prófum í grunnskóla verður fjölgað sbr. 46. gr. og prófað oftar en nú er til að kanna hvort nemandinn hafi náð þeim markmiðum sem tilgreind eru í aðalnámsskrá grunnskóla fyrir tiltekið aldursstig. Með prófum oftar á námsferli nemenda verður hægt að grípa fyrr inn með viðeigandi stuðningsaðgerðum ef nauðsyn ber til. Í 4. bekk grunnskóla verður prófað í grunnþáttum í íslensku og stærðfræði og í 7. bekk verður prófað í tilteknum þáttum íslensku, stærðfræði og ensku.
    Við lok grunnskóla verða lögð fyrir a.m.k. fjögur samræmd próf. Niðurstöður samræmdra lokaprófa úr grunnskóla gegna veigamiklu hlutverki við inntöku nemenda í framhaldsskóla og því þurfa prófin að standast alþjóðlegar kröfur um réttmæti og áreiðanleika. Mikilvægt er að á hverju ári verði prófað samræmt í íslensku og stærðfræði, en hugsanlegt er að ár hvert verði dregið um námsgreinarnar dönsku, ensku, náttúrufræði, samfélagsfræði, verk- og listgreinar til samræmds prófs, stuttu fyrir áætlaðan próftíma. Brýnt er að þróaðar verði aðferðir til að prófa með samræmdum hætti í verklegum greinum og listgreinum.
    Ég hef nú rakið helstu áhersluatriði grunnskólafrumvarpsins.
    Það hefur vakið athygli að í frumvarpinu er hvergi minnst á sérkennslu. Ég geri þetta að sérstöku umfjöllunarefni vegna þess að ýmsir hafa í fjölmiðlum gert þetta atriði tortryggilegt.
    Hugtakið sérkennsla virðist hafa frekar óljósa merkingu og tengist skilgreiningu á sérþörf. Það er fyrst og fremst notað á grunnskólastigi en í leikskólum og framhaldsskólum er stuðningur/stuðningskennsla notað. Sérkennsla gefur beinlínis til kynna að nemandinn sé örðuvísi og þurfi jafnvel að stunda nám sitt í einrúmi, eigi ekki heima með öðrum. Að vera tekinn út úr tíma í einhverjum mæli í sérkennslu megnið af sinni skólagöngu gefur nemandanum sjálfum og félögum hans þau skilaboð að eitthvað mikið sé að og hlýtur að hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd nemandans og félagslega stöðu hans innan bekkjarins. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að gerast jafnvel þótt sérkennsluumhverfið sé jákvætt. Spyrja má hvort þörf sé hugtaksins ,,sérkennsla`` í skóla sem hefur það að markmiði að mæta þörfum hvers og eins. Skóla sem ber ábyrgð á því að tryggja sérhverjum nemanda árangur í því viðfangi sem námsskrá setur. Í því tilliti eru allir kennarar sérkennarar og sérhver nemandi sérkennslunemandi. Markmið eða tilgangur kennslunnar eru þau sömu hvort sem um er að ræða fatlaða eða ófatlaða, seinfæra eða duglega nemendur. Kennslan snýst um framkvæmd námsskrár. Nemendur eru eins misjafnir og þeir eru margir og þótt meginkennsluaðferðirnar séu þær sömu fyrir alla nemendur verður að skipuleggja námið með mismunandi hætti fyrir hvern og einn. Sumir þurfa meiri tíma til að rannsaka eða afla sér nýrrar kunnáttu, aðrir læra betur með að lesa fyrst og fylgjast síðan með öðrum og enn aðrir þurfa alltaf að fá sérstaka áminningu eða aðstoð til að byrja á verkefni en geta lokið því einir.
    Ég vil taka það skýrt fram að í allri sinni vinnu gekk nefndin út frá þeirri grundvallarstefnu sem

ákvörðuð hefur verið í málefnum fatlaðra þ.e. blöndun og þar með þeirri meginstefnu að fatlaðir nemendur stundi nám í heimaskóla við hlið ófatlaðra nemenda.
    Ég vil leiðrétta það sem ég taldi mig heyra í máli hv. 12. þm. Reykv. hér áðan þar sem staðhæft var að það ætti að vera meginstefna að kennsla færi fram í heimaskóla eftir því sem kostur er. Það segir í frv. orðrétt í 37. gr.: ,,Meginstefnan skal vera sú að kennslan fari fram í heimaskóla.``
    Meginbreyting varðandi málefni grunnskólans er tilflutningur þessa verkefnis í heild yfir til sveitarfélaganna. Sú breyting leiðir það af sér að það er ekki lengur fræðslustjóri í umboði menntamálaráðuneytis sem útdeilir fé til sérkennslu og ákvarðar einstökum skólum kvóta heldur verður það í höndum skólayfirvalda á hverjum stað í samræmi við þarfir skólans á hverjum tíma. Sérkennslukvóti er að minni hyggju fyrst og fremst fjármálaleg viðmiðun eins og hann hefur verið notaður. Sú leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir er að allur kostnaður við grunnskólahald, þar með talin sérkennsla, verði metinn með tilliti til nýrrar lagasetningar og sveitarfélögunum tryggðar nauðsynlegar tekjur til að standa undir því.
    Með flutningi verkefnisins til sveitarfélaga getur ríkisvaldið ekki frekar ákvarðað hversu miklu fé skuli varið til ákveðinna þátta skólastarfsins í hverjum skóla, svo sem kennslu barna með sérþarfir, fremur en annarrar kennslu. Meginmarkmið frumvarpsins er, í anda blöndunar, að skapa öllum nemendum sama rétt án þess að merkja ákveðinn hóp nemenda. Með tilliti til þess ákvarðar hver sveitarstjórn tímamagn til skólanna út frá áætlun skólastjóra og þeim faglegu áherslum sem þar koma fram.
    Í núgildandi lögum er réttur nemenda með sérþarfir til kennslu hjá sérmenntuðum kennurum afskaplega bágborinn enda eru mjög dæmi um að almennir kennarar annist kennslu þeirra og það jafnvel í sérskólunum. Ef skólastjórar meta það eftirsóknarvert að ráða sérkennara til að annast kennslu einstakra nemenda eða námshópa með tilliti til aðstæðna þeirra, munu þeir gera það. Þess má einnig vænta að með auknum faglegum kröfum til skólanna sem frumvarpið gerir muni skólar leggja meiri áherslu á að fá sem best menntað fólk til starfa.
    Í frumvarpinu er eðlilega hvergi talað um sérkennsluráðgjöf heldur um kennslufræðilega ráðgjöf. Slík ráðgjöf nær til alls nemendahópsins eðli málsins samkvæmt.
    Áherslan er og hefur verið að skólar þrói starfshætti sína í þá veru að þeir séu betur í stakk búnir til að mæta þörfum hvers og eins og geti betur fengist við kennslu allra barna í sínu umhverfi. Mikið hefur áunnist á því sviði á undanförnum árum og því er tímabært að löggjöfin taki mið af því.
    Fyrirkomulagið verður þá ekki þannig að skammtað sé til hvers skóla af embættismönnum ríkisins heldur bera skólayfirvöld á hverjum stað fulla ábyrgð á þessum þætti skólastarfsins eins og öðrum og ákvarða honum fjárframlög. Heildartímamagn til hvers skóla er þá ákvarðað á grundvelli þess námsskipulags sem hver og einn skóli vill viðhafa og sveitarstjórn hefur samþykkt.
    Þetta tel ég að sé til bóta og gæti flýtt fyrir því að koma málefnum fatlaðra innan grunnskólans í betra og viðunandi horf.
    Hvað varðar sérskólana og þær fullyrðingar að verið sé að leggja sérstaka áherslu á uppyggingu þeirra þá er það alrangt. Það er hins vegar augljós og eðlileg breyting að rekstur þeirra verði á ábyrgð sveitarfélaganna eins og annað grunnskólahald. Það er ljóst að þeir þjóna fyrst og fremst höfuðborgarsvæðinu.
    Ég vil að það komi hér fram að við treystum okkur ekki til þess að svo stöddu að leggja til að þeir verði lagðir niður en það má vel hugsa sér að svo verði í framtíðinni og ég vek athygli á ákvæði 38. gr. þar sem segir:
    ,,Teljist síðar ekki þörf fyrir áframhaldandi rekstur einhverra þessara stofnana eða þeirra allra tekur ríkissjóður aftur við umráðum fasteigna þeirra og ráðstafar þeim til annarra nota.``
    Það er kannski hægt að sjá af þessu hvað menn voru að hugsa þegar þeir settu niður þetta ákvæði að það mundi í framtíðinni ekki verða þörf fyrir þessa skóla.
    Einnig vek ég athygli á umfjöllun um málefni fatlaðra í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu á bls. 22, 84--85, 98--102 þar sem lögð er áhersla á að fatlaðir nemendur stundi nám í heimaskóla við hlið ófatlaðra og að mótaðar verði tillögur um tilhögun sérkennslu í grunn- og framhaldsskólum. Þetta starf er þegar hafið í ráðuneytinu.
    Ég legg enn og aftur áherslu á að frumvarpinu er ætlað að tryggja rétt allra nemenda til náms. Sú skylda er lögð á skólann að mæta hverjum og einum nemanda eftir eðli hans og þörfum. Það leggur faglegar skyldur á herðar skólastjóra og kennara að skipa skólastarfi með tilliti til alls nemendahópsins.
    Hv. þm. Petrína Baldursdóttir fjallaði áðan um tengsl og samstarf leikskóla og grunnskóla og nefndi, ef ég man rétt, lögin um leikskóla frá 1994 þar sem segir að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla geti verið rekin sameiginlega með ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu skóla. Ég vek líka athygli á því að í 12. gr. grunnskólafrv. er ákvæði sem lýtur að samstarfi leikskóla og grunnskóla.
    Virðulegi forseti. Í þjóðfélagi nútímans skiptir góð menntun höfuðmáli og sýnt er að mikilvægi hennar mun aukast í framtíðinni. Fyrirsjáanlegt er að kröfur almennings, atvinnulífs og stjórnvalda um gæði skólastarfs fara vaxandi og aukin þekking á eðli náms og kennslu mun hafa mikil áhrif á kennarastarfið. Æ fleiri þjóðir eru að vakna til vitundar um mikilvægi þess að til kennslustarfa veljist karlar og konur úr röðum hæfustu einstaklinga þjóðfélagsins. Af þessum sökum er brýnt að menntastefna taki til þess hvernig þjóðfélagið geti best tryggt stöðugt framboð vel menntaðra kennara og hvernig stuðla megi að því að vel hæfir kennarar sinni kennslu.

    Tillögur nefndar um mótun menntastefnu miða að því að efla og styrkja skólastarf á Íslandi. Hér er m.a. um að ræða áætlanir um lengingu skólaárs, einsetinn skóla, aukna þátttöku kennara í heildarskipulagningu skólastarfs, t.d. við gerð skólanámsskrár. Aðeins með samstilltu átaki kennara, fræðsluyfirvalda og foreldra verður hægt að tryggja þessum breytingum farsæla höfn. Það er alveg ljóst að menntastefna nær ekki fram að ganga nema fyrir tilstuðlan kennara. Starfsánægja kennara og áhugi þeirra á menntun uppvaxandi kynslóðar skiptir höfuðmáli við framkvæmd öflugs og árangursríks skólastarfs.
    Frá því að áfangaskýrsla nefndar um mótun menntastefnu kom út í janúar 1993 hafa orðið óvenju líflegar umræður um menntamál hér á landi. Það er mikið ánægjuefni og það var sannarlega kominn tími til þess að sá málaflokkur yrði fyrirferðarmeiri í þjóðmálaumræðunni. Eftirtektarvert var hve skólamál skipuðu veigamikinn sess í sveitarstjórnarkosningunum sl. vor.
    Skólamál og menntun snerta hverja einustu fjölskyldu í landinu og góð menntun skiptir ekki einasta sköpum fyrir heill einstaklingsins heldur ekki síður velferð þjóðar. Þekking og menntun eru undirstaða framfara og það er skylda okkar að krefjast þess besta í þeim efnum íslenskri þjóð til handa. Það hefur kreppt nokkuð að okkur Íslendingum á síðustu árum. Öll þekkjum við ástæðurnar fyrir því og það er óþarft að tíunda þær hér. Menntamál eru að mínum skilningi eitt stærsta efnahagsmál þjóðarinnar og undirstaða framfara og sóknar í atvinnulífinu. Þau eiga að sitja í fyrirrúmi og kosta verður til því sem þarf til að við getum í framtíðinni státað af og borið okkur saman við það besta í þeim efnum sem þekkist í veröldinni.
    Virðulegur forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. Frv. til laga um grunnskóla sem hér er til umræðu er samið af nefnd sem sú er hér talar stýrði. Ég set fram þær óskir í upphafi þessarar umfjöllunar hér á þinginu að við eigum líflegar, uppbyggjandi og málefnalegar umræður um þetta mikilvæga mál sem hér er á dagskrá og það er raunar sýnt af undirtektum hér í dag að þetta er mál sem brennur á okkur öllum og ég vil þakka fyrir hversu þessar umræður hafa verið áhugaverðar.