Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:05:18 (998)


[18:05]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er afskaplega gott að heyra það að hv. þm. hefur mikinn áhuga á dönsku og leggur mikla áherslu á dönskukennsluna. Ég vil fagna því og að danskan á ekki að vera afgangsstærð. En þá má spyrja: Hvernig stendur þá á því að verið er að þoka henni aftur fyrir enskuna? Af hverju fær hún ekki að vera á sínum stað ef áherslan er svona mikil á henni, sem ég fagna. Mig langar til þess að vita um það.
    Hv. þm. sagði: Meginmarkmiðið er blöndun. En það er annað sem stendur í grg. með frv., þar stendur: Meginmarkmið með frv. er að færa grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga. Ég vildi fá að vita hvort er þá meginmarkmiðið.
    En það sem ég vildi helst gera að umræðuefni hérna og kom kannski upp til að gera athugasemdir við, er túlkun hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur á hugtakinu ,,sérkennsla``, sem mér finnst frekar dapurleg. Hún telur orðið ,,sérkennsla`` fela í sér stimplun eða merkingu á þeim nemanda sem nýtur þess. Ég hef eiginlega ekki heyrt þetta fyrr og mér finnst svo ótrúlegt að heyra þessa skoðun og get ekki með nokkru móti tekið undir hana. Hvernig stendur þá á því að það má nota orðið ,,sérdeild``? Af hverju má nota orðið ,,sérskóli`` eða ,,sérfræðingur`` ef út í það er farið? Ég næ þessu ekki alveg og get ómögulega fellt mig við það annað sem hv. þm. sagði um sérkennsluna og þar sem talið er að nemandi stimplist af því að njóta þessarar nauðsynlegu aðstoðar sem skólinn býður upp á og að hann þurfi að stunda nám sitt í einrúmi. Það er alls ekki falið í hugtakinu ,,sérkennsla`` að nemandinn þurfi að stunda sitt nám einhvers staðar á afviknum stað og í felum. Ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt þetta fyrr og get ómögulega tekið undir þetta sjónarmið.