Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:07:49 (999)
[18:07]
     Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar dönskuna þá tengist sú tillaga nefndarinnar að gera ensku að fyrsta erlenda máli skilgreiningu okkar á kjarnagreinum. Sú skilgreining gengur í gegnum bæði grunnskólann og framhaldsskólann. Við höfum þá gert ráð fyrir því að enskan yrði fyrsta erlenda tungumálið vegna þess að hún gengur alveg í gegn frá því að kennsla er hafin í henni og upp í gegnum framhaldsskólann. Það er fyrst og fremst þessi skilgreining á kjarnagreinum sem ræður því að tillaga kemur um að enska verði fyrsta tungumál.
    Hvað varðar meginmarkmið 37. gr., sem ég var að nefna áðan, þá er meginmarkmið hennar blöndun. Ég var að tala sérstaklega um 37. gr. þegar ég nefndi það. Að öðru leyti hirði ég ekki um að svara þeim útúrsnúningi sem mér fannst koma fram í máli þingmannsins.