Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:45:33 (1005)

[18:45]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skil það út af fyrir sig vel að hæstv. menntmrh. skuli hafa verið snefsinn hér í ræðu sinni áðan og skammast yfir því að ég og hv. þm. Pétur Bjarnason værum ekki hlaupandi til að afgreiða málið bara einn, tveir, þrír helst án umræðu í þinginu. Fyrr má nú vera heimtufrekjan gagnvart okkur stjórnarandstæðingum. En það hefur auðvitað komið fram hér að þetta frv. er vanbúið. Það hefur ekki verið gengið frá málum sem varða réttindi kennara, launamál þeirra, biðlaun, lífeyrissjóði. Það hefur ekki verið gengið frá málum sem varða sveitarfélögin og fleira og fleira mætti nefna og sérkennslumálin eru í uppnámi eins og hefur verið flett rækilega ofan af hér.
    En ég ætla aðeins í andsvarstímanum að vekja athygli á þessu: Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að lengja skólatímann um sex stundir á viku á næsta ári, um 10 stundir 1996, um 10 stundir 1998 og 7 stundir 1999. Og ég spyr: Á að auka hlut sveitarfélaganna í staðgreiðslu tekjuskatts í áföngum? Er meiningin að breyta tekjuskattslögum þannig að breytingin eigi sér stað þrepum fram til ársins 1999 eða hvernig ætla menn sér að útfæra þetta tæknilega?