Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:47:59 (1008)


[18:47]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur vakið nokkra athygli að hæstv. menntmrh. hefur tregðast við að viðurkenna að það eru engar líkur á því að tilflutningurinn til sveitarfélaganna geti átt sér stað 1. ágúst 1995. Aftur á móti viðurkenndi hann það hér áðan að þetta gæti ekki gengið upp og ég spyr, hvort hann hafi í raun og veru ekki gert það með því að segja það hér að auðvitað yrði þetta frv. ekki afgreitt fyrr en í þinglok. Hann viðurkenndi jafnframt að eftir að þetta frv. hefði verið samþykkt þá þyrfti að gera kjarasamninga við kennara --- og við vitum að það gerist ekki á einum eða tveimur dögum, það tekur einhvern tíma, væntanlega fer í það marsmánuður, kannski aprílmánuður --- og þar á eftir á síðan að semja við sveitarfélögin á grundvelli þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið og á grundvelli þessara laga um nýja tekjustofna þannig að það verður aldrei gert fyrr en í vor. Þá er eftir enn eitt atriði sem er að setja ný lög um tekjustofna sveitarfélaga vegna þessa tilflutnings, en þing á ekki að koma saman fyrr en 1. okt. Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvernig á þetta dæmi þá að ganga upp fyrir 1. ágúst? Eða á kannski að halda sérstakt aukaþing næsta sumar til að ganga frá þessu máli? Ég fæ þetta ekki til að ganga upp og mér finnst að ráðherrann hafi í raun og veru viðurkennt það hér áðan að þetta gæti ekki gengið upp á næsta ári og það hlyti þar af leiðandi að bíða eitt ár í viðbót.