Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:54:29 (1012)


[18:54]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að taka fram að gefnu tilefni að ég er kvaddur til starfa hér sem þingmaður með réttindum og skyldum sem því tilheyra og ég geri þá kröfu til þingmanna og hæstv. menntmrh. sömuleiðis að njóta þess réttar. En jafnframt tel ég að ég geti talið mér til tekna þó að ég nýti

þá þekkingu sem ég hef úr fyrri störfum eða öðrum störfum mínum til þess að vinna að málum hér á þingi og mun að sjálfsögðu gera það.
    En ráðherra spurði um námsaðgreiningu, hvað átt væri við. Hérna er nú skammur tími til að skýra það nákvæmlega, en ég bendi á fylgirit með þessu frv. sem verður að líta svo á að skýrsla nefndar um mótun menntastefnu sé. Þar er þetta tekið nokkuð ítarlega á bls. 43 og bls. 44 og þar má lesa um það undir kaflaheitinu ,,Þróaðar verði mismunandi leiðir til námsaðgreiningar``. Þannig að það má fá nokkuð glögga skýringu á þessu. Nú er ég ekki að segja að námsaðgreining komi ekki til greina sem leið en það verður að fara mjög gætilega í þeim efnum.
    Önnur athugasemd sem ég vildi gera að umtalsefni hér er bjartsýni ráðherrans að verði þetta frv. að lögum í febrúarlok, þá sé allmikill tími til stefnu, margir mánuðir. Þá verð ég að spyrja: Upp á hvað er þá verið að ráða kennara í marsmánuði? Ég átta mig ekki alveg á því upp á hvaða starfskjör á að bjóða þeim kennurum sem auglýst er eftir til starfa í marsmánuði og ráðnir eru til starfa við skóla hjá ríki eða sveitarfélögum, hvort á að gilda? Ég held að þetta þurfi að liggja fyrir í febrúarlok og samningar við kennara ekki síður.