Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:57:41 (1014)


[18:57]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram af hálfu hæstv. menntmrh. sýna að þetta mál er í enn meira uppnámi heldur en ég hélt, þegar ekki er raunverulega ætlunin eða vilji hjá hæstv. menntmrh. til að koma til móts við sveitarfélögin og ganga frá þessum málum fyrir áramót eins og þau gera kröfu til. Það er auðvitað hægt að hafa alls konar fyrirvara í samningum við sveitarfélögin þó að frv. sé ekki endilega samþykkt, það er sá fyrirvari að það liggi fyrir hvernig á að gera þetta upp þó að það sé ekki hægt að ganga endanlega frá því fyrr en frv. hefur verið samþykkt hér á Alþingi. Það þykir mér nokkuð ljóst og ég held að sveitarfélögin viti alveg hvað þau eru að tala um í ályktun sinni frá landsþinginu sem haldið var á Akureyri í ágúst.
    En ég kem hérna fyrst og fremst til að gera athugasemd við það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra varðandi 33. gr. frv. Hann segir að það sé náttúrlega svo augljóst að sveitarfélögin eigi að kosta námsgögn og það hljóti öllum að vera ljóst og nánast taldi að það væri eins og hver önnur firra að láta sér detta annað í hug. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að menntmrn. gaf út skýrslu sem reyndar var talað um að væri leyniskýrsla en ég vil taka fram að þingflokkur Kvennalistans fékk afhenta þessa skýrslu í gær þannig að þó hún hafi kannski ekki borist öllum þá erum við með þessa skýrslu, þetta er skýrsla um tilfærslu grunnskóla til sveitarfélaga, mat á kostnaði. Og á bls. 13, um Námsgagnastofnun, segir:
    ,,Gert er ráð fyrir að námsgagnagerð verði áfram hjá ríkinu og ríkið leggi grunnskólanemendum námsgögn með svipuðum hætti og verið hefur.`` Það eru því ekki bara við hér og Samband ísl. sveitarfélaga sem ekki erum algerlega með á nótunum.