Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 20:31:23 (1026)

[20:31]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Þá er stóra stundin runnin upp og hæstv. menntmrh. hefur mælt fyrir nýju frv. um grunnskóla sem nokkuð lengi hefur verið í burðarliðnum og frv. til laga um framhaldsskóla er á næstu grösum. Hæstv. menntmrh. sagði í lok síns máls að það væri óþarfi að fara í pólitíska flokkadrætti í þessari umræðu en ég get sagt það, hæstv. menntmrh., að mér finnst að pólitíkin geti stundum verið dálítið skrýtin þegar maður hefur það í huga að það virðist vera orðin regla að starfstími hæstv. menntmrh. fari í að undirbúa breytingar sem þeir koma svo fram með um það leyti sem kjörtímabili lýkur og líður að kosningum. Svo kemur nýr ráðherra og byrjar á byrjunarreit af því að fyrrv. hæstv. ráðherra sem var úr öðrum stjórnmálaflokki hlýtur að hafa gert tóma vitleysu. Svona vinnubrögð eru þjóðfélagi okkar dýrkeypt. Þetta er dæmi um óstöðugleika sem kemur að einhverju leyti til af því að hér sitja meirihlutastjórnir sem ekki hafa samráð við minni hlutann og a.m.k. hefur það ekki verið gert varðandi þetta frv. sem hér er komið til umræðu.
    Það má hins vegar segja um grunnskólalögin frá 1991 eins og margoft hefur komið fram og var það frv. lagt fram af fyrrv. hæstv. menntmrh., Svavari Gestssyni, að þau lög voru samþykkt af öllum stjórnmálaflokkum sem þá áttu sæti á Alþingi. Þess vegna er það dálítið sérkennilegt að þau skyldu aldrei fá að koma til framkvæmda heldur strax vera skert ákvæði í þeim lögum sem meiri hlutinn, stjórnarflokkarnir á Alþingi, hafa staðið að.
    Hæstv. forseti. Ég get ekki séð það og ég lét það koma hér fram áðan að það hafi fyrst og fremst vantað ný lög fyrir grunnskólann sem slíkan og hans innra starf og ég endurtek að það vantaði fyrst og fremst meiri peninga. Mér fannst vera ósamræmi í málflutningi hæstv. menntmrh. hér áðan þegar hann svaraði hv. þm. Pétri Bjarnasyni. Þá lét hann að því liggja að það frv. sem hér væri til umræðu væri fyrst og fremst tengt flutningnum til sveitarfélaganna. En síðan þegar ég kallaði fram í að það vantaði fyrst og fremst peninga til þess að við hefðum góð og gegn grunnskólalög þá sagði hæstv. menntmrh. að það vantaði allt, allt annað og það hefði þurft að breyta lögunum verulega frá 1991, eftir því sem ég skildi hann,

til þess að við ættum góð grunnskólalög til þess að byggja okkar grunnskólastarf á. ( Menntmrh.: Til að færa hann til sveitarfélaganna.) Já, ég geri mér vel grein fyrir því, hæstv. menntmrh., það þurfti ný lög til þess að færa skólann til sveitarfélaganna, það er ekki spurning. En hins vegar er spurningin: Þurfti ný grunnskólalög til þess að hér geti farið fram gott skólastarf í grunnskólum landsins? Svar mitt við því er nei.
    Allt þetta kjörtímabil hefur grunnskólinn verið sveltur fjárhagslega og það hefur verið skorið niður u.þ.b. 100 millj. á ári með sérstökum lögum á hv. Alþingi og þá hefur ekki borið mikið á metnaði fyrir hönd barna í landinu þegar þau frv. hafa verið afgreidd. Það verð ég að segja. En nú er lag, núna eru lagðar fram tillögur um breytingar á grunnskólalögum sem kveða á um kostnaðarauka í grunnskólakerfinu upp á 13--17% sem þýðir hátt í einn milljarð króna. Þessar kostnaðartölur koma fram í greinargerð fjmrn. með frv.
    Það hafa verið aðrar tölur á kreiki í umræðunni og ég hefði gjarnan viljað heyra hvort það er ekki rétt, hæstv. forseti, að með samþykkt þessa frv. þá er Alþingi að setja lög sem ganga út á það að sveitarfélögin þurfa að leggja í stórkostlegan kostnað, t.d. sem tengist einsetnum skóla. Þetta hefur verið gagnrýnt æðioft af hálfu sveitarfélaganna að Alþingi setji lög um að þau eigi að gera eitt og annað. Það er einmitt það sem verið er að tala um í þessu tilfelli.
    Í stuttu máli sagt þá er það ástand þjóðmála sem er búið að vera það bágborið á síðustu árum að mati hæstv. menntmrh. að það hefur þurft að berjast við að spara þessar 100 millj. á ári hverju og núna á að auki að hagræða um 1% sem enginn skilur hvar á að taka því svo nærri er búið að ganga grunnskólanum.
    Nú er sem sagt allt hægt og við skulum vona það og ég segi það fyrir mig og minn flokk að við erum að sjálfsögðu hlynnt því að aukið fjármagn verði veitt til grunnskólans og fjölgað verði kennslustundum en að hluta til gengur það frv. sem hér er til umræðu út á það.
    Það hefur farið hér fram heilmikil umræða um frv. þar sem umræður hafa staðið í marga klukkutíma og ég skal reyna, hæstv. forseti, að fara ekki mikið út í endurtekningar á því sem þegar er komið fram. En það er ljóst að frv. gengur fyrst og fremst út á það að færa kostnað við grunnskólann alfarið yfir til sveitarfélaganna. Það kemur fram í frv. að það er aðaltilgangurinn.
    Við framsóknarmenn erum ekki á móti því að það verði gert en við viljum hins vegar vanda til þeirrar vinnu og við vitum að það er mikill undirbúningur sem þarf til þess að þetta geti farið sómasamlega fram og eftir þeim upplýsingum sem við höfum þá er sú undirbúningsvinna skammt á veg komin. Ég er því mjög efins, þó ég taki ekki meira upp í mig en það, að þetta geti gerst 1. ágúst 1995.
    Ég heyrði það á máli hæstv. ráðherra áðan að það er verið að tala um einhverja bráðabirgðasamninga við sveitarfélögin til þess að hægt verði að standa við þessa dagsetningu og það er í sjálfu sér ekki fyrst og fremst mál Alþingis að velta því fyrir sér hvernig tekst með þennan samning við sveitarfélögin en hins vegar hlýtur það að vera stórt atriði fyrir Alþingi, þegar það stendur frammi fyrir því að samþykkja eða hafna því frv. sem hér er til umræðu, hvort þessi samningur næst. Ég skal viðurkenna það að ég hafði séð málið þannig fyrir mér að frv. yrði ekki samþykkt frá Alþingi fyrr en það lægi fyrir hvort samningar nást við sveitarfélögin og við kennarafélögin um launakjör. En ég heyri það á máli hæstv. ráðherra að hann vill hafa þetta á hinn veginn en þá er a.m.k. ekki hægt að samþykkja frv. eins og það lítur út á þessari stundu. Það hljóta þá að þurfa að vera einhverjir fyrirvarar eða bráðabirgðaákvæði.
    Það hefur verið ályktað af hálfu ýmissa aðila varðandi þennan tilflutning og ég ætla fyrst að vitna í samþykkt frá Samtökum fámennra skóla sem hafa efasemdir og það er kannski ekki að ástæðulausu. En, með leyfi forseta, þau samtök hafa ályktað á þennan hátt:
    ,,Samtök fámennra skóla vara eindregið við hugmyndum um flutning grunnskóla til sveitarfélaga. Samtökin telja að ekki hafi verið sýnt fram á að þjónusta grunnskólans við nemendur muni batna, þvert á móti bendir ýmislegt til hins gagnstæða. Í dag standa sveitarfélög mjög misvel að þeim þáttum í rekstri grunnskóla sem þau hafa með höndum enda eru þau misjafnlega í stakk búin til þess. Engin ástæða er til að ætla að hugsanleg sameining sveitarfélaga muni breyta því. Engar tillögur hafa verið lagðar fram um það hvernig staðið verði að rekstri þjónustustofnana grunnskólans á borð við fræðsluskrifstofur og Námsgagnastofnun eftir tilflutninginn.
    Samtök fámennra skóla telja hættulegt að nota grunnskólann sem tilraunaverkefni eða áróðursatriði í umræðunni um sameiningu sveitarfélaga.``
    Þessi ályktun er reyndar ekki alveg ný eins og heyrist og var gerð áður en farið var í það mikla átak að reyna að sameina sveitarfélög sem ekki voru teknir stórir áfangar í.
    Hér hefur verið komið inn á ályktanir sem hafa verið gerðar af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga og síðasta landsþingið sem haldið var á Akureyri í haust ályktar í þessum efnum á þann hátt sem mér finnst mjög skiljanlegt og ég tek alveg eindregið undir þá ályktun og get í sjálfu sér gert hana að minni. Ég ætla ekki að eyða tíma í að lesa hana þar sem hún hefur verið lesin áður í dag en það er úrslitaatriði hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga að niðurstaða þurfi að hafa náðst í þessum málum fyrir áramót svo yfirtaka sveitarfélaga geti átt sér stað á næsta ári. Það er ekki langt til áramóta og því endurtek ég það sem ég sagði áðan að mér sýnist ekki miklar líkur á því að af þessu geti orðið 1. ágúst en þó að það verði eitthvað seinna þá held ég að það geti í sjálfu sér ekki skipt öllu máli. Ég er sannfærð um það að hjá öðrum þjóðum mundi breyting sem þessi vera tekin í áföngum og látin ná yfir eitthvert árabil. Ég veit ekki hvenær við Íslendingar ætlum að fara að temja okkur einhver slík vinnubrögð. Ég held það væri kominn tími til.
    Kennarafélögin hafa ályktað um tilflutninginn og þau ályktuðu fyrst á fulltrúaþingi kennara fyrr á þessu ári. Síðan var sú ályktun endurnýjuð nú síðar og hljóðar upp á eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Kennarafélögin ítreka ályktun 7. fulltrúaþings Kennarasambands Íslands, haldið í apríl 1994, vegna fyrirhugaðs flutnings þar sem þess var krafist að a.m.k. einu ári áður en til hans komi verði ríki og sveitarfélög búin að tryggja í fyrsta lagi fjárveitingar til sveitarfélaga þannig að þau geti staðið undir kostnaði að skólastarfi grunnskóla í samræmi við núgildandi grunnskólalög án þeirra ákvæða um skerðingu sem nú er í gildi auk þess að tryggja fjármagn til frekari þróunar grunnskólans.
    Í öðru lagi: Að ekki dragi úr stoðkerfi skólanna svo sem starfsemi fræðsluskrifstofa, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, starfsemi Námsgagnastofnunar og tilboðum um endurmenntun fyrir kennara.
    Í þriðja lagi: Öruggan rekstrargundvöll sérskólanna með tilliti til þess að nemendur geti notið allrar nauðsynlegrar þjónustu óháð búsetu.
    Í fjórða lagi: Öll samningsbundin og lögbundin réttindi kennarastéttarinnar og að einn viðsemjandi fari með samningsumboð fyrir öll sveitarfélögin sameiginlega.
    Ekkert af þessu hefur verið tryggt og því telja kennarafélögin fráleitt að tímasetningin, 1. ágúst 1995, fáist staðist.``
    Svo mörg voru þau orð. Hvað segir hæstv. menntmrh. um þetta? Er hann enn þeirrar skoðunar að tilflutningurinn geti átt sér stað 1. ágúst?
    Í skýrslu 18 manna nefndar um mótun menntastefnu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Í umræðunni um sameiningu sveitarfélaga hefur m.a. verið lögð áhersla á að með eflingu sveitarstjórnarstigsins verði opinber stjórnsýsla skilvirkari. Taka má undir það sjónarmið að sameining sveitarfélaga auðveldi og einfaldi að mörgu leyti flutning á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga en sameining þarf þó ekki að vera forsenda flutningsins. Ekkert bendir til annars en að sveitarfélögin samkvæmt núverandi skipan ráði vel við verkefni sé þeim tryggðir tekjustofnar og hafi samstarf sín á milli um ýmiss konar þjónustu við skólana.``
    Í könnun sem Kennarasamband Íslands lét gera og náði til 1.200 aðila á aldrinum 15--69 ára og voru alls staðar að af landinu kom í ljós að meiri hlutinn telur sitt sveitarfélag geta tekið við rekstri grunnskólans. En hins vegar telur meiri hluti þeirra sem svöruðu að grunnskólinn eigi að vera í höndum ríkisins.
    Í tilvitnuninni sem ég vitnaði til segir að ef sveitarfélögin hafi samstarf sín á milli um þjónustu við skólana þá ráði þau við þetta verkefni. Eins og margoft hefur komið fram hér í umræðunni í dag þá finnst hv. þingmönnum að það vanti nokkuð mikið á að þessir hlutir séu tryggir. Því það er þetta stóra ,,ef`` sem þarna er til staðar. Og það væri forvitnilegt ef hæstv. menntmrh. gæti upplýst hvar þessi undirbúningur stendur hjá sveitarfélögunum. Mér er kunnugt um það í mínu kjördæmi að þar er hafin undirbúningsvinna að því að sveitarfélögin taki við þessari starfsemi en síðan veit ég um önnur kjördæmi þar sem ekkert er farið að vinna í þessum málum. Það er dæmi um hvað það ríkir mikil óvissa um öll þessi mál og vantrú á að þetta geti átt sér stað á næsta ári.
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að vitna til 42. gr. í frv. en þar kemur fram að það er meiningin að sveitarfélögin láti í té upplýsingar um þetta efni. Ég spyr: Er það meiningin að sveitarfélögin láti í té upplýsingar með reglulegu millibili eða bara einu sinni þegar niðurstaða hefur náðst um samstarf við önnur sveitarfélög? Það kemur fram þarna, svo ég vitni beint í 42. gr., með leyfi forseta: ,,Hverju sveitarfélagi er skylt að gera menntamálaráðuneyti grein fyrir skipulagi sérfærðiþjónustu við skóla. Menntamálaráðherra setur reglugerð þar sem m.a. er kveðið á um lágmarksþjónustu á þessu sviði.``
    Í þessari grein eins og ýmsum öðrum greinum er kveðið á um eftirlit af hálfu ráðuneytisins. Ég er ekki að setja út á það því auðvitað er það ljóst að menntmrn. hefur yfirumsjón með grunnskólanum eftir sem áður og þarf að hafa eftirlit og það er mjög mikilvægt að það eigi sér stað. En það er ástæða til að spyrja um það líka varðandi aðalnámsskrá: Mun ráðuneytið hafa eftirlit með því að sveitarfélögin uppfylli skyldur sínar hvað varðar aðalnámsskrár grunnskóla? Hvernig tekur menntmrn. á málum þegar það liggur fyrir að sveitarfélög reynast ekki uppfylla þau skilyrði sem þeim ber? Mér er kunnugt um að í Noregi hafa orðið árekstrar hvað þetta varðar og sveitarstjórnir halda því fram að þar sem sveitarfélögin séu sjálfstætt stjórnsýslustig þá sé það ekki alveg augljóst að ríkisvaldið geti sett þeim stólinn fyrir dyrnar ef þeim sýnist svo að fækka kennslustundum eða haga skólastarfi á annan hátt þannig að menntmrn. geri athugasemdir við. Það væri forvitnilegt að vita hvert ferlið yrði ef slíkt mál kæmi upp.
    Skólanefndir hafa verið hér til umræðu og það er ekki því að neita að þær fá gríðarlega mikilvægt hlutverk. Ég get ekki betur séð en að formaður skólanefndar verði að verulegu leyti í starfi miðað við það mikla verkefni sem hann þarf að taka að sér. Þar kemur einn kostnaðarliður sem ég velti fyrir mér hvort tekið er tillit til. Skólanefnd tekur t.d. til meðferðar mál ef nemanda er vísað úr skóla. Það eru fleiri mjög viðkvæm mál sem skólanefndir þurfa að taka að sér. Ég er ekkert að vantreysta skólanefndum sem slíkum í því tilfelli að taka að sér erfið og viðkvæm mál en það þarf þá a.m.k. að vera ljóst með þagnarskyldu og fleira. Í minni sveitarfélögum geta þessi mál orðið mjög erfið. Það hefur bara sýnt sig t.d. með barnaverndarnefndir að lítil sveitarfélög hafa beðist undan því að þurfa að skipa barnaverndarnefndir á sveitarstjórnar-,,basis``. Reyndar hefur þeim lögum verið breytt þannig að þær eru ekki lengur skipaðar þannig eða það er heimild til að gera það á annan hátt. Þannig að þetta er atriði sem mér finnst við þurfa að skoða í hv. menntmn.
    Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa nefnt að foreldrar eigi að eiga að hafa atkvæðisrétt á skólanefndarfundum. Mér finnst það a.m.k. koma mjög til greina. Annað vil ég spyrja um í sambandi við skólanefndarfundi. Það er ætlast til að fulltrúar kennara og skólastjóra sitji þá. Hefur verið hugsað fyrir þeim kostnaði? Ég býst ekki við að það sé ætlast til að þeir sitji þá fundi launalaust. Svona koma upp ótal spurningar þegar þetta frv. er skoðað og tengjast margar þær spurningar kostnaðarliðum.
    Foreldraráð á að fá veruleg verkefni og ég fagna því. Það hefur reyndar ekki völd en það á að fylgjast með t.d. hvort áætlanir sem varða skólahaldið nái fram að ganga. Ég held að þetta sé í takt við það sem er að gerast víða annars staðar í heiminum. Það fer vel á því. En aukið samstarf heimila og skóla hefur verið eitt af mínum áhugamálum og ég tel að það hafi því miður eins og hefur nú komið hér fram, t.d. hjá hv. 11. þm. Reykn., oft og tíðum verið nokkurt skilningsleysi þarna á milli sem er öllu skólastarfi mjög í óhag.
    Mig langar til að spyrja hæstv. menntmrh., það varðar 25. gr., þar er talað um, með leyfi forseta: ,,Sveitarstjórnir skulu greiða upphæð er svarar til 1% af dagvinnulaunum kennara og skólastjóra í sveitarfélaginu í sérstakan sjóð er Samband íslenskra sveitarfélaga annast rekstur á og varðveitir. Sjóði þessum er ætlað að styrkja kennara og skólastjóra við grunnskóla til allt að eins árs viðbótarnáms og endurmenntunar.``
    Er ekki lengur verið að tala um námsleyfi á fullum launum? Þetta er annað orðalag en áður var og þess vegna spyr ég nú þessarar spurningar.
    Hæstv. menntmrh. hefur fallið frá því ákvæði sem kom fram í skýrslu nefndarinnar um að gera skólann að tíu mánaða skóla og það held ég að hafi verið alveg rétt ákvörðun vegna þess að það hentar bara ekkert fyrir okkar þjóðfélag. Við megum alveg hafa einhverja sérstöðu hér þó við séum nú að auka okkar alþjóðlega samstarf og þetta held ég að sé eitt af því sem við eigum bara að halda í sem lengst að hafa hér langt sumarleyfi í skólum enda hefði það kostað það á framhaldsskólastiginu sem verður hér til umræðu eftir viku að þurft hefði að breyta lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna til þess að framhaldsskólanemar hefðu haft aðgang að honum því ekki geta þeir lifað á loftinu.
    Það hefur verið mikið hagsmunamál allra fjölskyldna í landinu leyfi ég mér að segja að kennsludagur verði samfelldur og skólar geti verið einsetnir, sérstaklega á það við hér um suðvesturhornið. Reyndar eru þessi mál miklu betur stödd á landsbyggðinni og þar er víða eingöngu um einsetna skóla að ræða.
    Síðan er ákvæði um að kennsludagur hefjist að morgni og það tengist finnst mér mikið kjaramálum kennara. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að á meðan kennarar hafa þannig kjarasamninga að að hluta til eru laun þeirra fyrir heimavinnu en ekki þannig að þeir byrji vinnudaginn að morgni eins og aðrir þjóðfélagsþegnar þá sé þeirra barátta fyrir betri kjörum miklu erfiðari. Því fagna ég þessu ákvæði og tel að það geti orðið kennurum að gagni í kjarabaráttu þeirra sem nú er fram undan. Hæstv. menntmrh. hefur látið þau orð falla að hann telji að nú sé lag fyrir kennara að ná bættum kjörum. Þó það sé kannski svolítið neyðarlegt að það sé einmitt núna þegar hann er að kasta þessum málum frá sér og ríkinu að þá telji hann að það sé hægt að bæta kjör kennara þá langar mig til að spyrja hann að því beint hversu mikið hann telji að kjör kennara eigi að batna eða hvað hann telji sanngjarnt. Það er nú kannski ekki sniðugt í þeirri kjarabaráttu sem er fram undan og umræðu að segja það nákvæmlega. En hann getur alla vega staðfest hvort hann hafi ekki látið þau orð falla opinberlega að kennarar eigi að fá bætt kjör.
    Það hefur verið talað hér um kjarnagreinar. Ýmsum þykir það ekki rétt og þar á meðal þeirri sem hér stendur að færa dönskuna aftur fyrir ensku í skólanum þannig að grunnskólanemar byrji á að læra ensku sem erlent tungumál og síðan dönsku. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sagði hér áðan að danskan ætti samt sem áður ekki að verða nein afgangsstærð og ég fagna því. En mig vantar enn skýringu á því af hverju danskan mátti ekki vera kjarnagrein líka. Það er kannski fyrir einhverja vanþekkingu hjá mér á þessu kerfi en að enskan eigi að vera kjarnagrein en ekki danskan, enskan sé tekin fram fyrir þannig að börn byrji að læra ensku, gerir það að verkum í mínum huga að danskan verður enn lægra sett en hún er í dag. Eins og ég hef látið koma hér fram þá finnst mér það vera hluti af okkar menningu að við byrjum á að læra norrænt tungumál. Og mér finnst það nánast ekki vera til þess að læra tungumál heldur til að geta haft samskipti við nágrannaþjóðir okkar sem er okkur svo óskaplega mikilvægt.
    Eitt af því sem ekki er lengur gert ráð fyrir að verði í lögum er ákvæði um hámarksfjölda í bekk. Hæstv. menntmrh. kom inn á þetta hér í sinni ræðu og var ekki frá því að það ætti að setja inn í lögin ákvæði um hámark í bekk og m.a. nefndi hann að hugsanlega væri rétt að frekar að viðmiðunin væri hámark á kennara.
    Ég skal viðurkenna það að ég hef ekki hugsað þetta út frá því en ég veit það eins og ég hef margoft látið koma fram á hv. Alþingi að eins og ástandið er í grunnskólum í Reykjavík núna þá er það engu líkt því það er hrúgað inn í þessar litlu kennslustofur 28 nemendum og fleiri og þrengslin eru svo mikil að börnin fá ekki að standa á fætur eftir að þau eru sest. Það er eins og þeim sé púslað niður í bekkinn og mega síðan ekki standa á fætur fyrr en það koma frímínútur. Þetta kemur kannski í og með til af því að nemendur eru ekki með þessar litlu skólatöskur sem voru í gamla daga því ég hef heyrt það á hv.

Alþingi að þingmenn hafa haldið því fram að þetta hafi verið hægt í gamla daga og því skyldi þetta ekki vera hægt enn í dag. En það er ekkert saman að jafna því það eru líka komin tæki inn í skólastofurnar eins og tölvur og fleira þannig að það er ekkert tekið tillit til þessa þegar verið er að setja lög um það að nemendur í bekk megi vera allt upp í 30. Þetta er eitt af því alvarlegasta sem grunnskólinn stendur frammi fyrir í dag, það er þessi fjöldi í bekkjum. Þess vegna finnst mér að það eigi að skoða það mjög alvarlega í hv. nefnd hvort ekki sé ástæða til að hafa þarna inni hámarksákvæði.
    IX. kafli frv. fjallar bæði um námsmat og mat á skólastarfi.
    Ég vil í fyrsta lagi segja það varðandi samræmd próf sem hér er lögð meiri áhersla á heldur en verið hefur að samræmd próf í 10. bekk eru alveg sjálfsagður hlutur, finnst mér. Eins vil ég segja um 7. bekk. Mér finnst koma mjög vel til greina að þar fari fram einhver samræmd próf en mér finnst full langt gengið að fara með þau niður í 4. bekk. Þar finnst mér að ætti miklu frekar að fara fram einhvers konar samræmd könnunarpróf heldur en að vera með samræmd próf. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir nefndi það hér áðan að hugsanlega mætti draga út einhver próf í 7. bekk --- að í 7. bekk mætti draga úr námsgreinar. Var það ekki? Nei, það var ekki rétt skilið. En alla vega kom það fram í hennar máli áðan að það væri kannski ástæða til þess að ákveða það ekki fyrir fram í hvaða greinum yrðu samræmd próf heldur mætti með stuttum fyrirvara ákveða það. Það er hugmynd sem ég hef ekki heyrt áður en mér finnst mjög athyglisverð vegna þess, eins og kennarasamtökin hafa bent á, þá mótar það um of skólastarfið allan veturinn að hafa það yfir höfði sér að samræmd próf fari fram í ákveðnum greinum en ekki öðrum. Þannig að mér líst vel á þá hugmynd að það séu dregin út einhver ákveðin fög þegar prófin nálgast.
    En eins og ég sagði áðan, 4. bekkjar samræmd próf líst mér ekki á. ( SAÞ: Ég var að tala um 10. bekk.)
    Á 116. löggjafarþingi lagði ég fram ásamt fleiri þingmönnum þáltill. um mat á skólastarfi. Sú tillaga náði ekki fram að ganga en hún fékk umræðu á hv. Alþingi og nokkuð góðar undirtektir þingmanna. Hún gekk mikið út á það að það færi fram sjálfsmat í skólunum og á þeim tíma fannst mér áhugi innan menntmrn. meira snúa að því að skólarnir yrðu metnir, þeir yrðu nánast teknir út og gefnar einkunnir samkvæmt einhverju köldu mati. Þessa hugmynd leist mér ekki vel á og mér finnst að eins og frv. lítur út núna þá sé verið að tala fyrst og fremst um sjálfsmat og ég lýsi stuðningi við þá hugmynd og sýnist að mat á skólastarfi eins og það lítur út í frv. sé mjög vel viðunandi og ég tel að slíkt mat eigi að fara fram í skólunum.
    Minn tími mun víst vera brátt á þrotum, hann er svo ótrúlega fljótur að líða þegar maður er kominn í ræðustól á Alþingi.
    Það var eitt sem hæstv. menntmrh. nefndi í sínu máli og það var að agavandamál hafa aukist. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi einhverjar skýrslur undir höndum sem segja þetta. Þetta kom fram eins og fullyrðing og ég býst við að hæstv. ráðherra beri ekki á borð fullyrðingu sem þessa nema hafa eitthvað undir höndum um að svo sé.
    Auðvitað hefur þjóðfélag okkar gjörbreyst á tiltölulega fáum árum og samfélagið hefur ekki komið til móts við þessar breytingar og þessar nýju þarfir fjölskyldunnar. Það hafa verið mótuð samtök foreldra sem eru virk og ég vil lýsa mikilli ánægju með það. Þessi samtök heita Heimili og skóli og eru nokkurs konar grasrótarsamtök og þau hafa látið mjög að sér kveða hvað varðar rétt barna og rétt fjölskyldna sem er náttúrlega nátengt.
    Skólastarfið í landinu þarf á því að halda að fá aukinn styrk og liðsinni frá foreldrum og því er það mjög mikilvægt að þessi foreldrasamtök geti starfað og látið í sér heyra þó að ég efist ekkert um það að ýmsum finnist að það hafi ekki verið tekið nægilega mikið tillit til þeirra óska því það hefur verið lögð mikil áhersla á aukið fjármagn til grunnskólans en fram að þessu hefur ekki verið orðið við þeim óskum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Hæstv. forseti. Að síðustu vil ég segja það að ég tel að það frv. sem hér er til umræðu sé að hluta til og að mörgu leyti gott frv. Það er tekið af skarið um einsetinn skóla og fjölgun kennslustunda sem er eitt af mínum baráttumálum og að sjálfsögðu mun ég styðja þau ákvæði. En eins og ég hef látið koma fram þá tel ég að þau ákvæði sem snúa að flutningi grunnskólans alfarið til sveitarfélaga muni varla ná fram að ganga miðað við þá dagsetningu sem er til umræðu í frv., þ.e. 1. ágúst 1995, en ég mun að sjálfsögðu vinna málefnalega að frv. í hv. menntmn. og þar hljótum við að fá allar þær upplýsingar sem við óskum eftir og tengjast því stóra máli. Það sem mér finnst að hljóti að verða hvað erfiðast í þeim efnum er hvernig staðið verður að samningum við kennara og þeim réttindum sem kennurum hefur áskotnast.