Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 21:11:08 (1027)


[21:11]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Við höfum varið nokkrum tíma á þessum fundi til þess að ræða frv. til laga um grunnskóla og er það vel. Þetta er mál sem varðar okkur öll og þjóðfélagið í heild meira en flest annað þannig að það er ekki skrýtið þó að hér þurfi menn að tala mikið um þetta frv.
    Ég vil hins vegar segja það sem reyndar aðrir hafa sagt að við búum við nokkur góð grunnskólalög í dag að mínu mati en aðalgallinn í tengslum við þau lög er að þeim hefur ekki verið framfylgt.

    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir talaði um og kallaði reyndar fram í fyrir ráðherranum að ekki væri nógu mikið fjármagn til grunnskólans og mátti skilja á ráðherranum að hann teldi þetta vera dálítið einkennilega fullyrðingu af hálfu þingmannsins en ég skildi ekki af hverju hann gat ekki tekið undir þetta því það hljóta allir að vera sammála um að það er fyrst og fremst fé sem vantar. Það er allt of lítið fé sem fer til grunnskólans, reyndar til skólakerfisins í heild, en hér erum við að ræða grunnskólann.
    Ef við berum okkur saman við önnur lönd þá er það nokkuð augljóst en við þurfum þess ekki, við getum bara horft til okkar og það er held ég að mati flestallra, ef ekki allra, allt of litlu fé varið til grunnskólans. Hann hefur ekki verið framarlega í forgangsröðinni en sem betur fer finnst mér að þetta sé örlítið að breytast, a.m.k. eru fleiri sem láta sig skólana varða og þá grunnskólann sérstaklega og það eru fleiri sem eru tilbúnir til þess að setja skólann framar í forgangsröðina, sem betur fer. Ég held við höfum flest orðið vitni að því fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Það var mikið talað um skólamál og ég vonast til þess að það verði líka gert fyrir næstu kosningar. En aðalvandamálið er að það hefur ekki verið nægilegt fjármagn sett í grunnskólann. Og þá er ég ekki að saka eingöngu hæstv. núv. ríkisstjórn því þetta hefur verið lenska lengi því miður. En það hefur keyrt um þverbak núna síðustu árin.
    Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að það væri langt frá því að þessi 18 manna nefnd væri einhverjir já-menn ráðherrans sem einhver hafði orðað. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það hvort þeir séu já-menn ráðherrans en þegar horft er yfir hópinn þá sér maður ekki að þetta sé mjög fjölbreyttur hópur að því er varðar a.m.k. pólitískan bakgrunn ef út í það er farið. En ég sé auðvitað ef ég horfi yfir þennan hóp að þá eru þar viðskiptafræðingar, borgarfulltrúar, kennarar og lögfræðingar o.s.frv. Það stendur ekkert um það í hvaða flokki þessir ágætu menn eru en því hefur verið haldið fram að þarna hafi fáir komið að, a.m.k. færri heldur en hefðu gjarnan viljað. En eitt er víst þarna hefur ráðherrann ekki leitast við að ná neinni pólitískri samstöðu til þess að auka líkurnar á því að það næðist samstaða um þetta mál á Alþingi. Það þykir mér miður. Með því er ég ekki að segja að ég telji þetta frv. vera endilega svo slæmt og niðurstaðan sé að öllu leyti vond en hins vegar er allt of margt sem ég er óhress með í þessu frv. Því miður.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir talaði hér fyrr í dag og gerði hún grein fyrir nokkrum atriðum sem voru gagnrýni verð og ætla ég svo sem ekki að fara að endurtaka það sem hún sagði. Það eru nokkur atriði sem ég vildi hnykkja örlítið betur á.
    Eins og fram kemur í þessu frv. og í máli ráðherra þá er megintilgangurinn með þessu frv. að flytja grunnskólann til sveitarfélaga og það er nánast aðalatriðið.
    Hér hefur margoft verið talað um að það þurfi að liggja fyrir hvernig fjármálum verði háttað, þ.e. hvernig samskipti ríkis og sveitarfélaga verða í tengslum við yfirtöku sveitarfélaganna og ég endurtek það að sveitarfélögin leggja áherslu á að það þurfi að ganga frá þessum málum fyrir áramót.
    Í skýrslu sem ég er með undir höndum sem okkur var afhent af hálfu menntmrn. í gær um tilfærslu grunnskóla til sveitarfélaga og mat á kostnaði koma fram ýmsar tillögur. Þar á meðal er á bls. 20 talað um ákveðnar tillögur varðandi tekjustofnana. Það er t.d. talað um að það verði, svo ég lesi orðrétt, með leyfi forseta: ,,Við brottfall tímabundinna skerðingarákvæða grunnskólalaga hækkar kostnaður sveitarfélaga vegna grunnskólans um u.þ.b. 400 millj. kr. eða úr 4,9 milljörðum kr. samkvæmt fjárlögum 1994 í allt að 5,3 milljarða.`` --- Þarna koma þeir með alveg ákveðnar tölur. Síðan segir: ,,Til að mæta þeim kostnaði sem sveitarfélög yfirtaka er lagt til að hlutur sveitarfélaganna í staðgreiðslu hækki.`` Síðan er haldið áfram með þetta.
    Síðar taka þeir fram að semja þarf sérstaklega um hugsanlega aukinn kostnað sem ný grunnskólalög kunna að hafa í för með sér. Það sama á við um nýja reglugerðarsetningu sem, t.d. vegna 35. gr. og 61. gr. gildandi laga, hefur í för með sér aukinn kostnað við skólastarfið. Þannig að þarna er komið með alveg ákveðnar tillögur og maður veltir fyrir sér hvort ekki er farið að vinna á grundvelli þessara tillagna hér og þá hvort sveitarfélögin sætti sig við þetta form sem hér er gert ráð fyrir. Ég skil ekki af hverju það þarf að bíða þangað til á næsta ári. Af hverju er ekki hægt samhliða hugsanlegri samþykkt nýrra grunnskólalaga að samþykkja breytingar á tekjustofnalögunum? Það höfum við margoft gert í þinginu þegar verið er með slík lög, þá eru tekin mörg lög kannski hvert á eftir öðru í þeirri röð sem nauðsynlegt er að gera.
    Ég verð hins vegar að viðurkenna það að mér þykir mjög sérkennilegt og átta mig ekki alveg á hvað þessi starfshópur meinar með því að jöfnunarsjóðurinn eigi að taka þátt í því að jafna aðstæður sveitarfélaganna og það sé gert eftir tillögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þetta hlýtur að skipta mjög miklu máli fyrir sveitarfélögin, sérstaklega minni sveitarfélög, og þar sem skólar eru mjög litlir þá getur verið að það séu þættir sem t.d. menntmrn. leggur áherslu á að þurfi að taka tillit til og veita hugsanlega þeim skólum aukinn styrk sem ekki er beinlínis hægt að ætlast til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eða stjórn hans og félmrn. hafi sama skilning á. Ég held að þarna þurfi í raun menntmrn. að koma til og skil ekki hvernig þetta á að geta gengið upp með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. og þyrfti í raun að vera samflot á milli félmrn. og menntmrn. Mér lýst ekki beint á það fyrirkomulag, mér finnst að þarna hljóti að þurfa að skoða miklu betur.
    Eftir að hafa hlustað á umræður og heyrt svör ráðherra við ýmsum spurningum sem hér hafa komið fram þá tel ég nokkuð ljóst að það þurfi lengri tíma til þess að slíkur tilflutningur geti átt sér stað. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við að það sem lagt er til grundvallar við kostnaðarmat sé núverandi ástand

mála. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við leggjum til grundvallar þau lög sem við erum að samþykkja og það kostnaðarmat verði lagt til grundvallar til þess að sveitarfélögin geti í raun tekið betur á málum en ríkið hefur gert hingað til. Ég er mjög óánægð með grunnskólann eins og hann er núna og það fyrst og fremst vegna þess að fjármagnið er of lítið til hans. Það er ekkert gagn að því að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna ef þau eiga ekki að geta tekið neitt betur á heldur en ríkið hefur gert hingað til og ég bendi hæstv. ráðherra á að sveitarfélögin standa sum hver mjög illa. Það eru auðvitað sum sveitarfélög sem standa mjög vel og ég vil benda á það að á umræddum landsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga sem haldinn var á Akureyri í ágúst og september sl. sagði sveitarstjórinn á Seltjarnarnesi að það væri ekkert því til fyrirstöðu að það sveitarfélag tæki yfir grunnskólann þó það fengi ekkert fé. Þannig vilja sum sveitarfélög gjarnan taka við þessu þó þau fái ekkert fé í staðinn en þetta gildir auðvitað einungis um örfá sveitarfélög. Það getur vel verið að það séu nokkur en þau eru raunveruleg mjög fá, því miður. Það þarf að skoða þetta mjög vel til þess að við fáum ekki það ástand að aðstaða barna til náms verði mjög misjöfn eftir skólum. Það er eitt af því sem ég held að enginn vilji.
    Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég hef vissar efasemdir almennt um að rétt sé að flytja grunnskóla til sveitarfélaga, þ.e. hugmyndafræðilega. Ég hef vissar efasemdir um að það sé rétt að flytja starfsemi eins og grunnskólann þar sem við erum að reyna að tryggja það að allir þegnar þjóðfélagsins, öll börnin, fái sams konar aðstöðu til náms. Ég tel að þetta eigi að vera hlutverk ríkisins miklu frekar af því að þetta er þjónusta sem ekki getur verið mismunandi. Það er eitt af því sem er lögð mikil áhersla á í þessu frv. að það eigi að vera eftirlit með sveitarfélögunum og það eigi að gæta þess að nemendum sé ekki mismunað, t.d. með samræmingu, það er verið að tala um próf, það er verið að tala um að það sé eftirlit frá ráðuneytisins hálfu. Ekki endilega að allir séu nákvæmlega eins en það verður það ef við höfum samræmd próf eins og talað er um alveg frá 4. bekk þá hljótum við að hafa mjög svipaða kennslu alls staðar. Þess vegna getur þetta orðið til þess að við neyðum alla til þess að vera nákvæmlega eins sem út af fyrir sig getur verið nauðsynlegt en þó tel ég að skólar eigi að hafa nokkurt frelsi um það hvers konar menntun þeir veita nemendum en þó finnst mér að grunnskólinn eigi að vera nokkuð staðlaður og það sé frekar þegar komið er í framhaldsskóla sem rétt sé að hafa meiri sveigjanleika. Það er einmitt enn ein af ástæðunum fyrir því að ég set spurningarmerki við flutninginn að þegar um er að ræða að eitthvert stjórnsýslustig, eins og í þessu tilfelli sveitarfélögin, ber fjárhagslega ábyrgð á grunnskólanum en enga faglega ábyrgð. Ég er ekki sammála ráðherranum í því, eins og hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að þarna fari saman fagleg og fjárhagsleg ábyrgð vegna þess að mér finnst að í þessu frv. felist það að fagleg ábyrgð sé fyrst og fremst hjá menntmrn. og ég tel að það eigi að vera þannig. Ég er sammála því. En ég sé ekki að það sé mikil valddreifing í því fólgin að leyfa sveitarfélögunum að bera kostnað af starfi grunnskólanna en ekkert annað. Ég tel vera tvískinnung í þessu tvennu og sætti mig illa við að það skuli vera svo og þess vegna hef ég þessar efasemdir um að það eigi yfirleitt að vera að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Ég verð bara að viðurkenna það þó það virðist vera að það séu hér a.m.k. á Alþingi flestir því sammála að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna þá hef ég ekki séð þau rök enn sem sannfæra mig algjörlega um það. Ég vil taka það fram að ég hef ekki sett mig gegn því í sjálfu sér og ég tek það líka fram og vil ítreka það að það er ekki vegna þess að ég telji að ríkisvaldið hafi staðið sig svo vel varðandi grunnskólann að ég treysti því eitthvað betur að því er varðar að setja fé í grunnskólann en nú er ég bara að tala um þetta hreint hugmyndafræðilega hvert á að vera hlutverk ríkisvaldsins varðandi þegnana.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um einsetinn skóla, lengingu skólatíma, skólamáltíðir og fleira sem er mjög jákvætt og er auðvitað í gildandi lögum eins og margoft hefur komið fram en það hefur ekki verið framkvæmt eins og ég sagði áðan, það sýnir bara betur en nokkuð annað hversu forgangsröðun hefur verið röng í þjóðfélaginu. Það er auðvitað nauðsynlegt að breyta þessu. Auðvitað vonar maður alltaf að ef einhver breyting verður, eins og t.d. það að grunnskólinn fari til sveitarfélaganna, geti það hugsanlega orðið til þess að forgangsröðin breytist en ég er ekki endilega búin að sjá að það gerist. Því miður.
    Í 11. gr. frv. er talað um skólahverfi. Þar er m.a. talað um það að skólahverfi er sú eining sem stendur að einum grunnskóla eða fleiri þannig að með þessu móti geta skólahverfi verið mjög stór eins og t.d. í Reykjavík.
    Ég átta mig ekki alveg á því og vil spyrja ráðherrann að því hvers vegna ekki er gert ráð fyrir því í þessari grein að sveitarstjórn geti skipt einu sveitarfélagi upp í mörg skólahverfi. Ég var að reyna að lesa þessa grein með það í huga og átta mig ekki á af hverju eingöngu er gert ráð fyrir að skólahverfin geti stækkað, þ.e. að hvert skólahverfi geti innihaldið fleiri en einn grunnskóla en af hverju er ekki gert ráð fyrir heimild til þess að skipta þeim niður. Ég hefði talið mjög eðlilegt að sú heimild væri og sveitarfélögum væri raunverulega í sjálfsvald sett hversu stór einingin ætti að vera. Ég er ekki síst að hugsa um Reykjavík en þetta getur auðvitað gilt um önnur sveitarfélög líka þar sem um marga skóla er að ræða. Ég veit að það eru fleiri skólar í sveitarfélagi annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, bæði í Kópavogi, Hafnarfirði, Keflavík t.d. líka og á fleiri stöðum, Akureyri og víðar. Þannig að það gæti verið að sveitarstjórn kysi að skipta sveitarfélaginu upp í fleiri skólahverfi.
    Ég bendi á að bæði í 12. og 13. gr. og sjálfsagt fleiri greinum er miðað við að skólanefnd gegni veigamiklu hlutverki, m.a. á hún að sjá um að öll skólaskyld börn njóti lögboðinnar fræðslu o.s.frv. Þá eiga t.d. fulltrúar kennara og skólastjóra að sitja á skólanefndarfundum og þá sé ég ekki fyrir mér hvernig það

getur gerst nema þá að það sé eins og t.d. í Reykjavík að þá væri kannski einn eða tveir fulltrúar en skólarnir eru geysilega margir. Ég tel að öll rök mæli með því að þarna verði sett inn heimild til þess að skipta upp skólahverfum á sama hátt og það má sameina fleiri en eitt sveitarfélag, þ.e. skólahverfi í fleiri en einu sveitarfélagi.
    Ég á ósköp erfitt með að sjá það að frv. leiði til meiri fagmennsku. Ég sé ekki betur en gert sé ráð fyrir því að skólastjóri þurfi ekki að koma að ráðningu kennara. Það er að vísu ekki tekið beint á því hér en ég tel að það sé mjög mikilvægt að skólastjóri hafi þar eitthvað um að segja og það séu ekki eingöngu sveitarstjórnir sem ráði kennara því þá getur það leitt til þess að það verði meiri pólitík og minni fagmennska í spilinu þó það þurfi auðvitað ekki endilega að vera.
    Það kemur fram í frv. en það er greinilega ekki ljóst öllum sem hafa komið nálægt þessu máli að meiningin hafi verið að sveitarfélögunum væri ætlað að kosta námsgögn þar sem þessi rauða skýrsla gerir ráð fyrir því að Námsgagnastofnun útvegi nemendum í grunnskóla áfram námsgögn eins og verið hefur. Ég ætla ekki að fara nánar í það en þetta er það sem kemur fram í þessari skýrslu.
    Í frv. er bæði gert ráð fyrir innra og ytra eftirliti og er ekki nema gott eitt um það að segja. Ég átta mig ekki alveg á hvernig þetta á að fara fram, sérstaklega í minni skólum. Ég var að velta fyrir mér t.d. varðandi innra eftirlit sem ég tel, eins og ég segi, af hinu góða, hvort það sé reiknað inn í þessar kostnaðartölur. Þetta hlýtur að skipta máli, sérstaklega fyrir minni skóla þar sem fáir kennarar eru ef þeir eiga að fara að nota hluta af sínum tíma til að hafa eftirlit hver með öðrum ef við getum orðað það svo, hvort þetta taki ekki tíma af kennurum miðað við það að þetta frv. gerir ráð fyrir fjölgun kennsludaga. Ég átta mig ekki á hvernig þetta er hugsað og ég gat ekki séð það í þessum kostnaðarskýrslum hvort þetta er tekið með en það getur vel verið að það sé gert.
    Síðan velti ég því fyrir mér hvaða tæki menntmrn. gæti haft ef sveitarstjórn stendur ekki við lög, getur það ekki eða gerir það ekki. Menntmrn. gæti staðið frammi fyrir því að sveitarfélag gæti ekki framfylgt grunnskólalögum vegna þess að það vantaði fjármagn, faglega, að ekki væri áhugi á því, það væri ekki hægt að fá kennara eða það gæti komið upp sú staða að það væri ekki hægt. Hvaða úrræði hefur menntmrn. til þess raunverulega að tryggja það að nemendur fái þá kennslu sem þeim ber samkvæmt lögum?
    Það er ekki langt síðan það var pistill í útvarpinu frá Finnlandi þar sem talað var um að í sumum skólum í Finnlandi væri ástandið orðið þannig að það væru engir kennarar og börnin sætu ein í skólanum í langan tíma. Þetta er auðvitað eitthvað sem við viljum alls ekki sjá hérna og þess vegna velti ég fyrir mér hvaða úrræða menntmrh. sér fyrir sér að menntmrn. gæti gripið til til þess að taka á slíku.
    Hér hefur verið rætt aðeins um dönsku- og enskukennslu þó það komi ekki beint fram í þessu frv. heldur er það þessi skýrsla sem hér hefur verið vitnað til. Ég hef ekki enn þá heyrt þau rök sem mæla með því að það verði fyrr byrjað að kenna ensku heldur en dönsku, þ.e. dönskunni verði ýtt aftur fyrir. Ég heyrði það úr umræðum fyrr á þinginu að ein af rökum hæstv. menntmrh. væru að það væri ekki nógu góð kennsla í dönsku. Það væru ekki fagkennarar í dönsku í grunnskóla. Mér gafst ekki tækifæri til að tala nema einu sinni þá þannig að ég kom því ekki beinlínis að að mér finnst mjög merkilegt að heyra það að kennarar í dönsku séu eitthvað verri en kennarar í ensku. Ég hélt að dönskukennslan væri orðin mjög góð á Íslandi og það væru síst verri kennarar sem kenndu dönsku í grunnskólum heldur en ensku. Ég skora á hæstv. menntmrh. að fara ekki að hrapa að því að breyta þessari röð á því hvaða erlent tungumál er fyrst kennt í grunnskólanum.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri en ég tel að þetta mál sé þannig úr garði gert að það séu svo margir lausir endar að það sé borin von, a.m.k. miðað við svör ráðherrans að frv. geti orðið að lögum á þessu þingi. Það er greinilegt að undirbúningsvinnan er miklu styttra á veg komin heldur en mig grunaði. Ég hélt satt best að segja að hér handan við hornið væri frv. sem tæki bæði á réttindamálum kennara og það væri verið að vinna að undirbúningi að taka á tekjustofnunum en það er greinilegt að ráðherrann og hans fólk, hans hjálparmenn, eiga mjög margt eftir og það virðist vera langt í land að þetta frv. verði að lögum.