Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 22:11:16 (1030)


[22:11]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Hér er verið að ræða um ákaflega mikilvægan málaflokk sem varðar framtíð þjóðarinnar og það er ekki nema eðlilegt að það taki nokkra stund að ræða þetta frv. við 1. umr. Raunar hafa nú þegar orðið í þjóðfélaginu allmiklar umræður um þær hugmyndir sem hér eru settar fram í þessu frv. Mér hefur fundist nokkuð á það skorta að menn nálguðust þetta viðfangsefni með réttu hugarfari. Ég tel að það eigi að nálgast þetta viðfangsefni fyrst og fremst með nemendur í huga og hagsmuni nemenda. Það hafa aðrir hagsmunir verið leiðandi í umræðunni til þessa. Hagsmunir ríkisins eru náttúrlega hvatinn að öllum þessum tilflutningi. Auðvitað vill ríkið losna við amstur af grunnskólanum alfarið og sveitarfélögin eru fús að taka við grunnskólanum að því er manni virðist. Hagsmunir kennara hafa mjög mótað þessa umræðu en nemendurnar hafa því miður að verulegu leyti gleymst. Það er ákaflega mikilvægt að hafa góðan grunnskóla, ekki bara grunnskóla sem ríkið sleppur við fyrirhöfn af og ekki bara grunnskóla sem er ódýr fyrir sveitarfélögin eða sem gefur kennurum góð starfskjör og há laun. Það er meginmálið að við höfum jafnrétti til náms og getum boðið upp á gott nám í grunnskóla.
    Nú er það svo að sveitarfélögin sem hér eru að taka yfir grunnskólann eða ætlast er til að taki yfir grunnskólann eru mjög misjafnlega í stakk búin til að takast þetta verkefni á hendur. Þessi aðstöðumunur gerir það að verkum að maður stingur dálítið við fótum og spyr sjálfan sig hvort þetta fjarlægi okkur jafnréttinu til náms. Það eru ákaflega mismunandi viðhorf og mismunandi vilji sveitarstjórnarmanna og skólanefndarmanna og misjöfn geta. Ég óttast það persónulega að bilið milli góðra skóla og lakra skóla breikki eftir að sveitarfélögin hafa tekið alfarið við þeim.
    Þetta frv. var undirbúið af nefnd sem hæstv. menntmrh. skipaði. Þetta var stór nefnd, í henni voru 18 menn. Einn þeirra var krati, hinir held ég að hafi verið sjálfstæðismenn, a.m.k. þeir sem ég veit um pólitískar skoðanir hjá þannig að hæstv. menntmrh. lagði sig ekki fram um að mynda neina pólitíska samstöðu um þetta mál þegar hann ýtti því úr höfn. Nú tel ég t.d. að fjölmargir framsóknarmenn séu prýðilega hæfir til að koma að þessu verkefni. Ég nefni til hv. 2. þm. Vestf., fræðslustjóra á Ísafirði, sem mér hefði fundist vel hæfur til að taka þátt í þessu nefndarstarfi. Svo gæti ég talið marga fleiri flokksbræður mína sem ég hefði vel treyst til að koma að þessu verki. En hæstv. menntmrh. kaus ekki að leita í okkar raðir til að fá aðstoð við samningu frv. Þetta frv. liggur hér fyrir og er að mörgu leyti metnaðarfullt frv. Það hefur ýmsa kosti. Það er reyndar auðvelt að setja sveitarfélögunum háleit markmið og kröfuhörð, fyrir ríkisvald sem er að losa sig við grunnskólann. Nú höfum við búið við allgóð grunnskólalög sem ágæt pólitísk eining var um á sínum tíma og ríkið hefur ekki treyst sér til að framkvæma þessi lög. Nú allt í einu þegar ríkisvaldið er að losa sig við grunnskólann að fullu þá er hægt að krefjast þess að staðið verði við þessi háleitu markmið. Menntmrn. ætlar að vísu að hafa eftirlit með grunnskólanum í framtíðinni en menntmrn. treysti sér samt ekki til að framkvæma lögin meðan grunnskólinn var í höndum ríkisins.
    Ég tel að það eigi ekki að afgreiða þetta mál í neinu flaustri og það séu allt of margir lausir endar til að reikna með því að þetta frv. afgreiðist að fullu á þessu þingi. Ríkið vill losna, jú við vitum það. Sveitarfélögin vilja taka við, það er á hreinu, en fjármálin eru ekki á hreinu. Það mun koma í ljós að sveitarfélögunum verður það kostnaðarsamara að uppfylla þau markmið sem sett eru hér í frv. heldur en gert hefur verið ráð fyrir. Ég nefni einsetninguna, ég nefni skólamáltíðir og fleira og fleira sem fyrirskipað er hér í frv. og hefur að einhverju leyti verið tekið inn í þá kostnaðarútreikninga sem unnir hafa verið en mín spá er sú að allt verði þetta dýrara fyrir sveitarfélögin heldur en gert hefur verið ráð fyrir í dag. Hæstv. menntmrh. hefur meira að segja gefið kennurum undir fótinn með það að nú eigi þeir stöðu til sérstakra kauphækkana þegar þeir hafi fengið sveitarfélögin sem viðsemjendur. Ég veit ekki hvað sú kauphækkun kann að verða mikil en vafalaust leita kennarar eftir henni.
    Mér finnst að undirbúningi málsins sé að mörgu leyti ábótavant og ekki hafi verið unnið nægilega vel að málinu í sumar. Lífeyrisréttindi kennara t.d., svo ég nefni eitt atriði, eru nær óleysanleg. Þetta er ákaflega viðkvæmt mál og mér hefur ekki verið sagt frá þeirri lausn sem væri innan seilingar. Ég sé ekki betur en fræðsluskrifstofurnar séu alveg í vindinum, sérskólarnir eru í vindinum, skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði eru óafgreiddar, þær eru í vindinum. Það er reyndar þakklætisvert hjá hæstv. menntmrh. að taka út tíunda mánuðinn eins og hann gerði frá áliti menntastefnunefndar. Hann hefur tekið eftir því sem sagt hefur verið við hann og skilið þau andmæli sem sú hugmynd hlaut. Ég tel að það sé hægt að nýta þessa níu mánuði betur en gert hefur verið. Og mér finnst alveg óþolandi fyrirkomulag sem tíðkast hefur með starfsdaga kennara, endalausa kennarafundi og börnin send heim eða látin ganga sjálfala, það er fyrirkomulag sem þarf að breyta. Enn fremur er skynsamlegt að stíla upp á endurmenntun og réttindanám leiðbeinenda meira á sumrin en gert hefur verið því allt truflar það skólastarf sárlega þegar svo ber undir. Ég held að kennararnir geti notað ágústmánuð í starfsdaga og kennarafundi ef þeir vilja og þurfa á að halda og látið krakkana í friði þessa þrjá sumarmánuði sem eru síst of langir.
    Ég er fylgjandi samræmdum prófum vegna þess að ég tel að þau séu öryggisventill og ákveðin svipa á skólann. Ég sé ekki ástæðu til þeirrar leyndar sem á að vera á prófum samkvæmt þessu frv. Ég held að við eigum ekki að líða fúsk og það sé alveg eins gott að það komi í ljós við og við hvar nemendur eru á vegi staddir. Það komi í ljós við og við hvernig skólinn hefur sinnt sínu hlutverki. Ég held að það sé til bóta í þessu frv. frá núgildandi skipulagi að hlutur foreldra er aukinn og áhrif þeirra og ég fagna því. Ég tel að það sé skynsamlegt í þessu frv. að meta þátttöku í atvinnulífi nokkurs. Það er hluti menntunar að kynnast atvinnulífinu og það sem dýrmætast lærist í skólanum er að nemendur læri að vinna. Það geta þeir náttúrlega gert víðar en í skóla og fengið með því fjölbreyttari menntun.
    Að vísu hefur þetta starfsnám bjargast af sjálfu sér fram á síðustu ár. Íslenskir skólanemendur hafa tíðkað að taka til hendinni að sumrinu og flestir hafa fram undir þetta stundað einhverja vinnu að sumrinu, sem ég held að sem mjög mikilvægt, en allt verður þetta önugra þegar vinnumarkaðurinn þrengist.
    Nokkrir hv. ræðumenn hér í dag hafa verið að hneykslast á að í frv. sé minnst á kristilegt siðgæði. Ég er nú ekki svo viðkvæmur að ég geri það. Mér finnst það allt í lagi að í þessu frv. sé minnst á kristilegt siðgæði. Það er ekkert verið að hnýta í múslima eða aðra trúflokka þó minnst sé á kristilegt siðgæði. Ég held að þau meginviðhorf sem fyrir mér eru kristilegt siðgæði eigi alveg rétt á sér í íslensku þjóðfélagi, þ.e. að menn eigi ekki að ljúga, ekki stela, ekki myrða, ekki drýgja hór eða girnast eigur náunga síns, í stuttu máli. Móse setti þetta fram á skilmerkilegan hátt á sínum tíma og ég held að það sé allt í lagi að við höfum þau grundvallarviðhorf í heiðri og í því felist ekki að endilega sé verið að krefjast þess að nemendur játi evangelíska lúterska trú. Ég vonast eftir að herra forseti sé mér sammála um þetta atriði.
    Ég tel sem sagt að það sé ýmislegt jákvætt í þessu frv. en ég tel jafnframt að hv. menntmn. þurfi að vanda mjög meðferð þessa máls og það sé ekki sæmandi að afgreiða jafnmikilvægt mál í neinu flaustri. Það verður að ganga frá fjármálahlið frv., þ.e. samskiptunum á milli ríkis og sveitarfélaga, það verður að ganga frá kjarasamningunum og það verður að ganga frá lífeyrisréttindunum áður en hægt er að flytja grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Mér sýnist að það sé alveg fyrirsjáanlegt að það verði að breyta gildistökuákvæðinu í 57. gr. Það er alveg áreiðanlega forhlaupin tíð að ætlast til að þessi yfirfærsla taki gildi 1. ágúst á næsta ári. Það er hugsanlegt ef vel er unnið á næsta ári að þá takist að klára þetta mál og óhætt væri að fastsetja t.d. 1. jan. 1996 en e.t.v. ætti beinlínis að fresta því um óákveðinn tíma. Hins vegar er skynsamlegt að lögleiða ákveðinn hluta frv. og kannski mestallt frv. þannig að menn viti að hverju þeir ganga og afgreiða frv. með einhverjum hætti með sveigjanlegri gildistökugrein, þannig að gildistaka ákvarðaðist af Alþingi þegar allir endar hafa verið hnýttir og yfirfærslan færi þá fram.
    Hæstv. menntmrh. hvatti til samstöðu um þetta mál. Ég geri það líka og tel að það sé hægt að ná samstöðu en hún hlýtur að byggjast á því að menn gefi sér nægan tíma og hluti af því væri að fresta gildistökunni þannig að hægt sé að ganga sómasamlega frá þessu máli.
    Herra forseti, ég læt máli mínu lokið.