Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 22:27:30 (1031)

[22:27]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Í þessu frv. til laga um grunnskóla eru að minni hyggju þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi eru þar ákvæði um einsetinn skóla og lengdan skóladag. Í öðru lagi eru þar ákvæði um níu mánaða starfstíma nemenda og í þriðja lagi eru þar ákvæði um flutning alls rekstrarkostnaðar grunnskólanna til sveitarfélaganna.
    Um fyrsta atriðið er það að segja að það er í raun og veru endurtekning á því sem ákveðið var með lögum vorið 1991 að grunnskólinn yrði einsetinn og skóladagurinn lengdur þannig að hægt væri að koma á samfelldum skóladegi. Að því var stefnt í lögunum frá 1991 að um yrði að ræða lengda viðveru utan daglegs kennslutíma og vikulegur kennslustundafjöldi væri aukinn. Af þessu hefur hins vegar ekki orðið og þessum ákvæðum var slegið á frest á sínum tíma. Aftur á móti eru það nýmæli sem felast í þessu frv. þegar lagt er til að hér sé komið á níu mánaða raunverulegum starfstíma nemenda með kennsludagana að lágmarki 172. Ég tel að þarna sé um jákvæð nýmæli að ræða sem okkur beri eindregið að styðja.
    Þegar hugað er að því hver kostnaður sé við þessa breytingu þá er það áætlað samkvæmt frv. að kostnaðaraukningin sé á hverju árum 678--909 millj. kr. Nú er það svo að á starfstíma núv. ríkisstjórnar

hefur ekki verið um mikla aukningu framlaga að ræða til skólamála. Þvert á móti hafa útgjöld mjög verið skorin niður með vísan til þröngrar stöðu ríkissjóðs. Samanlagður niðurskurður á framlögum ríkisins til menntamála árin 1991--1994 mun nema liðlega 1.600 millj. kr.
    Eins og ég hef þegar rakið voru samþykkt ný grunnskólalög vorið 1991. Þá var stefnt að samfelldum skóladegi nemenda og einsetnum skóla eins og reyndar eru ákvæði um í þessu frv. og mikil samstaða um að koma því fram. Þetta eru atriði sem foreldrar hafa lengi lagt mikla áherslu á. Viðvera nemenda er nú mjög breytileg, börnin eru að koma heim úr skólanum á ýmsum tíma og það skapar foreldrunum margvíslega erfiðleika. Oft eiga foreldrar kost á máltíð í vinnu sinni en þeir neyðast til þess að fara heim og gefa börnum sínum að borða.
    Í frv. eins og það var lagt fram á árinu 1991 var gert ráð fyrir því að jafna kennslutíma barnanna en eins og það var afgreitt frá Alþingi var ekki um algjöra jöfnun að ræða en verulega aukningu á kennslutíma yngri barnanna. Þar var gert ráð fyrir skólamáltíðum sem kæmu til framkvæmda á næstu þremur árum ásamt einsetnum skóla sem kæmi til framkvæmda á 10 árum. Þetta hefði gjörbreytt aðstöðu foreldra, að sjálfsögðu fyrst og fremst í þéttbýli því það má segja að í sveitum sé aðstaðan nokkur önnur. Þar er gjarnan um skólaakstur að ræða og þar af leiðandi ekki alveg sama þörfin eins og er í þéttbýlinu.
    En það fór svo að þessum áformum var stungið undir stól. Því til viðbótar, eins og ég hef þegar rakið, hefur verið þrengt mjög verulega að skólastarfinu sem nemur um 1.600 millj. kr. á liðnum þremur árum. Það hlýtur því að vera spurt: Er þetta raunveruleg stefnumótun eða einungis kosningaáróður sem hér er fluttur í frumvarpsformi? Er það trúverðugt eftir að hæstv. menntmrh. Sjálfstfl. og hæstv. fjmrh. Sjálfstfl. hafa staðið að því að skera mjög verulega niður á undanförnum þremur árum að þeir séu núna að snúa svona geysilega við blaðinu að þeir ætli raunverulega að bæta upp undir einum milljarði við á hverju ári þegar þetta frv. kemur til framkvæmda? Eða hvaða upphæð er Alþingi reiðubúið að bæta við skólakostnað í landinu á komandi árum? Í raun og veru er það samviskuspurning til allra stjórnmálamanna og allra flokka sem þeir ættu fyrst að svara. Hvað er raunhæft í þessum efnum og hvað ætla menn sér raunverulega þegar kosningar eru afstaðnar?
    Ég tel að ef hæstv. menntmrh. væri að setja þetta frv. fram í fullri alvöru og ætlaði sér að koma því til framkvæmda á næsta ári þá hefði hann gert ráðstafanir til þess að í fjárlagafrv. fyrir árið 1995 væru upphæðir sem að því stefndu að frv. gæti komið til framkvæmda sem lög haustið 1995. Það er að vísu miklu minni upphæð sem til þess þyrfti en þarf svo aftur á árinu 1996 en það hefði þó verið fyrsta skrefið. En eins og hæstv. menntmrh. veit sjálfur þá er ekki um það að ræða. Það er ekki ein einasta króna í núverandi fjárlagafrv. ætluð í þessu skyni og hæstv. menntmrh. var meira að segja að upplýsa okkur um það áðan að hann hefði ekki hug á því að setja í fjárlagafrv. eina einustu krónu til viðbótar í þessu skyni. Ef þetta er rangt skilið þá vildi ég gjarnan að hæstv. menntmrh. leiðrétti mig en þannig skildi ég hann áðan. Hann var hins vegar að tala um að það væri alltaf möguleiki á því að setja fjáraukalög og bæta við síðar á árinu. En væri ekki hreinlegra að gera ráð fyrir þessu í því fjárlagafrv. sem á að fara að afgreiða í þinginu? Það er mín skoðun.
    Annað meginefni þessa frv. er svo flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna, þ.e. alls rekstrarkostnaðar grunnskólans. Þar er um að ræða að frv. sem hér liggur fyrir er fyrst og fremst partur af miklu stærra máli. Það sem hér stendur er ekki eitt og sér nægilegt til þess að af þessu geti orðið heldur þarf margt fleira að koma til. Eins og kom fram í orðaskiptum okkar ráðherra fyrr í dag þá þarf til þess kjarasamninga við kennara, það þarf samning við sveitarfélögin og loks löggjöf um tekjutilfærslu.
    Ég tel að í þessum efnum megi ekki flaustra neinu af og harma það að hæstv. menntmrh. hefur ekki lokið þeim undirbúningi sem þarf til þess að þetta geti orðið að veruleika. Málið er í dag hálfkarað og mörgum spurningum ósvarað. Við eigum eftir að sjá frv. um starfstengd réttindi kennara. Það er ekki komið í þingið og veit enginn hvernig það lítur út. Ég fékk hins vegar í hendur í dag skýrslu frá nefnd sem fjallaði um starfstengd réttindi kennara. Mér finnst að vísu furðulegt, eins og fleiri þingmönnum, að þessi skýrsla skyldi liggja í skúffu hæstv. ráðherra mjög lengi án þess að þingmenn fengju að sjá hana. Auðvitað væri það ekki annað en eðlileg vinnubrögð í þinginu að við hv. þm. gætum átt þess kost að lesa efni skýrslunnar og kynna okkur hana áður en þessi umræða fer fram. Ég átti þess ekki kost nema seinasta klukkutímann áður en umræðan hófst og hefði talið miklu eðlilegra að þessar skýrslur sem fyrir lágu hefðu verið birtar sem fylgiskjöl með þessu frv. Það hefði verið hægur leikur að gera það og eina sem var viðunandi fyrir þingið.
    En hvað sem um það er að segja því það heyrir liðinni tíð þá er ljóst af þessum skýrslum að það er mikil vinna óunnin og margt óljóst, erfitt að meta hvort vandamálin hafa raunverulega verið leyst hvað varðar starfstengd réttindi kennara eða ekki. Ég sé t.d. ekki alveg í hendi mér hvernig hæstv. ráðherra ætlar að leysa þann vanda að stór hluti kennara er æviráðinn. Þarna er verið að skipta um vinnuveitanda og alls ekki ljóst hvernig á því máli verði haldið, ekki einu sinni af þeirri skýrslu sem fyrir liggur.
    Eins er það með lífeyrisréttindin sem eru bersýnilega stórkostlegt vandamál. Í þessari skýrslu er mælt með því að stofnuð verði sérdeild innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og kennarar eigi áframhaldandi aðgang að þeim lífeyrissjóði. Hins vegar er alveg ljóst að það er sama hvernig í það mál er farið að það skapast mikil vandamál sem er alls ekki auðvelt að sjá hvernig leyst verði. Menn hafa nefnt biðlaunarétt kennara og ég heyrði að hæstv. ráðherra gerði lítið úr því vandamáli og fannst það nokkuð háar

upphæðir sem þar höfðu verið nefndar. Satt best að segja spurði ég um þetta mál á sl. vetri og fékk svör frá hæstv. ráðherra en þar treystu menn sér samt ekki til að reikna út um hvaða upphæð væri þarna að ræða. Ég bað um að fá að vita hvaða upphæð væri að ræða en hæstv. ráðherra og starfsmenn hans treystu sér ekki til að svara mér. ( Menntmrh.: Reiknaði ekki þingmaðurinn það sjálfur?) Nei, hann gerði tilraun til að giska á það, hann gat ekkert annað gert. Ég gerði tilraun til að giska á það og það var auðvitað ekkert annað en hrein ágiskun. En ef maður miðar við það t.d. að þetta eigi ekki við um nema annan hvern kennara og ef maður miðar við að af þeim sem þetta á við gæti helmingurinn verið með sex mánaða biðlaunarétt og hinn helmingurinn tólf mánaða biðlaunarétt þá fær maður út 1 milljarð eða svo. En þetta er hrein ágiskun sem ekkert mark er takandi á.
    Það er alveg sama hvort við erum að tala um 1 milljarð eða 2 milljarða eða 3 milljarða, eins og einhver var að nefna í dag og er sennilega allt of há tala, þetta eru gríðarlegar upphæðir. Og þó er það ekki heildarupphæðin sem skiptir öllu máli að minni hyggju heldur hitt að það er geysilegur vandi fyrir litla rekstraraðila að standa undir ef einstaklingar, einn eða fleiri, þurfa að nýta sér slíkan biðlaunarétt. Það getur orðið þungt í skauti fyrir smávaxna rekstraraðila og þar á ég við þau sveitarfélög sem í hlut eiga. Nú getur vel verið að menn ætli að leysa þetta á einhverjum sameiginlegum grunni og þá er það vel en þarna eru vandamál sem engin grein hefur verið gerð fyrir eða reynt að útskýra hvernig verði leyst.
    Eins og ég hef rakið er margt óljóst í þessu máli. Þar á meðal það að nýir kjarasamningar liggja ekki fyrir. Það er alveg ljóst að þegar að kjarasamningunum kemur þá eru það ekki aðeins öll þessi atriði sem ég hef verið að nefna og tína til sem þarf að leysa úr á þann hátt að kennarar geti við unað. Það bætast við námsleyfin, endurmenntunarrétturinn og síðan bara þetta einfalda stóra spursmál: Treysta sveitarfélögin sér til þess að vera einn samningsaðili að samningum við kennarastéttina og verða þau það í reynd eða kemur upp einhver ágreiningur milli þeirra? Kannski milli stórra sveitarfélaga og smárra eða milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur sveitarfélaganna úti á landi? Hver tryggir það að þarna verði um að ræða einn samningsaðila? Það er mér ekki ljóst. Ég efast um að það verði nokkurn tíma hægt að tryggja það í raun og veru þó sveitarfélögin hafi kannski í svipinn fullan hug á því.
    Eins og hér hefur komið fram hjá mér þá er greinilegt að mikil vinna er óunnin. Mér fannst einkar fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra segja það í dag að hann ætti ekki von á því að þetta frv. yrði afgreitt fyrr en undir þinglok sem eru seinni partinn í febrúar. Ég vil ítreka það að þar með staðfesti hann það sem haldið hefur verið fram að það er útilokað með öllu að þessu máli verði komið í heila höfn fyrir 1. ágúst. Það er ljóst. Það er hins vegar möguleiki á að það verði komið eitthvað áleiðis, eins og hann lýsti, á þann hátt að frv. verði samþykkt, síðan verði farið í kjarasamningagerð sem standi eitthvað fram á vorið og gerðir samningar við sveitarfélögin með vorinu, kannski af nýjum ráðherra, en ríkið mun ekki gera ráð fyrir þessari upphæð í fjárlögum. Þar af leiðandi er engin vissa fyrir því að það verði gert á árinu enda sennilega skipt um ríkisstjórn eftir að samningar við sveitarfélögin hafa verið gerðir. Sveitarfélögin munu heldur ekki gera ráð fyrir þessum kostnaði og þar af leiðandi allt í óvissu með að þau treysti sér til að taka þetta verkefni að sér fyrir 1. ágúst. Reyndar liggur það hreinlega fyrir sem skilyrði af þeirra hálfu að samningar hafi verið gerðir fyrir áramót og sjá þá allir hversu langt við erum frá því að endar geti náð saman á því ári sem fer í hönd.
    Ég vil hins vegar taka fram að þó ég sé að draga þarna fram að hæstv. ráðherra sé að tala þarna um óraunhæfa hluti, þá er það ekki vegna þess að ég óski endilega eftir því að þessir hlutir gangi ekki upp. Ég tel að það sé á margan hátt jákvætt að flytja rekstur grunnskólanna til sveitarfélaganna. Það hefur sína kosti. Það hefur t.d. einfaldlega þann kost að þá er ákvörðunarvaldið miklu nær fólkinu í landinu og það eru miklu meiri möguleikar á því að foreldrarnir geti haft þau áhrif á skólastarfið sem þeir þurfa raunverulega að hafa. Ég er einn af þeim sem telja það löngu úrelt að menntmrh., hvort sem hann ber nafnið Ólafur Einarsson eða eitthvað allt annað, sé að skipa kennara í hundruða og jafnvel þúsunda tali á hverju ári. Ég tel að slíkt ætti fyrir löngu að hafa heyrt liðinni tíð til, enda minnist ég þess með lítilli ánægju þegar ég sjálfur stóð í því á hverju hausti að skrifa undir skipunar- og setningarbréf kennara. Þau þurfti nú reyndar að skrifa í þríriti á þeirri tíð vegna þess að það var engin tölva til þá og það tók mig oft margar vikur að koma öllum þessum undirskriftum á pappírana á sínum tíma. Auðvitað er þetta algerlega úrelt kerfi, að miðstýra þannig setningu kennara um land allt og miklu betra að færa þetta heim í héruð, miklu betra. En sá aðili sem tekur við þarf að vera fær til þess og það er stóra spurningin hvort þeir aðilar sem ætlað er að taka við rekstri grunnskólanna séu örugglega til þess hæfir.
    Nú má enginn skilja það svo að ég sé að vantreysta forustumönnum sveitarfélaganna, sem yfirleitt eru miklir öndvegismenn og valdir af fólkinu og ábyrgðarfullir á allan hátt. En ég er þeirrar skoðunar að 50--200 manna sveitarfélög séu allt of smá eining til að taka við svo ábyrgðarmiklu hlutverki, allt of smá eining. Við vitum að meiri hluti sveitarfélaganna sem eru að fá þetta í hendur, mikill meiri hluti þeirra, er af stærðargráðunni 50--200 íbúar. Það er alveg ljóst að þetta á eftir að valda mörgum þeirra talsverðum vandkvæðum og vandmálum að taka við þessu, vegna þess að þarna er um svo mikinn og dýran og stóran rekstur að ræða að einingarnar sem við þessu taka eru einfaldlega of smáar.
    Ég verð auðvitað að viðurkenna að sameining sveitarfélag tókst nú ekki sérlega vel á sl. ári og sveitarfélög hringinn í kringum landið neituðu að sameinast öðrum. Þannig að við sitjum uppi með allar þessar smáu einingar og það er ekki sök hæstv. menntmrh. að svo er og heldur ekki sök hæstv. félmrh.,

hvorki fyrrv. eða núv. hæstv. félmrh. En við verðum hins vegar að viðurkenna að svona eru hlutirnir, þetta eru svona veikburða og smáar einingar. Spurningin er, finnst mér, hvort við séum örugglega á réttri braut að vera að afhenda þessi völd og þessa ábyrgð í hendur þessum smáu sveitarfélögum. Ég dreg það í efa. Ég hefði talið koma til greina að afhenda þessi völd samtökum sveitarfélaga á stærri svæðum. Ég hefði t.d. talið að hvert fræðsluumdæmi eins og það er í dag, þ.e. í hverju kjördæmi fyrir sig, hefði getað verið ágæt eining til þess að standa að rekstri skólanna og á margan hátt hefði mér fundist mikið ákjósanlegra að slíkur aðili hefði fengið það fjármagn sem til þarf til að reka skólana og skipuleggja það í gegnum fræðsluskrifstofu viðkomandi umdæmis með þeirri þekkingu sem þar hefur hlaðist upp og auðvitað í samstarfi við sveitarfélögin í viðkomandi fræðsluumdæmi.
    Önnur leið væri sú að fela þetta héraðsnefndunum, sem eru í dag ágætur vettvangur fyrir samstarf sveitarfélaga á ákveðnum svæðum. Ég þekki það t.d. í mínu kjördæmi þar sem eru þrjár héraðsnefndir og auk þess einn kaupstaður sem er utan héraðsnefnda, þ.e. héraðsnefnd Skagfirðinga, héraðsnefnd Austur-Húnvetninga og héraðsnefnd Vestur-Húnvetninga og síðan Siglufjörður. Allt væru þetta góðar einingar, mjög góðar einingar, til að standa undir rekstri skóla og skipuleggja skóla á viðkomandi svæðum. Ég vek á því athygli í þessu samhengi að hvað framhaldsskólann varðar þá er það nú þannig að það eru samtök sveitarfélaga sem standa að þeim rekstri. Það eru ekki sveitarfélögin hvert fyrir sig heldur eru það í mörgum tilvikum í öllu falli og sérstaklega er það úti um land, samtök sveitarfélaga. Ég nefni enn dæmi úr mínu kjördæmi, að þar eru það héraðsnefndir og svo aftur Siglufjarðarkaupstaður sem standa að rekstrinum á Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og það hefur gefist ákaflega vel. Ég segi, og nú er ég kannski ekki að tala bara um menntamálin, grunnskólann, ég er að tala um skipulagið í heild, stjórnkerfið. Ég held að það hefði verið góður uppeldis- og þróunarvettvangur fyrir sveitarfélögin í landinu ef t.d. héraðsnefndirnar hefðu fengið þetta verkefni því þá hefðu þær laðað sveitarfélögin til samstarfs og það hefði síðan orðið góður grundvöllur að stækkun sveitarfélaganna eða sameiningu þeirra á síðara stigi.
    Samstarf af þessu tagi, t.d. um rekstur framhaldsskólans, um rekstur grunnskólans og þá kannski seinna meir um samstarf á fleiri sviðum, þetta er það sem við þurfum til að þróun í sveitarstjórnarmálum geti orðið með eðlilegum hætti. Sveitarstjórnarmennirnir þurfa að læra að vinna saman og ég held að þeir viðurkenni það sjálfir að þá vantar töluvert á hvað það varðar að þeir hafi þróað með sér samstarf og samvinnu. Þarna væri einmitt kjörið verkefni til þess. Nú segja menn kannski að sveitarstjórnarmenn í landinu geti bara ákveðið þetta sjálfir og gert þetta sjálfir og það þurfi ekkert að huga neitt að því þegar verið er að setja grunnskólalög hver við þessu taki, þeir verði bara að hafa þetta eins og þeir vilji sjálfir. Ég er ekki þessarar skoðunar. Ég stend frammi fyrir þeirri staðreynd að ríkisvaldið gerði tilraun til þess fyrir einu ári síðan að sameina sveitarfélög og það mistókst hrapallega og það hvílir á okkur skylda að hugleiða hvernig við getum bætt þar úr á komandi árum og þá tel ég að rekstur grunnskólans hefði einmitt verið ágætt viðfangsefni til að laða sveitarfélögin í landinu til samvinnu.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég ítreka það sem ég hef þegar sagt, að það er gífurleg vinna óunnin í sambandi við þetta mál í heild sinni. Ég er lítið spenntur fyrir því að þessi vinna verði unnin í tímahraki og síst af öllu held ég að það sé góður tími til að vinna hana svona í miðri kosningabaráttunni. Ég held að hvorki hæstv. menntmrh. né öðrum ráðherrum muni gefast mikið tóm til þess að standa í þeim flóknu samningaviðræðum sem þeir þurfa að standa í svona rétt á milli þess sem þeir sækja kosningafundi. Þar af leiðandi sýnist mér að það sé nokkuð sjálfgefið að þetta mál vinnst ekki á komandi vetri og það er betra að gefa sér þá gott tóm til að finna á því góða lausn.
    Ég les það í 57. gr. frv., lokamálsgrein, að til þess að mismuna þessu máli fram með einum eða öðrum hætti þá sé hægt að grípa til þess ráðs eins og segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Menntamálaráðherra ákveður í reglugerð hvaða ákvæði laga þessara koma til framkvæmda fyrir 1. ágúst 1995.``
    Þetta þykir mér nú dálítið furðuleg lagagrein. Ég trúi því varla að sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra séu mjög hrifin af þessari grein. Að menntmrh. geti bara ákveðið það hvað af þessum kostnaði lendi á sveitarfélögunum og hvað ekki og það skipti í raun og veru engu máli hvaða ákvarðanir hafi verið teknar um það í Alþingi því að menntmrh. virðist geta ákveðið það með reglugerð hvað komi til framkvæmda og hvernig. Ég held að þessi furðulega grein hljóti að vera tilkomin einmitt vegna þess tímahraks sem málið allt er í, að það er greinilega ætlunin að gefa hæstv. menntmrh. nokkurs konar einræðisvald til að kippa þessu í liðinn á lokadögum sínum, rétt fyrir kosningar, ef hann verður þá búinn að semja við sveitarfélögin. En ég trúi því ekki að sveitarfélögin muni una því að fá yfir sig slíkt ákvæði vegna þess öryggisleysis sem því fylgir og vil því vara við því. Ég tel að úr því sem komið er þá væri það hyggilegast að hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir því að það yrði skipuð milliþinganefnd til þess að undirbúa þetta mál í heild sinni og að við kæmum þá að þessu máli næsta haust á þann hátt að það væri hægt að leggja allan pakkann fyrir Alþingi og afgreiða hann þá allan á einu bretti í október á næsta ári þannig að það sé þá hægt að gera ráð fyrir þessu í fjárlögum ársins 1996. Því að ætla að afgreiða þetta svona í einhverjum slitrum á næstu mánuðum, utan starfstíma Alþingis, á meðan kosningabaráttan stendur sem hæst, það tel ég ekki boðleg vinnubrögð.