Sjúkraliðar og greiðsla launa í vinnudeilum

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 13:43:22 (1043)


[13:43]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég held að þarna sé um stefnu að ræða sem fjmrn. þarf að endurskoða. Það er alveg ljóst að þegar svona er staðið að málum þá hleypir það illu blóði í það fólk sem stendur í kjarasamningum. Eftir því sem ég best veit hafa sjúkraliðar leitað eftir samningum við ríkisvaldið svo mánuðum skiptir án þess að fá svör eða án þess að fá viðbrögð. Þeir hafa verið lengi án kjarasamninga. En mergurinn málsins er þessi að það er mjög óeðlilegt að refsa fólki fyrir fram með þessum hætti áður en verkfall hefst. Það er auðvelt mál að gera þetta upp eftir á og ég skora á hæstv. fjmrh. að breyta þessari vinnureglu. Mér finnst þetta vera enn eitt dæmið um hin slæmu samskipti sem eiga sér stað milli ríkisvaldsins og starfsmanna þess. Við höfum fengið allt of mörg dæmi um það hér á undanförnum árum að verkföll hafa staðið svo vikum skiptir án þess að lausn hafi fundist. Sjúkraliðar eru mjög mikilvæg stétt og það mun skapast afar erfitt ástand á sjúkrahúsunum ef þessi deila leysist ekki og ég skora á hæstv. fjmrh. að ganga nú í það að ná samningum við sjúkraliða.