Sjúkraliðar og greiðsla launa í vinnudeilum

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 13:47:06 (1046)


[13:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég er með bréf frá fjmrn. undir höndum sem er dagsett 26. október og er skrifað til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva utan Reykjavíkur. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þeir sjúkraliðar sem eru í launuðu barnsburðar- eða námsleyfi á meðan á verkfalli stendur skulu halda föstum launum. Sama gildir um biðlaun og lausnalaun`` o.s.frv. ( KÁ: En svarið?) Svarar þetta spurningunni? Ef þetta svarar spurningunni getum við látið þetta detta niður en ég vara eindregið við því að verið sé að búa til vandamál sem ekki er til staðar og ég staðhæfi að farið sé nákvæmlega eins að af ríkisins hálfu með þetta verkfall eins og önnur verkföll sem hafa orðið hjá opinberum starfsmönnum. Ég vil enn fremur láta það koma fram að ríkið hefur sama háttinn á og t.d. bæjarfélög, þar á meðal Reykjavíkurborg, sem hafa sjúkraliða í sinni vinnu. Ég held að það sé ekkert öðruvísi farið að hjá ríkinu en hjá þeim aðilum. Ég vona að það sem ég hef lesið hér upp úr bréfi sem ég var að skoða núna, en hef ekki séð áður, skýri a.m.k. afstöðu ríkisins til þessara mála.