Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:30:51 (1067)


[14:30]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Að sögn hv. flm. þessarar þáltill. er tilgangurinn með henni að vekja athygli á því hvernig mál standa í sambandi við vegagerð á Austurlandi. Ég trúi því að að baki liggi góður hugur hjá hv. flm. og með þessum tillöguflutningi vilji hann í raun eins og hann segir orðrétt sjálfur vekja athygli á stöðu þessara mála. Um það má vissulega deila hvort þetta hafi verið rétt og skynsamleg aðferð að bera þetta mál upp með þeim hætti sem hv. flm. gerir hér. Um það hefur verið deilt nú þegar hér úr ræðustól og ætla ég ekki á þessu stigi að leggja mat á það.
    Þessi till. til þál. liggur hér fyrir og fjallar um það að gerð verði áætlun um byggingu og endurbætur vega í Austurlandskjördæmi. Það er alveg hárrétt að það þarf að leggja áherslu á vegamálin á komandi árum, sérstaklega hvað varðar Austurlandskjördæmi, en á það vil ég leggja sérstaka áherslu að það hefur verið staðið vel að verki í vegamálum á Austurlandi og annars staðar á landinu sl. þrjú ár. Og það hefur verið gert undir forustu núv. ríkisstjórnar.
    Það væri afar fróðlegt ef hv. þm. stjórnarandstöðunnar, t.d. hv. 3. þm. Vesturl., mundu taka sér það verkefni fyrir hendur að bera saman framlög til vegagerðar á yfirstandandi kjörtímabili eða á því síðasta. Það hafa farið fram sérstök átaksverkefni sem hafa skilað stórum og miklum vegabótum. Því ber vissulega að fagna. Spurningin er síðan sú hvernig við stöndum að frekari uppbyggingu í samgöngumálum þegar við horfum til framtíðar. Hv. þm. Egill Jónsson flytur till. til þál. þar sem hann leggur til að það verði gerð sérstök áætlun um Austurlandi. Ég hef nú litið svo á að allir hv. þm. Austurlandskjördæmis væru að vinna að því, hafi verið að vinna að því á yfirstandandi kjörtímabili og muni takast á við það verkefni í sambandi við endurskoðun vegáætlunar sem nú stendur yfir og verður lögð fyrir hv. Alþingi ekki seinna en eftir áramót. Hv. þm. Egill Jónsson hefur tekið virkan þátt í þessum störfum og í þessari áætlanagerð allt fram að þessu og trúi ég svo að verði áfram.
    En stóra spurningin er alltaf þessi: Hve miklu fjármagni treysta hv. alþm. sér til þess að verja til samgöngumála? Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur metið það svo að leggja meiri fjármuni til vegagerðar en t.d. fyrrv. ríkisstjórn. Það liggur ljóst fyrir. ( JÁ: Þetta er bara rugl, hv. þm.) Þannig hefur þessi hæstv. ríkisstjórn gert betur í þeim efnum en margar fyrri, enda tala verkin út um allt land.
    En í sambandi við þá setningu er hv. þm. Egill Jónsson sagði, að hlutur Austurlands væri lengst úti, hann sagði það orðrétt, hann sagði að hlutur Austurlands væri lengst úti, þá er þetta merkileg yfirlýsing og kannski athyglisverð uppgötvun, en á þetta hef ég nokkrum sinnum bent að það þurfi að fara fram sérstakt átak í Austurlandi vegna þess að aðstæður þar eru á margan hátt mjög ólíkar því er gerist annars staðar á landinu. Þess vegna fagna ég yfirlýsingu hv. 3. þm. Vesturl. Jóhanns Ársælssonar þess efnis að þetta þurfi að skoða sérstaklega og trúi ég því að hann muni beita sér fyrir því innan síns flokks og hér á hinu háa Alþingi ásamt okkur hv. þm. Austurl. að þetta megi ná fram að ganga.
    Virðulegur forseti. Það reynir á það hvort hv. þm. eru tilbúnir til þess að standa saman að frekari uppbyggingu í samgöngumálum nú á næstu árum og þar verða hv. þm. að velja í millum hvernig verja á fjármunum. Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt það í verkum sínum á yfirstandandi kjörtímabili. Nú er komið að því að spyrja til framtíðar og vonandi fá samgöngumálin áfram þann verðuga sess sem þeim ber.