Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:22:31 (1083)


[15:22]
     Flm. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var þörf ferð hjá hv. 3. þm. Vesturl. upp í ræðustól. Það sem ég sagði var að ég hefði afhent hæstv. samgrh. þessa tillögu til yfirlestrar. Ég túlkaði ekki hans skoðanir gagnvart tillögunni.
    Það sem var líka athyglisvert og kom fram í ræðu hv. þm. var það að hann væri undrandi á mínum tillöguflutningi vegna þess að ég væri stjórnarþingmaður. Nú verður náttúrlega hver og einn að meta stöðu sína í þeim efnum en skyldur mínar gagnvart kjördæminu mínu og skoðanir breytast ekki hvort sem ég er í stjórn eða stjórnarandstöðu, svo að þetta sé nú alveg ljóst.
    Í þriðja lagi vildi ég segja og það er kannski aðalatriði málsins að hv. þm. talar um að ég leggi til að Austurland verði sérstaklega tekið út úr. Í tillögugreininni sjálfri er ekki farið neitt út fyrir þau meginmarkmið sem voru í upphaflegri ákvörðun Alþingis um að leggja bundið slitlag á hringveginn og tengja þéttbýlisstaði við bundna slitlagið. Það er sú árétting sem ég er með gagnvart Austurlandskjördæmi og hún er nákvæmlega með sama hætti og grundvallarmarkmið í þessum efnum hafa verið.