Samstarfsörðugleikar innan lögreglunnar í Kópavogi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:45:58 (1094)


[15:45]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er afar viðkvæmt að fjalla um starfsmannamál eða mannleg samskipti á vinnustað á opinberum vettvangi. Oft vantar upplýsingar til að umfjöllun geti verið hlutlaus og hin opinskáa umræða hefur oftar en ekki yfir sér æsingabrag. Ég hef þess vegna efasemdir um að fjalla um þessi mál í sölum Alþingis en skil málshefjanda svo að hún vilji knýja á um lausn málsins.
    Það er alveg ljóst að umræðan eins og hún hefur birst mönnum að undanförnu hefur verið erfið. Þetta hefur verið neikvæð umræða og neikvæð umræða er ekki bara slæm fyrir löggæsluna í mínum heimabæ heldur fyrir löggæsluna í heild sinni. Það er vissulega slæmt að úr því að einstaklingur er í leyfi frá störfum svo lengi sem raun ber vitni í þessu tilfelli þá hafi ekki tekist að leysa farsællega samstarfsvandamál eða deilur sem virðast hafa verið fyrir hendi áður en hann hóf störf að nýju. Það er líka ljóst að það er sjaldnast bara annars aðila ef tveir deila eins og fram hefur komið hér.
    En það er líka gagnrýni vert að meðan ráðuneytið hefur ekki gefið upplýsingar um skýrslu eða athugun sem unnin hefur verið um þetta mál skuli fjölmiðlar gefa til kynna að í skýrslunni komi fram atriði sem séu til vansæmdar fyrir löggæsluna í Kópavogi. Það er særandi fyrir starfshóp sem getur við þær aðstæður engan veginn varið sig og veit ekki um ávirðingar sem gefnar eru í skyn. Ég tek undir það að það verður að leysa þetta deilumál. Meðan það hangir óvisst háir það starfseminni og gerir löggæsluna ótrúverðuga. Ég er ánægð með að heyra að ráðuneytið hefur brugðist við og að næstu daga sé lausn í sjónmáli.