Veiting ríkisborgararéttar

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:57:10 (1100)


[15:57]
     Sólveig Pétursdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta til laga um veitingu ríkisborgararéttar mun koma til umfjöllunar allshn. og ætla ég því ekki að fjalla um það sérstaklega hér. Hins vegar þykir mér rétt að nefna að í allshn. hefur nú um nokkurt skeið verið rætt um breytingu á reglum þeim sem nefndin hefur haft til viðmiðunar við veitingu ríkisborgararéttar. Hafa m.a. tveir fundir verið haldnir um málið á þessu löggjafarþingi og á öðrum þeirra sem haldinn var í morgun fékk nefndin til fundar við sig Jón Thors, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumrn., þar sem hann lýsti athugasemdum sínum.
    Mörg álitamál hafa komið upp og eru í umræðu í nefndinni. M.a. hefur verið rætt um lengd búsetu, þ.e. árafjöldann sem settur er sem skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar samkvæmt núgildandi reglum. Einnig hefur verið rætt um þýðingu íslenskukunnáttu í þessu sambandi. Loks má nefna að hafa verður í huga ákvæði milliríkjasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að þegar rædd eru skilyrði um veitingu ríkisborgararéttar.
    Um norræna samvinnu á því sviði þarf ekki að fjölyrða, en athyglisvert ákvæði er í 9. gr. b-lið í lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Þar er heimild til að ákveða með samningi við Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð að lögheimili til ákveðins tíma í einu samningsríki geti jafnast á við lögheimili í öðru samningsríki að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Hins vegar hefur aldrei verið gerður samningur á grundvelli þessa ákvæðis.
    Virðulegi forseti. Endurskoðun allshn. á reglum um veitingu ríkisborgararéttar hefur staðið um nokkra hríð eins og ég sagði áðan. Ég held að ég megi þó fullyrða að vilji nefndarmanna standi til þess að ljúka umfjölluninni á þessu löggjafarþingi.