Tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 10:47:05 (1111)


[10:47]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það þykir sjálfsagt ekki mikill gjörningur á hinu háa Alþingi að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir um að leggja með formlegum hætti af tilraunastöðina á Reykhólum því eins og hefur komið fram í þessari umræðu þá var það raunar gert að því er ég hygg árið 1990 við afgreiðslu fjárlaga þá og um það urðu þá allmiklar deilur því á það var náttúrlega bent að lögin giltu áfram. Hér var tekin hins vegar ákvörðun um það að veita ekki lengur fjármagn til Reykhóla né heldur Skriðuklausturs í Fljótsdal. Þannig voru lagðar af tvær tilraunastöðvar sem sérstaklega þjónuðu þeim byggðum þar sem landbúnaður á hvað helst í vök að verjast og var það að sjálfsögðu ekki stórmannlegur gjörningur.
    Hér hafa menn talað um Sámsstaði í þessum efnum og auk þess hefur umræðan nokkuð snúist um lífræna ræktun. En ég vildi gjarnan spyrja: Hvað um bændurna í þessum landshlutum? Tilraunastöðin á Reykhólum, reyndar líka á Skriðuklaustri um tíma, sinnti mikið dreifðum tilraunum þar sem sérstaklega var leitað eftir því hvaða grasastofnar og þá sérstaklega hvaða áburðartegundir ættu við hinar ýmsu breytilegu aðstæður. Ég held að sú viðleitni sem höfð var uppi um þessi efni hafi nú horfið með þessum tveimur tilraunastöðvum. A.m.k. er mér ekki kunnugt um að sá rekstur sé að neinu marki í gangi. Það er auðvitað áhyggjuefni þó að menn geti náttúrlega baðað sig í nýjum hugmyndum um lífræna ræktun og rannsóknir í þeim efnum þá er hitt jafnbagalegt þegar hlaupið er frá rannsóknaverkefnum eins og þeim að vita hvað er best við hæfi á bújörðum hjá bændunum sjálfum.
    Yfirleitt vildi ég segja það að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig menn horfa til ræktunarmála almennt séð. Það er ekki vansalaust hvað þau mál eru m.a. við fjárlagagerð látin standa út af og ég verð að segja það alveg eins og er að ég tek ekki mikið mark á yfirlýsingum um lífræna ræktun meðan ekki er sinnt þeim lífsnauðsynlega búskaparhætti að halda ræktuninni í landinu við með eðlilegum hætti.
    Auðvitað á ég eftir að fjalla um þetta mál í landbn. og eins og ég sagði áðan þá er hér í rauninni ekki um annað að ræða heldur en staðfestingu en mér fannst sjálfsagður hlutur að koma þessum viðhorfum að.
    Það hefur líka aðeins borist í tal rannsóknir með framleiðslu á verksmiðjunni á Reykhólum, þörungavinnslunni þar. Það er vissulega ástæða til að staldra við í þeim efnum líka. Það skyldi þó aldrei vera að útlendingar hafi orðið áhuga á að kaupa þá verksmiðju eða eignast meiri hluta í henni. ( GÁ: Væri það ekki gott?) Það þótti mikið göfuglyndi af Norðmönnum þegar þeir komu með peninga inn í þennan verksmiðjurekstur og einhvers staðar hefur það heyrst að þeir vildu jafnvel eignast meiri hluta í þessari verksmiðju. Ef ég man rétt þá er það Norsk-Hydo sem hér á hlut að máli, mikill og voldugur auðhringur eins og menn vita bæði í áburði og í olíuvinnslu, á miklar eignir víða um Evrópu og það fyrirtæki munar að sjálfsögðu ekki mikið um að kaupa þessa verksmiðju vestur á Reykhólum. En ef það er svo að lífræn framleiðsla er að hljóta meiri sess í vöruframleiðslu þá verður náttúrlega þessi verksmiðja og framleiðsla hennar miklu verðmætari en nú er. Ég hef það fyrir satt að ýmsar sambærilegar verksmiðjur sé farið að skorta hráefni þannig að ég held að það sé mikil ástæða til þess að huga að þessum málum. Við höfum séð það fyrir okkur hvað gerðist norður í Fljótum þegar Norðmenn komu og keyptu framleiðsluna þar, fiskeldið, og mér sýnist að þeir séu að sælast eftir því að kaupa upp Áburðarverksmiðjuna þannig að það er vissulega mikil ástæða til þess að huga að þessum málum.