Forfallaþjónusta í sveitum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 11:50:04 (1124)


[11:50]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get að vísu skilið hvernig á því stendur að þingmenn Framsfl. vilja ekki fara rétt með þau mál hvernig staðið var að málefnum landbúnaðarins við undirbúning samninganna um Evrópska efnahagssvæðið af síðustu ríkisstjórn. Eftir áramótin 1991 lá sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar fyrir að ekki yrði mætt á fundum þar sem málefni landbúnaðarins voru til umræðu. Var með þessu verið að reyna að leggja þrýsting á að við næðum betri stöðu í samningunum um sjávarútveginn. Eftir að þessi ríkisstjórn var mynduð var það tekið fram á fyrsta fundi þar sem fjallað var um þessi mál að ég fyrir hönd landbrn. sagði að ég sætti mig ekki við annað en að ný vinnubrögð yrðu tekin upp að þessu leyti og landbrn. fylgdist síðan með.
    Það liggur líka alveg ljóst fyrir að þegar mér var kunnugt um það að síðasta ríkisstjórn hafði ekki haft samband við garðyrkjubændur um dagsetningar og tímabil í sambandi við cohesion-listann þá beitti ég mér fyrir því og sá um það að upplýsingar frá þeim bærust til utanrrn. til þess að reyna að koma fram leiðréttingum og liðka um þær reglur sem áður hafði verið gengið frá. Ég held að hv. þm. ætti að minnast þess að búist hafði verið við að samningarnir um hið Evrópska efnahagssvæði gengju í gildi þá á miðju sumri. Það var því búið í höfðdráttum að ganga frá allri pappírsvinnu og samningagerð. Ég skal ekki um það segja hvort sannfæringarkrafturinn í máli framsóknarmanna sé svo ríkur að einhverjir leggi trúnað á ummæli þeirra um þessi mál að lokum. En hv. þm. veit að ég fer með rétt mál og væri maður að meiri ef hann viðurkenndi það.