Forfallaþjónusta í sveitum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 11:54:30 (1127)


[11:54]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við eigum eftir að verða samferða í því, ég og hv. þm. Guðni Ágústsson, að fjalla um þetta mál í nefnd og þar af leiðandi er óþarfi út af fyrir sig að taka sérstaklega upp mikla umræðu okkar á milli hér og nú. En mér er ómögulegt annað en að gera athugasemd við þau ummæli þingmannsins að lögin um forfallaþjónustuna séu óframkvæmanleg eins og þau eru. Það er einmitt kostur við lögin eins og þau eru að þau eru framkvæmanleg. Ég hef haft samband og veit vel um skoðanir þeirra manna sem stjórna þessari þjónustu núna og hafa gert það af miklu raunsæi. Eins og reyndar hefur komið fram þá tóku þeir við þessari starfsemi í mikilli skuld. Nú er kominn jöfnuður þar á og raunar betur. Og ég endurtek það sem ég hef sagt áður að aðalbreytingarnar sem voru gerðar voru þær að einhver tiltekin stjórn getur ekki lengur afsalað þessum réttindum fyrir hönd einstakra bænda. Því var breytt við endurskoðunina enda var talið að slíkt samrýmdist ekki eignarréttinum í landinu. Það er sá gjörningur að menn þurfi að fylgja eignarréttinum sem hefur sérstaklega komið á þessum óróa meðal þeirra sem eru í andstöðu við þessa starfsemi.