Loftferðir

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 12:44:18 (1134)


[12:44]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og ég fagna því að hæstv. ráðherra þrýsti á utanrrn. um gerð loftferðasamninga. Það gengur jú einu sinni þannig til þó málið sé á forræði utanrrn. þá hlýtur tæknivinnan eðli málsins samkvæmt að hvíla á aðilum sem tilheyra fluggeiranum. Ég hef nú grun um að ósköp lítið mundi gerast í þessum málum ef ekki væri fyrir þrýsting úr þeirri áttinni. Samgrn. verður auðvitað að veita vissa forustu í þeim efnum í samskiptum við utanrrn.
    Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það væri fagnaðarefni ef við næðum samningum við Kanada. Það er eiginlega eftirsjá að því að ekki skuli vera beinar flugsamgöngur frá Íslandi til Kanada og reyndar merkilegt ef út í það er farið að þetta stóra land sem liggur svona nærri okkur, þar sem allir Vestur-Íslendingarnir búa o.s.frv., að þar skuli ekki hafa byggst upp í gegnum tíðina öflugri samgöngur. Ég spurði líka sérstaklega um Rússland. Ég held að ef maður lítur á landakortið þá er það augljóst mál að flugsamgöngur austur um til vaxandi viðskiptavelda í Asíu hljóta að fara þar yfir eða það er eðlilegast ef fyrir hendi væru réttindi til að stunda þannig flug. Og ég held að það væri ekki síður ástæða til þess að þrýsta á um gerð loftferðasamnings við Rússa. Ég vísa að öðru leyti til þess sem ég áður sagði um að það var skaði að mínu mati að slíkur samningur skyldi ekki líta dagsins ljós þegar hann hafði verið í undirbúningi og drög lágu fyrir á árunum 1988--1990.
    Það eru sömuleiðis ánægjuleg tíðindi sem eru að koma af því að það sé vilji fyrir hendi til þess í Bandaríkjum Norður-Ameríku að auka réttindi evrópskra flugfélaga og heimila þeim fimmtu réttindi til starfa eða flugs innan Bandaríkjanna, þ.e. til áframhaldandi viðkomustaða, og rýmka þá um leið eða fjölga þeim áfangastöðum sem Íslendingar hafa réttindi til að fljúga á í dag.
    Að síðustu um flugeftirlitsnefndina, ég spurði einmitt vegna þess að ég velti því fyrir mér hvort ekki væri ástæða til að huga að því að búa henni stað eða þeirri starfsemi sem

ég held að sé bráðnauðsynleg með einhverjum hætti í loftferðalögunum. Ég hygg að því verði ekki á móti mælt að það var og er þörf fyrir það að einhver slíkur aðili geti sinnt eftirliti þegar um er að ræða sérleyfi og bindingar af því tagi og jafnvel þó að um samkeppni sé að ræða, þá eru öryggiskröfur og annað því um líkt í flugi þannig úr garði gerðar að þær setja starfseminni þannig takmörk að það er án vafa að mínu mati ástæða til að þar sé fyrir hendi einhver málskotsréttur til eftirlitsaðila sem geti kannað hvort þjónusta sé með fullnægjandi hætti, hvort aðilar misbeiti þeirri stöðu, sérleyfisaðstöðu eða einokunarstöðu sem þeir eru í o.s.frv. Flugeftirlitsnefndin var á sínum tíma sett á laggirnar einmitt í slíku skyni í tengslum við stefnumörkun og breytingar sem þá voru að eiga sér stað í flugheiminum þannig að ég beini því þá til hv. samgn. að í meðferð málsins þó að hér séu kannski ekki margir hv. nefndarmenn úr samgn., þá vona ég að það komist til skila að við meðferð málsins verði hugað að því m.a. hvort ekki sé rétt að búa flugeftirlitsnefndinni sess hér í lögunum með sama hætti og flugslysanefnd er gert og reyndar fleiri nefndum sem starfa á afmörkuðum sviðum innan flugsins.