Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 13:38:41 (1138)


[13:38]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum með hv. málshefjanda um stöðu þessa máls hvað lýtur að skuldbindingum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Eins og hann gat um í sinni ræðu þá er málið þó fjölþættara en svo og lýtur einnig að Innheimtustofnun sveitarfélaga sem slíkri og stöðu hennar. Í þriðja lagi og ekki síst möguleikum á stöðu meðlagsgreiðenda og síðan í fjórða lagi meðlagsþiggjenda. Þessi mál eru eðli sínu samkvæmt öll samofin.
    Ég hygg hins vegar, virðulegi forseti, til þess að freista þess að svara spurningu hv. þm., að skynsamlegast sé að ég lesi bréf sem fór frá félmrn. í morgun til sveitarstjórna um þau mál sem hér er um að ræða og, með leyfi forseta, hljóðar þannig:
    ,,Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga gerði 22. október sl. tillögur til félmrh. um úthlutun þjónustuframlaga 1994. Tillögurnar voru með fyrirvara um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefði til umráða nægilegt fjármagn til að greiða framlögin að fullu eins og gert var ráð fyrir í rekstraráætlun sjóðsins 1994. Undanfarið hefur verið ljóst að kröfur Innheimtustofnunar sveitarfélaga á hendur sjóðnum vegna óinnheimtra barnsmeðlaga mundu verða verulega hærri heldur en áætlun sjóðsins gerir ráð fyrir. Leitað hefur verið leiða til að tryggja viðbótarfjármagn til Innheimtustofnunar sveitarfélaga þannig að ekki kæmi til þess að skerða þyrfti þjónustuframlögin. Félmrn. hefur átt í viðræðum við fjmrn. um málið og er vonast eftir niðurstöðu fljótlega.
    Forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga hafa og komið að þeim viðræðum. Dragist hins vegar lausn málsins á langinn verður sveitarfélögunum fljótlega greiddur sá hluti framlaganna sem fjárhagur sjóðsins leyfir, ca. 40%, en frekari greiðslur ráðast af því hvort og hvenær tekst að útvega nauðsynlegt viðbótarfjárframlag.
    Í febrúar sl. skipaði félmrh. nefnd til að taka málefni meðlagsgreiðenda og meðlagsmóttakenda til gagngerðrar endurskoðunar og koma með tillögur til úrbóta sem miða varanlega að því að fjárvöntun Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði undir 300 millj. kr. svo Jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti sinnt hlutverki sínu.
    Nefndin skilaði tillögum og greinargerð til ráðherra 19. október sl. Tillögur þessar munu ekki draga úr fjárvöntun Innheimtustofnunar sveitarfélaga á yfirstandandi ári, en vonir standa til að þær geti gert það þegar til lengri tíma er litið.``
    Með öðrum orðum, staðan er þannig að félmrn. á í viðræðum við fjmrn. um, ásamt og með aðild Sambands sveitarfélaga og forsvarsmönnum þess. Þær viðræður lúta raunar að fleiri þáttum eins og kunnugt er af fréttum af ýmsum samskiptamálum ríkis og sveitarfélaga svo sem framhaldi átaksverkefna og fleiru. En ég bind við það vonir að farsæl lausn fáist í því til þess að jöfnunarsjóðurinn geti veitt það fjármagn til sveitarfélaga sem ráð var fyrir gert í áætlun sjóðsins í ársbyrjun. Hér er um að ræða þjónustuframlag að upphæð 267 millj. kr., en eins og getur um í áður tilvitnuðu bréfi er fjárhagur sjóðsins þannig núna að hann getur af eigin fé greitt nú sem svarar 40% af þessu komi ekki til viðbótarfjárframlags.
    Hin hlið málsins, í örfáum orðum, virðulegi forseti, sem ég gat um í upphafi og lýtur að möguleikum meðlagsgreiðenda til að standa skil á sínum lögbundnu greiðslum og koma fram í tillögum áðurgreindrar nefndar, snýr að nauðsynlegum lagabreytingum sem flestar hverjar lúta að því að auka heimildir stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga til samninga. Möguleikar eru á því að setja þak á upphæð meðlags, þ.e. fjölda barna. Sem dæmi að einstaklingur, sem ber að greiða með þremur eða fleiri börnum, hafi hugsanlega til þess möguleika að greiða aðeins með tveimur, geyma þriðja meðlagið og fjórða. Einnig samkvæmt tillögum þessarar nefndar að leggja af vanskilavexti. Kröfur Innheimtustofnunar fái sömu réttarstöðu og skattkröfur hins opinbera og svo mætti áfram telja.
    En varðandi það mál sem hér er um spurt og lýtur að yfirstandandi ári þá eru með öðrum orðum viðræður í gangi og ég vænti þess og trúi að farsæl lausn fáist á þeim.