Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 13:43:49 (1139)


[13:43]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Málavextir eru skýrir í þessu og komu ágætlega fram í máli hv. málshefjanda, Jóns Kristjánssonar, og ég vil þakka honum fyrir að taka þetta mál hér upp því ekki er vanþörf á, sérstaklega í ljósi þeirrar ræðu sem hæstv. félmrh. hélt áðan. En það var greinilegt að það er ekki jafnskýrt hvort ríkivaldið ætli að efna þau fyrirheit sem það gaf og hefur gefið, bæði í reynd og óformlega í þessu máli, að sveitarfélögin, litlu fámennu sveitarfélögin á landsbyggðinni verði ekki látin gjalda fyrir ákvörðun hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnar hans þegar breytt var greiðslum til meðlags fyrir tæpum tveimur árum. Það getur ekki verið að málefni ríkisins, eins og þetta málefni er, verði látin bitna á sveitarfélögum. Það er ekki hlutverk jöfnunarsjóðsins að vera stuðpúði fyrir mismun á innheimtu og útgreiðslu meðlags og við eigum og ríkisstjórnin á að beita sér fyrir breytingu á lögum í þá veru að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði tekinn út úr þessu verki. Þetta er ekki hlutverk hans, þetta hefur ekkert að gera með málefni sveitarfélaga og verkefni þeirra, þetta er málefni ríkisins. Menn eiga auðvitað ekki að vera að blanda sveitarfélögunum í þetta mál sem er eingöngu málefni ríkisins. En það eru menn að gera, virðist mér, hæstv. forseti, vegna þess að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að láta sveitarfélögin taka þátt í að borga þennan kostnað. Það er algjörlega óásættanlegt, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin sé að velta vandræðum sínum yfir á sveitarfélögin sem í þessu máli er algjörlega óskyldur aðili.