Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 13:52:05 (1143)


[13:52]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu erfitt vandamál út af fyrir sig sem er fyrst og

fremst vandi meðlagsgreiðenda þó að umræðan sé hafin á þeim nótum að þetta er að verða og gæti orðið vandamál sveitarfélaganna. Það hefur komið í ljós að Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur átt í miklum erfiðleikum með að ná inn meðlögum og nú blasir við eins og hér hefur komið fram að það gæti gerst að það þyrfti að skerða þjónustuframlögin úr jöfnunarsjóðnum. Ég tel mjög óheppilegt ef til þess þyrfti að koma og treysti því að hæstv. félmrh. nái að finna lausn á þessu máli í viðræðum sínum m.a. við Samband ísl. sveitarfélaga. En ég tel alveg ljóst að það þurfi að skera upp, það þurfi að gera hér breytingar. Það er alveg ljóst að það þarf meiri fjármuni. Þá líta menn á ríkissjóð og ætlast til þess að hann hlaupi undir bagga en þetta er ekki svo einfalt mál. Þetta er margra ára uppsafnaður vandi og ég bið menn að líta á hann í því ljósi. Þetta hefur ekki verið að gerast í ár eða á síðasta ári. Þetta er margra ára uppsafnaður vandi sem ég tel að þurfi að taka á. Og ég er þeirrar skoðunar að það eigi að endurskoða lög sem lúta að Innheimtustofnun sveitarfélaga og meðlagsgreiðslum og e.t.v. að tengja það þeim viðræðum sem þurfa að eiga sér stað við sveitarfélögin og lúta að Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég tel að verkefni sveitarfélaga ættu öll að vera í einum pakka en það liggur ekki ljóst fyrir núna hvernig það megi verða.
    Ég fagna því að hæstv. félmrh. skuli vera að vinna að þessu máli með þeim hætti sem hann gerði grein fyrir.