Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 13:57:29 (1146)


[13:57]

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Vissulega má til sanns vegar færa að hér er um að ræða vanda meðlagsgreiðenda, vanda sem í mörgum tilvikum er svo stór að þeir ráða ekki við hann. Það er bersýnilegt að þegar slíkt gerist að þessar greiðslur innheimtast ekki heldur bara hækkar einfaldlega skuldin þá er eitthvað að. Þá er greinilegt að of margir meðlagsgreiðendur ráða ekki við þessar stóru upphæðir og það verður að finna leiðir til þess að minnka þeirra vanda án þess auðvitað að það bitni á framfærendum barnanna.
    En ég vil leggja áherslu á að þetta er um leið vandi sveitarfélaganna og vandi sveitarfélaganna er mjög óvenjulegur að þessu leyti að hér er um að ræða fé sem ekki innheimtist í öllum sveitarfélögum landsins. Þetta er uppsafnaður vandi í öllum sveitarfélögum landsins. En kjarni málsins er sá að þessi vandi, sem er uppsafnaður í öllum sveitarfélögum landsins, er að bitna núna á tiltölulega litlum hluta þessara sveitarfélaga, þ.e. sveitarfélögunum sem eru af stærðargráðunni milli 300 og 3.000. Það eru þessi sveitarfélög sem eru að fá á sig allan vandann. Það fer því ekki milli mála að hér þarf að grípa til róttækra aðgerða og breyta þessu kerfi sem í gildi er þannig að það séu ekki bara örfá sveitarfélög --- þau eru að vísu nokkuð mörg en tiltölulega veik og illa stæð sveitarfélög sem fái allt hlassið yfir sig.