Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 14:45:08 (1151)


[14:45]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Þegar samið var um Evrópska efnahagssvæðið og meðan á því samningaferli stóð var ljóst að nokkur ákvæði samningsins mundu vera mjög viðkvæm í meðförum og það mál sem hér er til umfjöllunar í dag snertir einmitt eitt af þessum málum. Það er ljóst að svo viðamiklir samningar sem samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið eru snerta mjög við stöðu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar og segja má að yfirráð okkar yfir auðlindum landsins sé eitt af þeim atriðum sem verði að tryggja í samningum af þessu tagi. Í samningaferlinu tókst að tryggja yfirráð Íslendinga yfir auðlindum sjávarins, en fyrirvari var hins vegar ekki gerður eða ekki tókst að halda inni fyrirvara um kaup á landi. Í samningaferlinu var upplýst að áður en núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefði verið settur inn fyrirvari um þetta atriði en hann var tekinn út á samningaferlinu.
    Það er rétt að geta þess að meðal þeirra gagna sem hægt er að nota við umfjöllun um þetta mál eru m.a. álitsgerð sem samin er að beiðni dóms- og kirkjumálaráðherra og landbrh. sem getið var um hér í framsöguerindi hæstv. landbrh. Ég vil einnig taka það fram að meðal gagna í þessu máli er sérstök álitsgerð sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon og fyrrv. hæstv. landbrh. gerði um þetta mál og sendi þingmönnum sem er allítarleg greinargerð og gagnleg og vil ég þakka honum fyrir það að hafa sent okkur þingmönnum þetta. Það varpar ljósi á afstöðu hans til málsins en hann hefur áhyggjur af þessu máli eins og raunar sá sem hér stendur. Í þessari álitsgerð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ég held að þegar menn skoða þetta betur komist þeir að raun um að það hafi orðið mikið slys í þessum samningum að ekki var haldið inni varanlegum fyrirvara eða undanþágum hvað þetta snertir. Það var eina trausta leiðin í þessum efnum.``
    Ég vil taka undir þetta álit hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið slys þegar varanlegum fyrirvara var ekki haldið inni í þessu samningaferli. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér og nú hver á að vera ábyrgur fyrr því slysi, við getum tekið upp umræður um það ef menn vilja, en ég geri mér hins vegar grein fyrir því að menn mátu það svo að það væri erfitt að halda þessum fyrirvara inni. Mér finnst hins vegar að það hafi ekki verið látið á það reyna til fulls og vil því að þessu leyti taka undir þessa skoðun hv. þm.
    Það er mjög erfitt að sætta sig við það í raun og veru að landið sem er ein af höfuðauðlindum þjóðarinnar geti gengið kaupum og sölum milli ríkisborgara þjóðarinnar og ríkiborgara annarra þjóða hömlulaust og það er í raun og veru ekki hægt að sætta sig við það að erlendir aðilar fái sama rétt til kaupa á landi hér á Íslandi eins og íslenskir ríkisborgarar.
    Sá samningur sem nú hefur verið gerður um Evrópska efnahagssvæðið gengur út frá því að þessi réttur sé ekki jafn að öllu leyti og má því segja að samningurinn leiði það í ljós að réttur erlendra ríkisborgara til fasteignakaupa hér á Íslandi og þar á meðal kaupa á jarðnæði er ekki sá sami og réttur okkar Íslendinga, þeirra sem hafa íslenskt ríkisfang. Hins vegar er þessi réttur jafn að því er varðar sjálfa meginþætti samningsins, þ.e. fjórfrelsið svokallaða. Í þessu samningaferli á að veita mönnum jafnan rétt. Þá er um að ræða jafnan rétt launþega til að velja sér starf, þar á meðal í landbúnaði, jafnan rétt til fjárfestingar og jafnan rétt til að stofna fyrirtæki og þjónustustarfsemi.
    Það sem mestu máli skiptir í sambandi við þetta er kannski ekki fyrst og fremst rétturinn til atvinnustarfsemi. Það má segja sem svo að það sé ekkert hættulegt við það að íbúar Evrópubandalagsins og EES-svæðisins geti stundað atvinnu hér eins og íslenskir þegnar og hafi þá búsetu hér á landi og afli sér þeirra fasteigna sem nauðsynlegar eru í sambandi við sinn atvinnurekstur. Það sem skiptir hins vegar meginmáli í þessu sambandi er hvort til verður með samningunum um Evrópska efnahagssvæðið sjálfstæður fjárfestingarréttur þeirra aðila sem búa á þessu svæði, án tillits til þeirra réttinda sem samningurinn sjálfur kveður á um, þ.e. sjálfstæður fjárfestingarréttur án tillits til stofnsetningarréttarins og launþegaréttarins. Um þetta atriði er fjallað í álitsgerð sérfræðinganna þriggja um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fasteignir á Íslandi. Þar koma fram álitamálin og þetta er eitt meðal þeirra mikilvægustu sem þar eru tekin til umfjöllunar.
    Í þessari álitsgerð segir svo í kaflanum þar sem fjallað er um frjálsa fjármagnsflutninga, með leyfi hæstv. foreta:
    ,,Álitamál er hvort líta beri svo á að frelsi til fjármagnsflutninga veiti sjálfstæða heimild til fjárfestinga einkum með hliðsjón af rétti manna til að fjárfesta í fasteignum, þar á meðal sumarbústöðum, án tillits til þess hvort það á sér stað í tengslum við hina þrjá frelsisþættina.``
    Í skýrslunni er fjallað allítarlega um þetta mál og niðurstaðan er tíunduð í sama kafla, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Af framangreindu sést sennilega að íbúar eins aðildarríkis sem dveljast í öðru aðildarríkinu geta ekki fjárfest í fasteignum í síðarnefnda ríkinu á grundvelli EB-reglna um frjálsa fjármagnsflutninga eingöngu. Slík heimild verður að styðjast við hina þrjá frelsisþættina, þ.e. launþegaréttinn, þjónusturéttinn og stofnsetningarréttinn.``
    Í þeim kafla þessarar skýrslu sem heitir Helstu niðurstöður um fjárfestingarreglur EB segir, með leyfi forseta:
    ,,EB-réttur veitir EB-fyrirtækjum að jafnaði ekki beinan og ótakmarkaðan rétt til að fjárfesta í öðru EB-ríki, þar á meðal til að festa kaup á fasteignum eða fasteignaréttindum. Sá réttur er hins vegar afleiðing frelsisþáttanna fjögurra, þ.e. réttar launþega, stofnsetningarréttar, réttar til frjálsrar þjónustustarfsemi og réttar til frjálsra fjármagnsflutninga. Ákvæði 7. gr. Rómarsáttmálans sem felur í sér bann við allri mismunun á grundvelli þjóðernis skiptir og máli í þessu sambandi. Í sjálfu sér geta aðildarríkin haft í lögum sínum ýmis ákvæði sem setja skorður við því að fasteignaréttinda sé aflað. Þessar skorður verða hins vegar að gilda jafnt fyrir aðila sem teljast til viðkomandi ríkis og þá aðila sem hyggjast, t.d. á grundvelli stofnsetningarréttar, afla sér fasteigna og þær mega ekki fela í sér óbeina mismunun.``

    Að því er varðar atvinnureksturinn í heild þá er ljóst að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið felur í sér heimild til íbúa EES-landa að fjárfesta í atvinnutækjum og þar á meðal fasteignum til atvinnurekstrar. Hins vegar ber að árétta þann skilning að þessi réttur tekur einungis til fasteigna sem eru í notkun í atvinnustarfsemi eða til eigin nota.
    Í kaflanum sem fjallar um atvinnureksturinn í skýrslu þremenninganna segir, með leyfi forseta:
    ,,Loks er ekki heldur glöggt samkvæmt lögunum hverjir teljast eiga fyrrgreindan rétt.`` --- Þarna er verið að vitna í fasteignalög. --- ,,Samkvæmt orðum ákvæðisins er rétturinn bundinn við þann sem hefur rétt til þess að stunda atvinnurekstur hér á landi. Ljóst er að fleiri geta átt rétt til þess að stunda atvinnurekstur hér á landi en þeir sem stunda hann í raun og veru. Engu að síður verður að telja líklegt að rétturinn sé eingöngu bundinn við þá sem stunda atvinnurekstur hér á landi í raun og veru.``
    Þetta atriði kemur til álita þegar menn velta því fyrir sér í hvaða stöðu þeir íslensku ríkisborgarar eru sem eiga jarðnæði eða afla sér jarðnæðis sem ekki er keypt til notkunar í atvinnustarfsemi. Leiðir þessi samningur til þess að slíkir aðilar verði að afsala sér slíkum eignum? Eða verður með þessum samningi komið í veg fyrir að íslenskir ríkisborgarar geti fest kaup á jarðnæði sem þeir eiga án þess að nota það í atvinnustarfsemi?
    Ég lít svo á að svo sé ekki og styðst þar við niðurstöður greinargerðar þremenninganna um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fasteignir á Íslandi. Íslenskur ríkisborgari sem á fasteign, jörð, sem hann ekki nýtir í atvinnustarfsemi hefur fulla heimild til að eiga slíka jörð og halda henni og eignarheimildum hans verður ekki breytt með þessum samningi.
    Á hinn bóginn ef svo fer að erlendur ríkisborgari, sem í krafti EES-samningsins festir kaup á jörð hér á landi og notar hana í atvinnustarfsemi, hættir að nýta þessa jörð í atvinnustarfsemi ellegar þá að jörðin fellur undir ættingja hans sem nýta hana ekki, þá munu þeir ekki hafa heimild til að eiga slíka jörð. Þetta tel ég mikilvægt atriði. Þetta tel ég að nefndinni sem fær málið til umfjöllunar beri að skoða rækilega til að ganga úr skugga um að svo sé.
    Það frv. til laga um breytingu á jarðalögum sem hér er til umfjöllunar er tilraun til að setja enn fastari skorður um viðskipti með fasteignir, einkum og sér í lagi jarðir, en gilda í lögum nú. Þar er einkum og sér í lagi um að ræða 3. gr. frv. þar sem sveitarstjórnum og jarðanefndum er heimilað að binda samþykki sitt við fasteignaviðskiptin sem lögin ná yfir því skilyrði að sá sem öðlast réttindi yfir fasteigninni hafi í allt að fimm ár haft fasta búsetu á jörðinni eða í eðlilegri fjarlægð frá henni til að nýta hana. Með sama hætti er heimilt að binda samþykki skilyrðum um að jörðin verði nýtt til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi í samræmi við þau áform sem lýst er í beiðni um samþykki.
    Að sjálfsögðu mundu ákvæði af þessu tagi þrengja allmikið svigrúm Íslendinga til að nýta jarðnæði. Þó tel ég ástæðu til að undirstrika að þeir hafa þó enn fulla heimild til þess að nýta jarðnæði með þeim hætti sem fellur utan samningssviðsins. Þá á ég fyrst og fremst við að eiga jarðir til þess hafa ánægju af því án þess að nota þær í atvinnuskyni, stunda þar tómstundaiðju sína eins og skógrækt og annað því um líkt, eða hestamennsku. Ég tel að það beri að taka þessa grein til rækilegrar athugunar og skoða hana. Hún er að nokkru leyti mjög íþyngjandi fyrir íslenska þegna en ég lýsi því hér með yfir að ég er reiðubúinn til að samþykkja grein af þessu tagi þó mér finnist að hæstv. landbn. Alþingis hafi fulla heimild til að skoða þetta opið og koma með tillögur um breytingar á þessu atriði.
    Það sama er að segja um 5. gr. frv. En þar er atriði sem er á þá leið að ef það er ætlun þess sem þarf að fá samþykki til að öðlast réttindi yfir fasteign að nýta hana til landbúnaðar skal samþykki ekki veitt nema viðkomandi hafi starfað við landbúnað í fjögur ár og þar af tvö ár hér á landi. Þetta eru líka nokkuð íþyngjandi ákvæði og ber að geta þess að ráðherra getur veitt undanþágu frá ákvæðinu að fenginni umsögn sveitarstjórnar og jarðanefndar.
    Þess ber að geta að ráðherra hefur heimild samkvæmt þessari grein að ákveða í reglugerð hvaða starfsemi telst til landbúnaðar skv. 1. mgr. Í sjálfu sér felst ekki þarna heimild ráðherrans til að ákveða hvað skuli teljast landbúnaður og hvað ekki. Það er ákveðið með öðrum lögum en hér er verið að fjalla um. Hér er einungis verið að tala um að ráðherra geti ákveðið í reglugerð hvaða starfsemi telst til landbúnaðar samkvæmt þeim skilyrðum sem fram koma í 1. mgr. 5. gr.
    Ég vil taka það fram að mér finnst skipta miklu máli hver niðurstaðan verður í umfjölluninni um þetta frv. Ég harma að við Íslendingar skulum ekki hafa borið gæfu til að halda inni almennum fyrirvara um þetta mál. Vegna þessa er málið komið í þrengri farveg en það hefði e.t.v. þurft að vera. Það frv. sem hér er lagt fram er til bóta þó það sé nokkuð íþyngjandi. Ég vænti þess að hæstv. landbn. Alþingis fjalli ítarlega um þetta og skoði á þessu allar hliðar og leggi síðan fyrir þingið raunhæfar tillögur til að styrkja stöðu Íslendinga í sambandi við þetta mikilvæga mál þar sem miklu skiptir að við festum nokkuð rétt Íslendinga til þess að hafa vald yfir jarðakaupamálum sínum.