Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 15:14:04 (1157)


[15:14]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég sakna þess við umræðuna nú að hæstv. utanrrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðuna. Maðurinn sem fyrir hönd þjóðarinnar ber svo mikla ábyrgð á því sem gerst hefur og ber svo mikla ábyrgð á því máli sem hér er verið að ræða í dag. Maðurinn sem sagði að EES væri nauðsyn til þess að aldrei kæmi til þess að Íslendingar þyrftu að ganga í Evrópubandalagið. Maðurinn sem nú hefur umturnast í afstöðu sinni og berst fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Maðurinn sem hefur gengið svo langt að hæstv. forsrh. hefur vakið athygli á því að hann sé eini Íslendingurinn sem sé sáttur og telji sjávarútvegssamning Noregs góðan.
    Hæstv. forseti. Ég sakna þess að sá hæstv. ráðherra skuli ekki vera hér staddur við umræðuna. ( SJS: Þú verður að heimta hann, koma með hann.) Ég held að það sé afar mikilvægt. Hins vegar er það athyglisvert við þessa umræðu í hvern farveg þetta mál er komið.
    ( Forseti (GHelg) : Skildi ég hv. þm. á þann veg að hann óskaði eftir að hæstv. utanrrh. yrði viðstaddur umræðuna?)
    Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt, hæstv. forseti.
    ( Forseti (GHelg) : Ég mun þá reyna að freista þess að athuga hvort það sé unnt.)
    Ég mun ekki fresta máli mínu, ég get þá rætt við hæstv. utanrrh. síðar hér í dag, en ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. utanrrh. sé við umræðuna.
    Ef við horfum aðeins nokkur ár aftur í tímann þegar þessi ganga var að byrja, þegar fyrri ríkisstjórn var að ganga til samninganna um Evrópskt efnahagssvæði, þá minnist ég þess að það sem gerði mig og fleiri sátta við þessa samninga á ákveðnu tímabili var ræða sem fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, hélt í Ósló 1989 sem hefur verið kölluð fyrirvararæðan þar sem Íslendingar lögðu fram ákveðna fyrirvara til þess að geta gengið inn í þessa samninga. Á þeim grundvelli studdu hér ýmsir það mál. Síðar gerðist það að þessum fyrirvörum var hverjum á fætur öðrum af hálfu hæstv. utanrrh. varpað fyrir borð í skjóli stjórnarskipta í lok kjörtímabils o.s.frv. Sjálfstfl. barðist heill fyrir því 1989 að hér yrði farið í tvíhliða samninga um mál Íslendinga. Sjálfstfl. umturnaðist í þessu máli. Hann skipti um skoðun þegar hann var kominn í stjórnaraðstöðu og hann gerði það sem verst var í þessu máli að hann gaf hæstv. utanrrh. í maí 1991 fullt frelsi einum og sjálfum til að semja um málefni Íslendinga. Það er kannski versti hluturinn í þessu máli hvernig Sjálfstfl., forustuflokkur nýrrar ríkisstjórnar, umturnaðist í málinu.
    Vissulega er það stór vandi sem hér blasir við og við erum að ræða í dag til þess að mæta hinu Evrópska efnahagssvæði, girðingarlög, breyting á jarðalögum o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að það væri rétt eða vil spyrja að því hvort það geti ekki verið grundvöllur til þess áður en við göngum inn í svo flókna lagasetningu og hefjum svo víðtæka

girðingarstarfsemi sem hlýtur að brjóta, ekki síst á eignarrétti Íslendinga, verðfella í stórum stíl eignir íslenskra bænda og skapa mismunun í þessu hér hjá okkur. Ég er því þeirrar skoðunar og vil spyrja hvort ekki sé rétt í þessu máli að leita eftir tvíhliða samningi um málið. Eigum við kost á því sem Danir náðu fram við Evrópubandalagið að hafa undanþágu um eitthvað af okkar málum sem snertir jarðir eða sumarbústaðalönd eða náttúruperlur? Mig minnir að Álandseyingar hafi einnig náð einhverju slíku ákvæði inn í sína samninga.
    Eins er það þegar við í lok kjörtímabilsins erum ekki lengra komnir í þessari vinnu er það spurningin hvort við getum fengið frest á því ákvæði sem snýr að þessu máli til að vinna okkar heimavinnu. Eins og hér hefur komið fram voru það átta aðilar sem svöruðu beiðni um umsögn frá hv. landbn. í fyrra. Mér finnst það sýna hvað málið er flókið. Tólf aðilar treystu sér ekki til að svara því. Ég er í engum vafa um að sá stutti tími sem er eftir af þessu þingi, kosningaþingi, nægir ekki til að vinna þetta mál. Svo flókið er málið og svo slæmt er það frv. í mínum huga sem hæstv. landbrh. hefur lagt fram. Það eru ýmis atriði sem mér sýnist að muni stöðva þá þróun sem við höfum búið við, ég vil segja, í nokkra áratugi.
    Ég vil koma inn á nokkur þessara atriða. Ég sé t.d. að í 3. gr. frv. þar sem verið er að ræða um fasteignir er settur einn þröskuldur t.d. þar sem rætt er um ,,fjarlægð eðlilegrar búsetu til að nýta þessa eign``. Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Hvað á hann við? Getur þetta ekki verið atriði sem muni mjög þrengja þá þróun sem hér hefur verið og kannski ýmsa aðra þróun sem við höfum séð fyrir okkur og ég hef ekkert við að athuga? Við höfum séð að ýmsir menn, kannski búsettir hér, hafa eignast jarðir sem þeir eru að sinna í allmikilli fjarlægð frá heimili sínu. Ég minnist þess að útgerðarmaður í Grindavík, Dagbjartur Einarsson, keypti Svefneyjar á sl. vetri og er þar að gera góða hluti. Kynni það að vera að þetta ákvæði yrði til þess að hann mætti ekki eiga þessa eign og hún yrði tekin af honum og færð öðrum? Er hann of langt frá eigninni?
    Síðan er í þessu ákvæði sem segir að ef þetta gerist þá er þinglýst inn á eignina ákvæðum um að innan einhvers ákveðins tíma þriggja, fjögurra eða fimm ára verði það að hafa átt sér stað að maðurinn flytji. Ég get nefnt ótalmörg fleiri dæmi. Ég hef orðið þess var í mínu kjördæmi að jafnvel fólk sem býr erlendis en er íslenskir ríkisborgarar, jafnvel ekki íslenskir ríkisborgarar en Íslendingar, hafa fundið til þess hvöt og hafa ráðist í að eignast eignir í mínu kjördæmi. Þeir eiga löng sumarfrí, þetta er stóreignafólk, og það er að gera góða hluti á þessum stöðum. Mér sýnist að það sé klárt mál að þessir aðilar mundu ekki mega fjárfesta eins og þeir gera og þar með hverfur það út úr dæminu að menn geti átt við þá peningaleg viðskipti. Þetta eru flugmenn, listamenn og fleiri og fleiri sem hafa löng sumarfrí og geta þá nýtt hlunnindi við svona aðstæður og vilja hafa frelsi til að kaupa slíkar eignir.
    Ég óttast þessa 3. gr. frv. Svo er auðvitað um fleiri greinar í þessu frv. Staðreyndin er nefnilega sú að jarðalögin eins og þau standa hafa verið talsverður þröskuldur í viðskiptum. Og jarðalögin eins og þau standa hafa því miður orðið til þess að menn hafa misnotað aðstöðu sína. Sveitarstjórnir hafa í gegnum jarðalögin reynt að ráða því hverjir eignuðust fasteignir og gert upp á milli fólks, jafnvel brotið ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarréttinn. Það er alvarlegur hlutur. Ég held nefnilega að jarðalögin hafi verið sett á sínum tíma til þess að tryggja byggð og stöðva það sem menn kölluðu þá brask. En ég hef tekið eftir því t.d. hvað Suðurland varðar að sá hagvöxtur sem þar hefur ríkt síðustu árin tengist ekkert síður því að menn hafa þar verið að mæta þeirri nýju þróun að stór hluti t.d. höfuðborgarbúa vill dvelja þar sumarlangt, eiga þar sumarbústaði. Sumir hverjir hafa ráðist í það stórvirki að eignast eyðijarðir, byggja þær upp og skapa þar atvinnu í öðru formi en landbúnaði. En allt hefur þetta pappírsfarg og spurningar um leyfi orðið til að þrengja frelsi fólks til að standa í þessu. Ég tel þess vegna að við verðum að gæta okkar í lagasetningunni að hún verði ekki slíkur fjötur að hún stöðvi svona mikilvæga þróun þar sem fólk í þéttbýlinu og í sveitunum er einmitt að ná saman í gegnum þessa breytingu.
    Ég hef líka velt því fyrir mér í sambandi við útlendingana: Eru þeir að koma í stórum stíl til að kaupa jarðir? Ég talaði við þann mann í morgun á fasteignasölu sem hefur selt flestar jarðir á Íslandi síðustu árin. Hann sagði að engin slík fyrirspurn hefði borist. Það hefði að vísu gerst í kringum landsmót hestamanna að þá kom upp bóla, nokkrir ríkir Þjóðverjar spurðu eftir jörðum til að hefja hér hrossarækt en það var bóla og ekkert varð úr viðskiptum. Það liggur fyrir eins og er að útlendingar eru ekki í miklum jarðakaupum hér eða hugleiðingum eins og stendur. Þess vegna er spurning hvort við getum ekki náð annarri niðurstöðu án þess að færa allt í fjötra í viðskiptum Íslendinga sjálfra. Það held ég að sé meginmálið.
    Mér hefur dottið það í hug hvort það væri möguleiki og væri réttara hjá okkur að huga t.d. að því við lagasetningu að taka út úr sérstakar náttúrperlur sem svo eru nefndar. Laxveiðijarðir, jarðir sem eiga virkjunarmöguleika, jarðhitasvæði, einstaka staði sem eru slíkar náttúrperlur að þær verða að vera í höndum Íslendinga, setja um slíkar jarðir almenn ákvæði um að þar ríki alveg sérstakur forkaupsréttur sveitarfélagsins eða ríkisins. Við höfum stundum rætt um það að kannski vildu auðmenn kaupa upp heila dali og byggðir, dali með laxveiðiám o.s.frv. Mér dettur í hug Vatnsdalurinn, sem er afar fögur sveit, þegar ég sé hv. þm. Pál Pétursson. Það verða kannski einhver svona mjög verðmæt svæði þar sem mikil hlunnindi eru. Við þekkjum okkar land og ég vil alla vega að landbn. fari verulega vel yfir það atriði hvort eitthvað slíkt kæmi fremur til greina ef hin atriðin sem ég minntist á í upphafi, að fá frest eða fara í tvíhliða viðræður, koma ekki til greina.
    Svona stór mál, hæstv. forseti, þurfa að fá langan tíma og það þarf að gaumgæfa þau mjög vel til að menn fari ekki rangt að í lagasetningu. Ég styð það að mestu náttúrperlur verði í eigu Íslendinga og þeir ráði sínum auðlindum til lands og sjávar. En ég óttast ekkert verulega á þessari stundu að á því sé að verða nein veruleg breyting. Hér hafa útlendingar átt jarðir. Ég minnist þess að danskur maður átti Haukadal og fór vel með hann, klæddi hann skógi og skilaði honum svo íslenska ríkinu að gjöf. Þannig góðir hlutir hafa gerst. En meginatriðið í mínum huga er að mér finnst að í þessu frv. séu óásættanleg atriði sem munu valda því að um mikla frelsissviptingu í viðskiptum verði að ræða. Menn eru að búa til ramma fjötra. Nógar eru nú bréfaskriftirnar fyrir. Það verður því mjög til þess að draga úr því að þéttbýlisbúar og ýmsir Íslendingar sem vilja eignast land og vera frjálsir í sínu landi hafi til þess möguleika. Þess vegna finnst mér að við megum ekki sætta okkur alfarið við þetta frv. eins og það liggur fyrir og þurfum að ná einhverri annarri niðurstöðu en hér er sett á blað.
    Það vil ég hafa mín lokaorð. Ég held að landbn. verði að beita sér verulega í þessari vinnu í vetur til þess að reyna að girða fyrir að hér hendi slys í lagasetningu og til að finna framtíðarlausn á þessu máli. Ég ítreka þau orð mín að ég tel að þetta frv. muni því miður skerða frelsi og fella í verði eignir bænda og stöðva ákveðna þróun innan lands sem ég hef ekkert við að athuga og hefur haft góð áhrif, alla vega í mínu kjördæmi. Ég hygg að sú þróun sé að breiðast út um allt land og hana megum við ekki stöðva. Það er því mikilvægt, hæstv. forseti, að þingið vinni þetta mál vel.