Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 15:55:45 (1160)


[15:55]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um að það er þess virði að skoða hvaða möguleikar liggja í því að greina á milli annars vegar þess réttar sem menn öðlast á grundvelli staðfesturéttarákvæðanna og frelsis til atvinnustarfsemi og fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga o.s.frv. og upp að vissu marki á grundvelli frelsis fjármagnsflutninga og fjárfestinga, þ.e. þegar um væri að ræða kaup í einkaafnotaskyni, hreinu einkaafnotaskyni sem ekki væri atvinnustarfsemi og ekki væri fjárfesting sem væri hugsuð til arðsköpunar sem slíkrar.
    Það er hins vegar spurning hvort þau lagaákvæði ættu þá að vera í jarðalögum, sem eru náttúrlega svona ákveðin atvinnuvegalöggjöf öðrum þræði, þ.e. af því að það eru landbúnaðarnotin sem eru gegnumgangandi í jarðalögum. Ég er alveg sammála því að þarna væri svið sem væri þess virði að athuga. Ég skal viðurkenna að mínar athuganir á þessu máli hafa fyrst og fremst beinst að staðfesturéttinum eins og hann liggur í atvinnuskyni, þ.e. á þeim grundvelli. Ég er reyndar viss um að það er það praktíska vandamál sem er líklegast að við rækjumst á á næstu árum. Þó ætla ég ekkert að útiloka að kaup á landi til sumardvalar eða einhverra slíkra hluta í algeru einkaafnotaskyni verði líka á ferðinni.
    Ég vil ekki fara of langt út á það svið réttarins af því að ég hef ekki skoðað það mjög vandlega, enda má segja að það sem að okkur snýr núna er auðvitað samningssviðið og við viljum út af fyrir sig hvenær sem er gert allt sem við getum sem liggur utan samningssviðsins. Það hleypur í sjálfu sér ekki frá okkur. Það sem þarf að afmarka núna er hvað getum við gert ef eitthvað innan ramma samningssviðsins gagnvart því frelsi sem samningurinn tryggir ríkisborgurum Evrópska efnahagssvæðisins hér og fellur undir samningssviðið. En ég er alveg sammála um það, hvort sem það á að koma inn í fasteignalögin, jarðalög eða einhvers staðar annars staðar, að þá er ástæða til að skoða, er hægt að setja til hliðar skorður gagnvart því t.d. þegar land hefur farið úr afnotum til atvinnustarfsemi, er erfðagóss eða annað því um líkt, er þá hægt að takmarka möguleika útlendinganna með öðrum hætti en er hægt gagnvart atvinnustarfseminni?