Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 15:58:21 (1161)


[15:58]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Við ræðum hér frv. til breytinga á jarðalögum sem er einn af fylgifiskum EES-samningsins, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir þessu frv., en ég held reyndar að hann hafi haldið sambærilega ræðu hér áður. Þó að hann hafi haldið að þetta væri í fyrsta skipti sem hér væri mælt fyrir þessu máli þá held ég að það sé ekki alveg rétt, en það breytir engu í raun. En það sem ég vildi segja um þetta frv. er í fyrsta lagi að það er ákaflega gallað. Mér þykir mjög slæmt að þurfa að standa að því að samþykkja frv. sem þetta sem í raun takmarkar mjög rétt Íslendinga til þess að kaupa jarðir. Þetta er hins vegar e.t.v. nauðsynlegt í ljósi þess að það getur raunverulega leitt til þess að auka rétt okkar í heildina, ef við lítum á okkur Íslendinga sem heild. Það er auðvitað mikið neyðarbrauð að þurfa að setja lög sem þessi til að reyna að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti náð tangarhaldi á auðlindum okkar á landi, þ.e. ég tel að það sé ekki eingöngu um að ræða aðgang að laxveiðiám og jarðhita í jörðu og fleiru slíku, heldur tel ég skipta mjög miklu máli landið sjálft og afnot af því, sem ég tel mjög mikilvæga auðlind. Að því leyti til get ég tekið undir það sem hér hefur komið fram hjá öðrum, að þarna er í raun veruleg hætta á því að verið sé að setja lög sem skerða svo réttindi Íslendinga til að kaupa jarðir að það muni verðfella jarðir hér á landi og máttu nú bændur ekki við því því að víða er verð á jörðum mjög lágt og menn eiga í raun mjög erfitt með að selja jarðir sínar þó svo þeir vilji láta þær fyrir lítið.
    Hér hafa menn lýst því hvernig borgarbúar hafa gerst sveitamenn, ef maður getur orðað það svo, með því að kaupa jarðir, vera þar með e.t.v. lítinn rekstur. Vilja búa í sveit þó að þeir stundi jafnvel vinnu í þéttbýliskjörnum sem eru nálægt eða jafnvel nokkuð frá, en vilja gjarnan stunda eilítinn búrekstur með. Geta hugsanlega verið með hænur eða eitthvað þess háttar. Þannig að þarna getur verið að við séum að skerða rétt okkar borgarbúa til þess að geta haft aðgang að atvinnurekstri úti í sveit jafnframt.
    Auðvitað mátti öllum vera ljóst þegar samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var samþykktur hér á Alþingi, að það þyrfti að setja eitthvað slíkt í lög eins og þetta vegna þess að í samningnum var ekki neinn fyrirvari um að það mætti mismuna, að því er varðaði landakaup, eftir þjóðerni. Þess vegna átti öllum að vera það ljóst. Hér hafa menn verið að karpa um það hvort þetta hafi verið gert í tíð fyrrv. ríkisstjórnar eða þessarar ríkisstjórnar. Mér finnst það engu máli skipta. Það sem skiptir máli er að þegar samningur um Evrópskt efnahagssvæði var samþykktur þá var enginn fyrirvari í samningnum að því er varðaði landakaup. Það er það sem auðvitað skiptir máli fyrir okkur. Þess vegna finnst mér nánast hlægilegt þegar menn eru að láta það vera eitt aðalatriðið hvaða ríkisstjórn hafi verið við völd þegar þetta var gert. Það er staðreynd að við höfum verið með sama utanrrh., hæstv. núv. utanrrh., sem hefur farið með samningsumboð fyrir Íslendinga allan þennan tíma. Það er einnig staðreynd að sá utanrrh. vildi aldrei hafa neina einustu fyrirvara inni í samningnum. Hann vildi hafa hann fyrirvaralausan.
    Það er heldur ekkert leyndarmál og hann hefur ekkert legið á því, þessi sami hæstv. utanrrh., að hann vill fara beina leið inn í Evrópusambandið og það er þangað sem hann stefndi og hann stefndi þangað með þessum samningi um Evrópskt efnahagssvæði og aðild Íslands að honum. Menn sáu auðvitað að það þýddi ekkert annað en að halda því fram að þetta væri einhver endastöð og það ætti ekkert að fara lengra. Það yrði að halda því fram hér á Alþingi til þess að margir hverjir greiddu þessum samningi atkvæði sitt. Það var markmið hæstv. utanrrh. og e.t.v. fleiri að plata þingmenn til fylgis við samninginn með því að halda fram ýmiss konar bábilju.
    Mig langar í því sambandi að vitna til þess að þegar verið var að kynna þennan samning á Stöð 2 þann 30. okt. 1991, þegar samningagerð var lokið að því er varðaði þessi atriði, þá kom hæstv. utanrrh. í viðtalsþátt á Stöð 2 sem m.a. ég tók þátt í og þá hélt hann því fram að það væri ekki nokkur einasti vandi að setja girðingarreglur sem gerðu það að verkum að það væri hægt að veita Íslendingum þar forgang. Þá nefndi hann sem dæmi að í Grikklandi væri þetta með þessum hætti. Þar hefðu Grikkir sett almenn lög sem útilokuðu kaup á öllum grísku eyjunum. Þar hefðu verið settar kröfur um búsetu og nýtingu og svo fullyrti hæstv. utanrrh. í þessum þætti og það hefði staðist fyrir dómstólum. Síðan nefndi hann Írland til sögunnar og sagði að þar væri það sama, Írar hefðu sett girðingarlög. Svo tók hann þriðja dæmið og það var Danmörk og sumarbústaðurinn. Síðan þegar ég hélt því fram í þessum þætti að þetta stæðist auðvitað ekki og þetta væri ekki rétt sem ráðherrann væri þarna að segja þá sagði hann: Jú, ég er með þetta allt saman í töskunni. Ég er með alla þessa dóma í töskunni og þetta er alveg rétt. Það þurfti ekki nema eitt símtal daginn eftir til utanrrn. til þess að vita að auðvitað stóðst þetta ekki nokkurn skapaðan hlut. Það var allt saman ósatt sem hæstv. utanrrh. hafði sagt og er það ekki í fyrsta skipti sem hann er ber að því að segja þjóðinni og þar með töldum þingmönnum ósatt í þessu máli.
    Allt var reynt til þess að blekkja til að koma þessum samningi í gegn og haldið fram ýmiss konar bábilju, eins og t.d. að það væri ekki nokkurt mál að setja girðingar hingað og þangað. Það var eingöngu lögð áhersla á það að Íslendingar mundu verða ríkir og feitir af þessum samningi og 7 milljarðar ættu að streyma inn í ríkiskassann á ári hverju, ef skilja mátti ráðherrann rétt. Það hefur nú reyndar staðið eitthvað á þeim milljörðum.
    Í umræddum sjónvarpsþætti hélt ráðherrann því enn fram að þetta væri ekki nokkurt einasta mál, girðingar hingað og þangað. Þetta hefðu aðrar þjóðir gert og þess vegna væri ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar gerðu það líka. En auðvitað kemur í ljós að þetta var allt tóm vitleysa og þess vegna þurfum við að setja í lög ákvæði eins og fram koma í þessu frv., þar sem meira að segja er vafamál hvort það muni standast fyrir dómi. Dómstóll Evrópusambandsins í Lúxemborg hefur verið ákaflega tregur til að viðurkenna að hægt sé að setja í lög einhver ákvæði sem mismuna þegnunum. Haldið er fram núna að slíka mismunun megi setja í lög, og sérstaklega það sem kemur fram í 5. gr., þar sem miðað er við að þeir sem geti keypt land þurfi að hafa starfað í landbúnaði í fjögur ár og þar af tvö ár hér á landi --- það eru margir sem telja að þetta sé þess konar mismunun sem mundi ekki standast fyrir dómi. Ekkert skal ég fullyrða um það. Auðvitað vona ég að það standist að við getum sett einhverjar girðingar sem þessar í íslensk lög, þó að mér þyki þetta ákaflega slæmar girðingar.
    Við verðum að gera okkur grein fyrir því að samkvæmt samningnum um Evrópskt

efnahagssvæði skuldbindum við okkur líka til þess að hlíta niðurstöðum dómstóls Evrópusambandsins, þ.e. að það sem þeir höfðu dæmt yrði lagt til grundvallar dómum hér á landi að því er varðaði samninginn. Það þýðir auðvitað að þó svo að hann sé ekki dómstóll hér á landi þá er það svo að það sem hann hefur dæmt hefur í raun fordæmisgildi hér á landi fyrir íslenska dómstóla og það er þess vegna sem við erum háð honum þó svo við séum ekki beinlínis undir hann seld. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að eftir Maastricht-samkomulagið hefur verið enn meiri tilhneiging í Evrópu til þess að afnema allt sem heitir mismunun eftir þjóðerni. Að vísu fengu Danir það ákvæði inn núna við samþykkt Maastricht-sáttmálans að þeir fengju að hafa þau ákvæði áfram inni í dönskum lögum að það mætti mismuna að því er varðaði sumarbústaðalönd á Jótland, en það var talið að það væri eingöngu vegna þess að þetta ákvæði var inni áður og það mundi ekki fást samþykki í Danmörku fyrir Maastricht-samkomulaginu ef þetta ákvæði væri ekki inni. Það var hreint og klárt verið að múta Dönum til að samþykkja Maastricht-samkomulagið. Hins vegar hefur því verið lýst margoft yfir að slíkt ákvæði væri ekki hægt að fá fyrir aðra og t.d. hafa Norðmenn ekki fengið slíkt ákvæði inn fyrir sig vegna þess að það þótti ekki hægt að setja nein slík ákvæði inn í samning þeirra ríkja sem nú ganga inn í Evrópusambandið vegna fordæmisins. Í framtíðinni getur vel verið, ef við höldum áfram að vera aðilar að Evrópsku efnahagssvæði án breytinga, að það muni reynast erfitt fyrir okkur, að hafa slík ákvæði eins og verið er að tala um hér í íslenskum lögum.
    Ég verð hins vegar að viðurkenna að það getur vel verið að við neyðumst til þess hér á Alþingi að setja lög eins og hér er gert ráð fyrir að gera með þeim göllum sem því fylgja. Ég vil hins vegar benda á að það er hægt að tryggja enn þá frekar rétt Íslendinga í þessu sambandi ef sett væru hér lög um þjóðareign Íslendinga á auðlindum eins og t.d. auðlindum í jörð, bæði heitt og kalt vatn og það væri hægt að lýsa þjóðareign á t.d. fallvötnum, svo ég nefni nú ekki það sem ég tel að yrði seint samþykkt hér á landi, að laxveiðiár eða allar ár væru líka þjóðareign. Slíkt er t.d. í bandarískum lögum, þannig að það væri svo sem ekkert fráleitt að það yrði gert hér á landi. Ég býst ekki við því að það yrði í náinni framtíð sátt um það hér á landi, en ég bendi á það sem möguleika til þess að tryggja það að auðlindir landsins verði áfram undir yfirráðum Íslendinga eins og hingað til hefur verið, sem betur fer. Því það er grundvallaratriði í allri efnahagsstjórn og varðar sjálfstæði Íslendinga að við höfum yfirráðarétt yfir auðlindum til lands og sjávar.
    Ég óttast það, því miður. Með samningi um Evrópskt efnahagssvæði þá tókum við eitt skref og ég vona að við sameinumst um það að taka ekki næsta skrefið, þ.e. alla leið inn í Evrópusambandið. Það liggur hins vegar fyrir núna að við gætum reynt að laga samninginn um Evrópskt efnahagssvæði með þeim hætti að við þurfum ekki að undirgangast þann stofnanaþátt sem þar er og við gætum lagað hann þannig að íslenskum hagsmunum sé betur borgið heldur en nú er, þ.e. að óbreyttum samningi, þannig að við getum breytt þessum samningi í tvíhliða samning og sniðið af honum þá agnúa sem eru stærstir og komið því þannig fyrir að við sameinumst um það hér á landi, hér á Alþingi þá fyrst og fremst, að taka þær tilskipanir og þau lög sem okkur eru send frá Evrópusambandinu og hafna því sem við teljum ekki gott fyrir Íslendinga og gætum þá tekið það upp sem við teljum vera okkur til farsældar. Þá tel ég að við gætum náð góðu samkomulagi og góðri samvinnu við löndin sem eru í Evrópusambandinu. Með því eigum við að geta haft gott samstarf við ekki bara Evrópuþjóðir sem eru í Evrópusambandinu heldur allar Evrópuþjóðir og raunar allar þjóðir heims.