Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 16:14:49 (1162)


[16:14]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Bólar nokkuð á hæstv. utanrrh. og formanni Alþfl.? Fyrr í þessari umræðu var beðið um hann og ég hefði gjarnan viljað leggja fyrir hann spurningu í þessu samhengi. Kannski treystir hæstv. landbrh. sér til að svara spurningunni, en þó hygg ég að hæstv. utanrrh. sé nú kannski manna fróðastur í þessum Evrópumálum, þó ég reyndar

treysti honum ekki fullkomlega.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun láta grennslast fyrir um það hvar hæstv. utanrrh. er. Hann er ekki í húsinu þessa stundina. Forseti væntir þess að hæstv. landbrh. geti veitt svör, en mun kanna hvar hæstv. utanrrh. er.)
    Ég þakka forseta fyrir. Það var fyrir allnokkru beðið um hæstv. utanrrh. en hann hefur ekki látið sjá sig.
    Virðulegi forseti. Eins og þær umræður sem hér hafa farið fram í dag bera með sér þá er hér býsna stórt og flókið mál og umdeilt á ferðinni. Þetta mál kom til hv. landbn. í fyrra og það var sent til umsagnar, en af ýmsum ástæðum fór nefndin aldrei ofan í málið. Það var aldrei byrjuð alvarleg meðferð eða alvarleg umræða um þetta mál í nefndinni, bæði vegna tímaskorts og vegna þess að við áttuðum okkur á því að hér var um mjög flókið mál að ræða.
    Það sem ég hef verið að velta fyrir mér og hefði gjarnan viljað bera undir hæstv. utanrrh. er einfaldlega hvort það er nauðsyn á þessari löggjöf, eða löggjöf af þessu tagi, í ljósi þess sem kann að vera fram undan. Þá á ég við að ef svo fer að Norðurlöndin ganga inn í Evrópusambandið, sem allt er nú reyndar óvíst um, og samningnum um Evrópskt efnahagssvæði verði breytt í tvíhliða samning. Menn hafa rætt um það að við yrðum þá að nokkru eða miklu leyti að losa okkur við stofnanaþátt samningsins og þá er spurningin: Er þörf fyrir löggjöf af þessu tagi? Hvað verður í raun mikið eftir af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði? Verður það fjórfrelsið eins og það leggur sig eða verður það fyrst og fremst viðskiptaþátturinn?
    Nú er þetta hluti af fjórfrelsinu, kostur þessa samnings, því er ekki að neita, en ég hreinlega átta mig ekki á því hvað nauðsynlegt er að gera í ljósi þessara breytinga sem eru fram undan. Ég held í raun og veru að við hér á hinu háa Alþingi þurfum að átta okkur dálítið betur á þessu áður en við höldum áfram að samþykkja hér hvern lagabálkinn á fætur öðrum um hin ýmsu mál sem snerta samninginn. Ég vil nefna það að t.d. er á dagskrá hér í dag lagafrv. um hópuppsagnir, atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga. Ef ég man rétt þá eru þessi frv. um hópuppsagnir og atvinnu- og búseturétt að koma hérna í þriðja sinn, þ.e. það er verið í þriðja sinn að samþykkja frumvörp þessa efnis vegna þess að þetta eru nýjar og nýjar tilskipanir. Hér er alveg lifandi komið það sem verður fram undan á næstu árum ef EES-samningurinn verður óbreyttur í gildi og við þurfum að lögtaka hér þær tilskipanir Evrópusambandsins sem snerta samninginn. Þá eru hér sömu málin að koma upp aftur og aftur og þetta er svona eins konar færiband.
    Mér finnst að við þurfum að glöggva okkur svolítið á þessu. Það er auðvitað of snemmt núna, við þurfum að sjá hvað kemur út úr þjóðaratkvæðagreiðslunum í Noregi og Svíþjóð til þess að átta okkur á því í hvaða stöðu við verðum eftir þær, en við þurfum virkilega að reyna að átta okkur á því hvað fylgir og hvað hugsanlega dettur út þegar samningurinn verður endurskoðaður og væntanlega gerður að tvíhliða samningi eins og Alþingi hefur samþykkt að stefna að.
    Sú umræða sem hér hefur farið fram í dag og er auðvitað meginmál þessa frv., er þessi spurning um girðingar eða ekki girðingar og hvort þau ákvæði sem hér eru séu fullnægjandi eða hvort þau ganga of langt.
    Ég verð að segja það, herra forseti, og hef nefnt það áður að mér finnst vera ákveðin mótsögn í þessum málum öllum saman, að fara út í þessa miklu samningsgerð um Evrópskt efnahagssvæði til þess að innleiða hér frelsi í viðskiptum og samþykkja frelsi á fjölmörgum sviðum en ætla síðan á eftir að loka fyrir frelsi. Við ætlum okkur að njóta frelsis í öðrum löndum en síðan á að reyna að loka á frelsi í ýmsum efnum þar sem útlendingar eiga í hlut. Nú er ég ekki að leggjast gegn því að settar séu einhvers konar girðingar en það er ákveðin mótsögn í þessu: Að opna fyrst allt upp á gátt og ætla svo að reyna að setja upp einhverjar hindranir. En þetta eru afleiðingarnar af þessum samningi.
    Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með baráttunni í Svíþjóð og Noregi sem harðnar nú dag frá degi. Manni finnst að maður kannist við margt í málflutningi sem þar er

hafður í frammi, ekki síst forustumanna í Noregi, flokksbræðra og -systra hæstv. utanrrh. sem fullyrða og fullyrða og lofa öllu fögru. Það minnir mjög á það hvernig hæstv. utanrrh. talaði í umræðunni um EES þar sem hann sá ekkert nema hið skæra ljós. En í þessu frv. er einmitt komið að erfiðu máli og stórum spurningum um það hversu langt á að ganga.
    Það hefur verið vikið nokkuð að t.d. reynslu Dana og Grikkja og annarra þjóða. Það er staðreynd að bæði Danir og Spánverjar ráku sig býsna illilega á þegar þeir áttuðu sig á því hversu galopin lönd þeirra voru fyrir landakaupum. Báðar þjóðirnar hafa reynt að koma upp einhvers konar girðingum eða einhvers konar hömlum á landakaup en það hefur gengið misjafnlega. T.d. vöknuðu menn á Spáni upp við vondan draum þegar ríkir útlendingar voru búnir að kaupa meira og minna upp svæðin meðfram ströndum Spánar og stórum svæðum var hreinlega lokað. Þau voru orðin einkasvæði sem aðrir fengu ekki að koma inn á. Þarna var of langt gengið í því að opna og auðvitað ekki tilgangurinn að útlendingar kaupi upp heilu landsvæðin og loki þeim síðan fyrir hina ríku eða þá sem eiga og vilja njóta.
    Danir lentu í vandræðum með sumarbústaðasvæði. Það hefur gengið nokkuð illa að verjast þessu. Þetta er einfaldlega hluti af Evrópusambandinu og því frelsi sem verið er að innleiða í Evrópusambandinu og m.a. var aukið með Maastricht-samkomulaginu.
    Ég ætla aðeins að víkja að nokkrum atriðum þessa frv. Ég ætla að taka það fram að ég hef ekki mótað ákveðna afstöðu til frv. í heild. Mér finnst vera hér atriði sem við í hv. landbn. þurfum að athuga mjög rækilega og þá ekki síst 3., 5. og 6. gr. frv. Ég vil í því sambandi, herra forseti, rifja það upp að okkur bárust nokkrar umsagnir í fyrra og vissulega þyrfti að leita til fleiri. Í greinargerðinni er reyndar vitnað til þeirrar vinnu sem Tryggvi Gunnarsson lögmaður og fleiri unnu á sínum tíma og er grundvöllurinn að því frv. sem er til umræðu en ýmsir aðilar sendu okkur umsagnir í fyrra sem við vorum reyndar ekki búin að vinna úr. Þar koma fram athugasemdir frá Búnaðarfélaginu m.a. sem sendi okkur ályktanir búnaðarþings og þær athugasemdir þarf að kanna af mikilli alvöru. En þær umsagnir sem mér finnast athyglisverðastar eru frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem það sjónarmið kemur fram að það sé verið að ganga of langt og það sé verið að leggja stein í götu þróunar og stein í götu sveitarfélaganna.
    Ég gleymdi að nefna 4. gr. Það þarf líka að skoða ákvæði 4. gr. um sumarbústaðina. En þau atriði sem hér valda einkum hugarangri og vangaveltum er í fyrsta lagi spurningin um 3. gr. þar sem er að finna skilyrði um fasta búsetu í fimm ár. Í fyrsta lagi hvort þetta sé nægjanlegt skilyrði gagnvart útlendingum og í öðru lagi hvort þar með sé verið að gera Íslendingum afar erfitt fyrir. Menn verða að átta sig á því hvaða áhrif þetta hefur. --- Ég skal endurtaka spurningu mína til hæstv. utanrrh. Það hafa fleiri viljað beina spurningum til hæstv. utanrrh. í dag en hann er náttúrlega upptekinn af sínum störfum og átti kannski ekki von á því að vera kallaður til í landbúnaðarumræðu, en hann er mikill vinur landbúnaðarins eins og við vitum og auglýsir hann við öll tækifæri. Ég ætla aðeins að ljúka því sem ég var að segja um einstakra greinar frv. og koma síðan aftur að því máli sem ég var að reifa hér.
    Það er í fyrsta lagi þetta skilyrði um búsetu í fimm ár. Síðan er gerð athugasemd við þá takmörkun sem er að finna í frv. varðandi byggingu sumarbústaða á landi sem ekki hefur verið leyst úr landbúnaðarafnotum, eins og segir í frv. Síðan er þetta skilyrði í 5. gr. um að hafa starfað við landbúnað. Þetta var leiðin sem Danir fóru og hefur reyndar verið nokkuð umdeild.
    Síðan vil ég nefna það að í umsögn Alþýðusambands Íslands er einmitt vikið að því sem fram kom í máli síðasta ræðumanns varðandi það að besta girðingin sé sú að lýsa náttúruauðlindir landsins þjóðareign eins og reyndar Alþfl. hefur margoft lagt til á undanförnum árum. ( Utanrrh.: Ekki bújarðir.) Ekki bújarðir nei, en auðlindir. Þar tek ég undir með Alþfl. Það ætti að vera búið að gera það fyrir lifandis löngu. En ég veit ekki hvort hv. formaður landbn. er mér sammála í því.
    Það sem ég var að velta fyrir mér, hæstv. utanrrh., og nú ætla ég mjög að stytta

mál mitt, er sú spurning sem vaknar vegna máls eins og þessa. Við erum með, reyndar í þriðja sinn, frv. til breytinga á jarðalögum og við vitum að fram undan kunna að vera miklar breytingar á Evrópusambandinu og þar af leiðandi á EES, ekki á samningnum sjálfum heldur gildissvæði hans, þ.e. á EFTA-hliðinni. Ég var að velta fyrir mér ef samningnum um Evrópskt efnahagssvæði verður breytt í tvíhliða samning og það verður dregið úr stofnanaþættinum og hann verður fyrst og fremst viðskiptasamningur, við þurfum auðvitað að breyta stofnanaþætti samningsins í takt við það sem við ráðum við, hvort lagasetning eins og þessi hér, og ýmislegt fleira sem hefur verið í farvatninu og flokkast undir girðingar, eins og lögin sem við erum heldur ekki búin að afgreiða um orkuauðlindir og fallvötn og fleira slíkt, sé nauðsynleg. Skilur, hæstv. utanrrh., spurninguna? Það sem ég er hreinlega að velta fyrir mér er: Þurfum við ekki að setjast niður núna og átta okkur á því hvaða breytingar verða hugsanlega eða hreinlega bíða og sjá hvað verður ákveðið áður en við förum að afgreiða mikla lagabálka um málefni eins og þetta, breytingu á jarðalögum, eða lögin um yfirráð yfir orkuauðlindum og annað slíkt? Er það nauðsynlegt? Eru lagabreytingar á þessu sviði nauðsynlegar ef við breytum samningnum í tvíhliða samning þar sem fyrst og fremst verður lögð áhersla á viðskipti? Þetta er spurningin, hvort fjórfrelsið verði í gildi á sama hátt og áður eða verður þar hugsanlega breyting á?
    Ég er að velta þessu fyrir mér. Ég átta mig ekki á því og mér finnst að áður en við förum að leggja mikla vinnu í frv. eins og þetta þurfum við að átta okkur á því hver staðan sé, hvað sé það sem er fram undan í þessu. Hvað er það sem breytist?