Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um hópuppsagnir, nr. 95/1992. Frv. þetta er flutt í framhaldi af ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar um Evrópska efnahagssvæðið 21. mars sl., um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Að öðru leyti vísa ég til umræðna sem fram fóru hér á vorþingi þann 7. apríl og er að finna í Alþingistíðindum.
Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru tilvísanir í ESB-gerðir sem snerta EES og Evrópusambandið gaf út fyrir 1. ágúst 1991. Í því skyni að tryggja einsleitni samningsins og réttaröryggi fyrir einstaklinga og atvinnurekendur er nauðsynlegt að breyta samningnum með hliðsjón af gerðum útgefnum af Evrópusambandinu eftir 31. júlí 1991. Með tilliti til þessa ákvað sameiginlega EES-nefndin m.a. að tilskipun ráðsins nr. 92/56/EBE frá
24. júní 1992 um breytingu á tilskipun 75/129/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir bætist við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði tilskipunar 75/129/EBE hafa öðlast gildi á Íslandi með lögum nr. 95/1992, um hópuppsagnir. Frv. þetta er flutt til að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum sem leiðir af því að tilskipun Evrópusambandsins 92/56/EBE verði hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Frv. er samið í samráði við nefnd sem félmrh. skipaði 23. ágúst 1993 til að fjalla um framkvæmd reglna á sviði félagsmála sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Hlutverk samráðsnefndarinnar felst einnig í að vera ráðgefandi við mótun á afstöðu íslenskra stjórnvalda til tillagna að nýjum reglum á sviði félagsmála sem kunna að taka gildi á efnahagssvæðinu. Í nefndinni eru fulltrúar frá eftirtöldum aðilum: félmrn., fjmrn., utanrrn., Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Vinnuveitendasambandi Íslands.
Samkvæmt 2. gr. tilskipunar 92/56/EBE er hægt að hrinda í framkvæmd ákvæðum hennar með tvennum hætti: Með samningum aðila vinnumarkaðarins eða með setningu laga. Samráðsnefnd félmrn. er sammála um að í því tilviki sem hér um ræðir sé eðlilegast að gefa ákvæðum tilskipunarinnar lagagildi með því að breyta lögum nr. 95/1992.
Helsta breytingin frá núgildandi lögum kemur fram í 1. gr. Þar er tekið fram að uppsögn ráðningarsamninga einstakra starfsmanna skuli teljast með hópuppsögnum að því tilskildu að um minnst fimm uppsagnir sé að ræða. Aðrar breytingar felast í því að ákvæði um upplýsingaskyldu og samráð eru gerð ítarlegri eins og gerð er grein fyrir í athugasemdum við einstakar greinar frv.
Önnur meginbreyting sem felst í tilskipuninni en snertir í minna mæli íslenskar aðstæður er ákvæði 3. gr. Það miðar að því að koma í veg fyrir að atvinnurekendur geti notað höfuðstöðvar eða dótturfyrirtæki erlendis sem afsökun fyrir því að geta ekki uppfyllt upplýsingaskyldu innan tímamarka sem mælt er fyrir um í tilskipuninni.
Ég mun víkja nokkrum orðum að einstökum greinum frv. Samkvæmt 1. gr. frv. er lagt til að við 1. gr. gildandi laga bætist ný málsgrein þar sem kveðið er á um að uppsögn ráðningarsamninga fimm einstaklinga á 30 daga tímabili skuli teljast með hópuppsögnum. Hér er átt við uppsagnir sem tengjast einstökum starfsmönnum og uppfylla framangreind skilyrði. Markmiðið með breytingunni er að bæta réttarstöðu starfsmanna með því að taka skýrt fram að sé ráðningarsamningum fimm starfsmanna eða fleiri sagt upp á ákveðnu tímabili skuli beita ákvæðum laga um upplýsingaskyldu og samráð.
Helsta breytingin frá gildandi lögum kemur fram í 2. mgr. 2. gr. frv. Samkvæmt henni er hliðstætt ákvæði í gildandi lögum gert ákveðnara. Tekið er fram að beita skuli félagslegum aðgerðum til að draga úr afleiðingum hópuppsagna sem hafa m.a. að markmiði að auðvelda tilfærslur eða endurhæfingu starfsmanna sem hefur verið sagt upp.
Í 4. mgr. er aukið við upplýsingaskyldu atvinnurekenda. Til viðbótar upplýsingum sem atvinnurekandi skal veita samkvæmt 3. gr. gildandi laga skal hann enn fremur upplýsa um viðmiðanir sem hann notar við val á starfsmönnum sem hann hyggst segja upp og um það hvernig greiðslur til starfsmanna eru reiknaðar ef um slíkar greiðslur er að ræða.
Ákvæði 3. gr. frv. snertir fyrst og fremst fjölþjóða fyrirtæki. Markmiðið er að tryggja að fylgt sé ákvæðum um fresti til að stofna til samráðs og til að tilkynna hlutaðeigandi stjórnvöldum um væntanlegar uppsagnir. Í ákvæðinu felst að atvinnurekandi getur ekki borið fyrir sig að ákvörðun um að hópuppsögn hafi verið tekin í höfuðstöðvum fyrirtækisins erlendis eða af erlendu dótturfyrirtæki og þar af leiðandi hafi honum ekki verið kleift að uppfylla kröfur um tímafresti.
4. gr. frv. fjallar um gildistíma. Lagt er til að lögin taki gildi á sama tíma og ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar um Evrópska efnahagssvæðið um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Gert er ráð fyrir að Alþingi muni með þingsályktun afgreiða þessar gerðir áður en þing lýkur störfum í vor. Gildistaka verður auglýst í C-deild Stjórnartíðinda. Þess er vænst að gildistökudagur
verði 1. júlí 1995.
Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir helstu atriðum frv. um breyting á lögum um hópuppsagnir. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.